Bechdel-Sindra bókaprófið

Ég hef lesið fantasíu bækur síðan ég var barn. Tolkien og C.S. Lewis voru mínir fyrstu höfðingjar, en svo bættust við einstaklingar eins og Raymond E. Feist og R. A. Salvatore og Ed Greenwood. Feist hefur ávallt verið í mínu allra mesta uppáhaldi. Ég á allar hans bækur, eða tæplega 40 bækur.

Sökum þess hvernig bækur Feist’s eru, þá var einn þríleikur eftir hann sem ég hafði alltaf gengið framhjá. Seríurnar hans eru allar tengdar einum heim nema þessi eini þríleikur. Þessi þríleikur á sér stað hjá „óvininum“ sem staðsettur var á öðrum heimi. Þar sem ég vildi lesa um hetjurnar hafði ég því vísvitandi skilið þennan þríleik eftir þar til allra seinast. Feist gaf út lokabók sína í þessari seríu fyrir ekki svo mörgum árum (2013) og ég las hana í kringum 2016. Ástæðan fyrir þessari töf á lestri var sú að ég ákvað að lesa allar bækurnar hans frá upphafi til enda og kveðja seríuna með því að enda á þessari seinustu bók. Það er að segja, allar bækurnar um hetjurnar.  Þetta skilaði sér í því að þegar seinasta bók seríunnar var lesin átti ég eingöngu eftir að klóra mig í gegnum þennan þríleik um vonda heiminn.

Þríleikurinn er skrifaður bæði af Feist og konu sem heitir Janny Wurts. Þessi bókaþrenna var, og er, sú sería sem ég les annað hvert ár eða svo og hef gert síðan…. Þetta eru þær allra bestu bækur sem Feist hefur komið nálægt. En hann skrifaði þær ekki einn, heldur með annarri manneskju – konu. Það er dýpt í þessum bókum sem ég hef ekki séð áður í verkum hans, hlutir sem mér áður hefur fundist vel gerðir eru núna snilldar vel gerðir. Þessar bækur eru bara einfaldlega betri í alla staði.

Út frá þessari lestrarreynslu vaknaði smá pæling hjá mér.

Pælingin var, hvaða fantasíu bækur eftir konur hef ég lesið? Bækurnar sem ég á og hef lesið skipta hundruðum og eftir nokkuð ítarlega eftirgrennslan gat ég einungis nefnt fjórar bækur þar sem kona er höfundur. Þríleikurinn með Feist, og svo stök bók eftir höfund sem heitir K.B. Bogen. Þannig að, eftir tæplega þrjátíu ára bókalestur var heildarlistinn minn af lesnum bókum stór og langur en á honum voru einungis fjórar bækur eftir konur.

Þetta gekk ekki í mínum huga og ég fór í það að skoða hvaða bókmenntir eru til eftir konur í fantasíu heiminum.

Ég setti mér tvær megin reglur. Mín einka bókaútgáfa af Bechdel prófinu.

Regla 1: Bókin er skrifuð af konu.
Regla 2: Bókin er um kvenkyns aðalpersónu.
Óskrifuð regla 3: Þetta er allt saman í fantasíuheimi – drekar, riddarar, dýflissur, galdrar og þar fram eftir götunum.
Óskrifaða regla 4: Ég er tilbúinn að veita undantekningu á reglu eitt eða tvö, en það þarf að vera vel rökstutt. Ég las bókaþrennu eftir Mark Lawrence (karl) sem er bara um nunnur, og svo bókaseríu eftir Robin Hobb (kona) en aðal persónan er karlmaður.

Regla fjögur er samt algjör undantekning.

….og þvílík rússíbanareið sem þetta hefur verið!

Í dag hef ég lesið tæplega fimmtíu bækur sem uppfylla þessi skilyrði. Að sama skapi hef ég aldrei haft eins gaman af því að lesa og núna. Þetta er eins og að uppgötva bókmenntir upp á nýtt. Í þessum bókalista eru bækur sem tróna nú á toppnum meðal bestu bóka sem ég hef lesið innan þessa geira.               Ég hef þrjátíu ára reynslu af lestri fantasíubókmennta, en eingöngu frá sjónarhorni annars kynsins. Núna hef ég tileinkað síðustu fjögur ár lestur á bókum eftir konur og um konur. Sú vegferð hefur sýnt mér að þarna leynist fjársjóður sem ég hafði ekki áttað mig á að væri til. Þetta gerir það að verkum að í dag eltist ég við að finna nýja höfunda, og þar með bækur, sem uppfylla Bechdel-Sindra bókaprófið og hlakka alltaf til þegar ég fæ tilkynningu um að bók sem ég hafði pantað, sem uppfyllir þessi skilyrði, sé komin í hús og bíði mín.
Annað sem vert er að nefna er að með hverri bók sem ég finn og les, fæ ég ábendingar um tvær aðrar sem vert er að skoða. Bókaheimurinn er stór og mikill og þótt að maður telji sig vera kominn með allt það besta sem bókmenntaheimurinn hefur upp á að bjóða, þá fær maður reglulega bók í hendurnar sem endurvekur áhugann á að finna fleiri slíkar bækur.

Fyrir þau sem myndilanga til að byrja á einhverjum bókum, þá mæli ég eindregið með:

1. Empire Trilogy eftir Raymond E. Feist og Janny Wurts. Þær heita Servant of the Empire, Daughter of the Empire og Mistress of the Empire.
2. The Deed of Paksenarrion eftir Elizabeth Moon. Bækurnar heita Sheepfarmers Daughter, Divided Allegiance, og Oath of Gold.
3. Priory of the Orange Tree eftir Samantha Shannon. Stök bók sem er hreint út sagt sláandi bókmenntaverk.

Einnig er vert að nefna höfunda eins og Marion Zimmer Bradley og Jen Williams.

Þetta er engan veginn tæmandi listi, þvert á móti þá er þetta einungis nefnt til að koma fólki á bragðið. Ég lofa ykkur því að þið verðið ekki svikin af þessum bókmenntum.

 

[hr gap=“30″]

Ég heiti Sindri Viborg og er fertugur tveggja barna faðir. Ég hef frá unga aldri verið heillaður af fantasíubókum, hlutverkaspilum, borðspilum og almennum nördisma. Í seinni tíma hafa bækur, bókmenntir, lestur og skrif heillað mig í auknum mæli og hefur það komið því í til leiðar að ég settist á skólabekk aftur og er að læra kennarann.

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...