Á internetinum er hægt að finna dýpstu brunna þekkingar um hvaða málefni sem þú óskar þér, en líka botnlaus dý af vanþekkingu og lygi um nákvæmlega sama málefni. Það er okkar að velja úr þessum offramboði þekkingar og flokka í gott og slæmt. Þetta er stundum erfitt. Sjálf hef ég oft staðið sjálfa mig að því að fletta upp uppeldisráðum á netinu og þar ægir saman alls kyns ráðum, misgóðum. Betri leiðbeiningar að foreldrahlutverkinu finn ég í bókum. Og ég er ekki sú eina sem hef sótt þekkingu um uppeldi í bækur. Það er til ógrynni af bókum um foreldarahlutverkið og rétt eins og ráðin á netinu – misgóðar.
Fræðibókin sem grípur
Fyrir stuttu kom út bókin Bókin sem þú vildir að foreldara þínir hefðu lesið (og börnin þín fagna að þú gerir) eftir Philippu Perry. Bókin ber alveg hrikalega óþjált og sjálfhælið nafn sem gæti fælt hugsanlega lesendur frá, en ég ráðlegg þeim sömu að hverfa frá fordómunum, taka bókina sér til handargagns og lesa hana í gegn. Ég er ekki mikið fyrir fræðibækur eða leiðbeiningabækur. Oftast sofna ég yfir þeim eftir hálfa blaðsíðu, næ ekki innihaldi þeirra eða gefst hreinlega upp. Ég kenni um margra ára skólagöngu og of litlum yndislestri á þeim tíma. Bók Perry náði þó að heilla mig algjörlega upp úr skónum.
Það liggur allt í tengslunum
Í bókinni fjallar Perry um hvernig hægt sé að ala upp góð og þæg börn, en á allt annan hátt en ég hef áður lesið eða heyrt um. Hún leitar ekki leiða fyrir foreldarana til að stjórna börnunum heldur kallar eftir sameiginlegum skilningi milli foreldris og barns – að tengslin milli foreldra og barna séu sterk, heilbrigð og góð. Þessi tengsl séu grunnurinn að því að barninu líði vel.
Þessi nálgun er augljós þegar farið er yfir efnisyfirlit bókarinnar. Til að byrja með er heill kafli sem fjallar um arfleifð foreldra í uppeldinu, næsti kafli fjallar um umhverfi barnsins og samskipti foreldara, þriðji er um tilfinningar, í fjórða kafla er grunnurinn lagður (meðganga), í fimmta hluta fjallar hún um góða geðheilsu og í síðasta hluta fjallar hún loks um hegðun undir yfirskriftinni “öll hegðun er samskipti”.
Auðveldari leið að uppeldishlutverkinu
Aðferðir Perry kalla á óendanlega mikla þolinmæði af hálfu foreldranna en, eins og hún segir sjálf í bókinni, þá má líta á tímann sem fer í tengslamyndun sem fjárfestingu í framtíð barnsins og góðum tengslum síðar á lífsleiðinni. (Við viljum, jú, öll eiga góð tengsl við börnin þegar þau verða unglingar). Stíll Perry í bókinni er einstaklega hreinn og beinn. Hún setur upp dæmi, góð og slæm, af því sem hún ræðir um að hverju sinni og kemur með greiningu á hverjum atburði fyrir sig. Hún setur allt upp á einfaldan og svo augljósan hátt að maður hristir í raun hausinn og veltir fyrir sér af hverju maður hafi ekki verið búinn að uppgötva þetta allt saman sjálfur fyrir löngu. Hún gefur lesanda tækifæri til að hugleiða sjálfur sínar eigin aðferðir og setur upp æfingar sem auðvelt er að grípa til. Svo má ekki gleyma því að Perry skrifar í gamansömum stíl sem gerir lesturinn skemmtilegan og auðveldan og aldrei upplifir maður að Perry sé að predika um hvað sé rétt eða rangt. Hún gefur einfaldlega góð ráð og leiðbeiningar sem gætu gagnast.
Fyrir alla foreldra
Það er ekki auðvelta að vera foreldri og hver sá sem segir annað er að ljúga. Þótt maður geri sitt besta þá eru allar líkur á að maður eigi eftir að gera skissu einhvern tíman, en Perry er meira að segja með ráð við því. Það er nefnilega aldrei of seint að byrja á því að byggja upp góð tengsl. Því það er nákvæmlega það sem bókin fjallar um: Tengsl. Kjarni bókarinnar felur í sér að því betri tengslum sem við erum í við börnin okkar, því betur sem við skiljum þau, því betur gengur uppeldið – jafnt á smábarnaárunum sem og á unglingsárum. Það snýst allt um tengsl og að aðstoða einstaklinginn sem barnið er að takast á við lífið og framtíðina. Og að við gerum öll okkar allra besta. Samkvæmt Perry byggir uppeldi barna á tengslum og þegar góð tengsl eru komin á þá verði allt uppeldið betra og auðveldara því samskiptaleiðir eru opnar og gagnkvæm virðing ríkir milli forelda og barna. Það eina sem ég finn að bókinni er að í íslensku þýðingunni þá er óþarflega mikið um það að smáorð hafa dottið út úr textanum, það vantar allt of mörg “að”, “og” og “þó” og stundum rann textinn ekki eins þjált og hann hefði átt að gera fyrir þessar sakir.
Sjálf hef ég þegar prófað nokkrar aðferðir Perry á mínum drengjum (þriggja, átta og ellefu ára) og þær virka jafn vel á alla. Bræðis- og fíluköst taka skemmri tíma, gagnkvæm virðing hefur aukist og samskipti eru öll á mun rólegri nótum en fyrir nokkrum vikum. Þess vegna verð ég að mæla með bókinni fyrir alla – allt frá verðandi foreldrum til foreldra uppkominna barna. Ráðin í bókinni henta fyrir alla sem vilja skapa betri tengsl við samferðafólk sitt.