“Staðreyndin er sú að barnauppeldi er langt og erfitt starf, ávinningurinn er ekki alltaf augljós, vinnan er vanmetin og foreldrar eru jafn mannlegir og næstum jafn berskjaldaðir og börnin þeirra.”
– Dr. Benjamin Spock, Baby and Child Care, 1945
Ég taldi mig vita sitthvað um börn og barnauppeldi þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn. Yndislega dóttir mín sannaði það aftur á móti mjög fljótt að svo var alls ekki.
Í mínum augum er þessi vegferð sem við köllum foreldrahlutverkið eins og að vera kastað í djúpu laugina við fæðingu barns. Við hefjum sundið misvel undirbúin:
Ósyndur: Ef þér er kastað í djúpt vatn verandi ósyndur muntu þurfa að hafa þig allan við til að komast á leiðarenda. Þú verður líklega mjög fljótt andlega og líkamlega uppgefinn við að halda þér á floti. Þú kemst samt sem áður í mark með því að bjarga þér á hundasundi.
Syndur: Þú kannt að synda og kemst á leiðarenda með því að nota gömul og gagnreynd sundtök. En þú ferð hægt yfir og vildir gjarnan kunna fleiri aðferðir þegar þú ferð að þreytast.
Ólympíumeistari: Þú stingur þér á þokkafullan hátt í laugina og syndir um eins og hafmeyja. Vatnið er þitt heimili, þú hefur stúderað það og ert full sjálfsöryggis þegar á móti blæs.
Með þessari samlíkingu á ég aðallega við tvennt: það sem Magga Pála uppeldissérfræðingur kallar “uppeldisarfinn” þ.e. hvernig þú varst alin/n upp og svo reynslu þína af börnum og barnauppeldi. Bjóstu á heimili með mörgum öðrum börnum? Passaðir þú börn sem unglingur? Ertu að eignast þitt fyrsta eða fimmta barn? Þeir sem eru ósyndir hafa kannski verið lítið í kringum börn og mögulega enga reynslu af barnauppeldi. Ólympíumeistararnir hafa umgengst mikið af börnum og upplifað mismunandi uppeldisaðferðir í orði og á borði. Þessir meistarar gætu verið ástríðufólk sem brennur fyrir þroska barna og t.d. verið menntaðir uppeldisfræðingar eða leikskólakennarar. Eða bara margra barna foreldrar.
En undirbúningurinn segir aðeins hálfa söguna. Það er ekki öll von úti fyrir óreyndu landkrabbana okkar. Segjum sem svo að ósyndri manneskju sé kastað í djúpu laugina. Hún baðar út höndum og fótum í örvæntingu. En það vill svo til að það er lífvörður í lauginni. Lífvörðurinn róar hana með nærveru sinni, grípur varlega undir höfuð hennar og syndir svo með hana björgunarsund. Og það eru fleiri lífverðir á bakkanum, tilbúnir til að stökkva út í ef þörf krefur.
Þessir lífverðir eru “þorpið” þitt. Þinn félagslegi stuðningur. Þetta eru t.d. foreldrar þínir, systkini, ömmur og afar, frændur og frænkur, vinir og jafnvel meðferðaraðilar eins og fjölskylduráðgjafar. Þessir lífverðir geta rétt fram hjálparhönd og veitt þér andlega næringu þegar þú getur ekki meir. Þeir geta skutlað og passað, ráðlagt og veitt samkennd.
Stundum eru lífverðirnir færri en við myndum kjósa. Sem betur fer eigum við fleiri haldreipi í pokahorninu sem ég tel jafn mikilvæg og lífverðina. Þessar bjargir eru hjálpartæki eins og sundgleraugu, froskalappir og kútar. Þessi hjálpartæki er öll sú fræðsla sem við öflum okkur um uppeldi: bækur, námskeið, hlaðvörp, sjónvarpsþættir og svo mætti telja áfram. Við þurfum að vanda valið því þau eru misjöfn að gæðum. Vel valin hjálpartæki geta skilið á milli þess að hinn ósyndi sökkvi til botns eða komist á hinn enda laugarinnar óskaddaður með bros á vör.
Svo eru auðvitað aðrir þættir sem hafa áhrif. Hvernig er vatnið sem þér er kastað í? Er það kristaltært og mátulega heitt? Eða er það gruggugt og ískalt? Skín sólin í heiði eða er blindbylur? Líta má á þessa þætti sem umhverfið okkar. Eigum við næga peninga? Er hverfið okkar barnvænt? Er heimsfaraldur eða ekki? Ólympíumeistarar í sundi munu eiga erfitt uppdráttar með slitin sundgleraugu í skítugu vatni. Lífið verður bærilegra fyrir ósynda með froskalappir í sumarblíðu.
Eftirfarandi bækur eru sundgleraugu og kútar sem hafa hjálpað mér í ólgusjó smábarnaaldursins.
Fowl language
Winging it: The art of imperfect parenting
Ég er búin að fylgjast með andafjölskyldu Brian Gordon síðan áður en ég eignaðist börn. Þessar yndislegu myndasögur hafa fleytt mér í gegnum dimmustu tíma hins hrikalega þroskaskeiðs sem við köllum tveggja ára ósköpin.
The Science of Parenting
Af hverju eru þau svona? Er spurning sem ég spyr sjálfa mig um börnin mín oft á dag. Stutta svarið er: Heili þeirra er óþroskaður. Lengra svar er að finna í þessari bók. Í henni er fjallað um heila- og taugaþroska barna sem er afar upplýsandi svo ekki sé meira sagt.
No-Cry bækurnar
Höfundur vísar ekki í það að börn eigi aldrei að gráta heldur vísar hún í andstæðu svokallaðrar “Ferberizing” aðferðar, eða cry-it-out aðferðar. Upphaflega skrifaði Elizabeth Pantley No-Cry bók um svefn en hefur síðan þá skrifað um koppaþjálfun, matarslagina, aga og fleira.
The Happiest Toddler on the Block
Harvey Karp, barnalæknir Bandaríkjanna, hefur fulla samúð með þér. Hann skrifar meira að segja það sem þú hugsar en þorir ekki að segja: Barnið þitt er stundum eins og hellisbúi. Hann kennir einfaldar aðferðir til eiga samskipti á hellisbúamáli.
The Book You Wish Your Parents Had Read
Ég segi stundum að það að eignast barn er eins og að borga í lífeyrissjóð. Auðvitað væri skemmtilegra að taka bara peninginn núna og fara í skemmtiferð til Köben frekar en að borga í einhvern mjög svo fjarlægan sjóð. En það borgar sig margfalt að leggja peninginn til hliðar í langan tíma, jafnvel þó þú sjáir engan árangur. Hann kemur seinna meir. Hið sama má segja um fjárfestingu okkar í börnunum. Ef þú gleymir öllu öðru mundu þá þetta: Börn eru lífeyrissjóður. Sjá nánari umfjöllun um bókina hér á Lestrarklefanum.
Uppeldi er ævintýri
Uppeldisdrottning Íslands er líka með námskeið á Frama sem ég mæli heilshugar með.
Ég bendi á að tilvitnunin efst í þessari grein er frá 1945. Ömmur okkar og afar voru í vandræðum með foreldra okkar þegar þau voru smábörn alveg eins og við erum nú. Og börnin okkar verða í vandræðum með sína litlu harðstjóra þegar þau verða foreldrar. Mundu bara að vinka þeim úr flugvélinni þegar þú ert á leiðinni í golfferð til Flórída. Því þú átt það skilið.