Chen Chen er kínversk-bandarískt, samkynhneigt ljóðskáld. Hann fæddist árið 1989 í Kína en flutti sem barn til Bandaríkjanna með foreldrum sínum. When I Grow up I Want to be a List of Further Possibilities er þriðja ljóðasafnið sem hann gefur út og fjallar um sjálfsmynd hans sem son kínverskra innflytjenda í Bandaríkjunum, kynhneigð sína og líf. Hann skrifar nútímaleg ljóð sem eru oft húmorísk en einnig átakanleg. Hann leikur sér með tungumálið og er óhræddur við að blanda slangri við ljóðformið. Von er á nýju ljóðasafni eftir hann seinna á þessu ári.
Staceyann Chin er ljóðskáld og aktívisti frá Jamaica. Bókin er sjálfsævisaga og fjallar um æsku Chin og uppvöxt í Jamaica og flutninga hennar til Bandaríkjanna sem ung kona. Hún á fjarlægan kínverskan föður og elst upp við fátækt hjá svartri móður sinni. Á unglingsárunum áttar hún sig á því að hún sé samkynhneigð og kemur út úr skápnum og tekst á við mótlæti og ofbeldi sökum kynhneigðar sinnar. Bókin er ljóðræn og falleg þrátt fyrir að takast á við erfið þemu eins og tekst á við klassisma, kynþátt og fordóma.
Ocean Vuong er víetnamskt-bandarískt verðlaunaljóðskáld. On Earth We‘re Briefly Gorgeous er fyrsta skáldsaga höfundar og í henni skrifar hann um samband ungs, samkynhneigðs manns, Little Dog, mömmu hans og móðurömmu. Sagan speglar líf höfundar og kvennana sem ólu hann upp og er skrifuð í bréfaskriftaformi, Little Dog skrifar móður sinni sem þjáist af áfallastreituröskun. Kynslóðartráma litar ævi Little Dog, fátækt, tungumálaörðugleikar við flutninga til nýs lands og uppgötvun á eigin sjálfi. Ótrúlega falleg og vel skrifuð bók sem leikur sér að tungumálinu og finnur fegurð í sársaukanum.
Danez Smith er svartur, kynsegin höfundur. Hán skrifar um ævi sína, um samfélagið og um hvað sem háni dettur í hug. Hán skrifar um ást og sambönd og eitt af fallegustu ljóðunum háns, að mínu mati, er ljóðið acknowledgements sem fjallar um vináttu. Hán skrifar um líf sitt sem HIV jákvætt, um kvenleika og um hamingju. Bókin er ein af mínum uppáhalds ljóðabókum sem hafði mjög djúpstæð áhrif á mig við fyrsta lestur. Í hvert sinn sem ég les ljóð eftir Smith hverfur staður og stund og ég dett ofan í heiminn sem hán skapar. Ef þú ætlar bara að lesa eina bók af þessum lista mæli ég óhikað með Don‘t Call Us Dead.
Alison Bechdel er sennilega þekktust fyrir að hafa fundið upp Bechdel prófið fræga, en hún skrifaði það upp sem brandara í Dykes to Watch Out For, myndasöguseríu sem hún gaf út frá 1983-2008. Fun Home er myndaskáldsaga sem fjallar um æsku Bechdel, samband hennar við föður sinn sem var samkynhneigður og í skápnum, og hennar eigið samband við sína samkynhneigð og kynvitund. Í bókinni spyr hún spurninga sem hún gat aldrei spurt föður sinn meðan hann var á lífi og tekst á við hvað er líkt og ólíkt með þeim feðginum.
David Sedaris er bandarískur esseyju-höfundur. Hann hefur gefið út ófá söfn smásagna og smá-frásagna, oft úr eigin lífi. Hann skrifar mikið um fjölskylduna sína, en hann á fimm systkini og ólst upp í Norður-Carolinufylki. Sedaris er samkynhneigður og það er áhugavert að lesa um líf hans og uppvöxt í suðurríkjum Bandaríkjanna, en hann er fæddur 1956. Sedaris skrifar mikið um upplifun sína sem kvenlegs karlmanns, um neyslu- og fíknihegðun og samband sitt við kærastann sinn, Hugh. Það er einstaklega mikilvægt að muna að lesa hinsegin bækur sem eru fullar af húmor og taka lífnu létt, sérstaklega á þessum síðustu og verstu tímum. Ég mæli líka sérlega með að hlusta á bækur Sedaris á hljóðbókaformi, en höfundur les þær mjög skemmtilega.
Nóvella eftir Anne Proulx (hvernig í ósköpunum myndir þú bera það fram?) höfund The Shipping News. Við könnumst flest við kvikmyndina en bókin er sjálf ósköp dásamleg. Hún er falleg og einlæg og ofsalega sorgleg. Sem baby queer snerti hún hjartaræturnar mínar djúpt, forboðin ást, sjálfshatur og duldar langanir voru eitthvað svo nærri mér á þeim tíma. Ég hlustaði svo á hana á hljóðbók á þessu ári og í ljós kemur að hún snertir mig enn, og sennilega marga aðra lesendur líka, hvort sem þeir flokkast sem hinsegin eða ekki.
Önnur skáldsaga Brit Bennet sem gaf út The Mothers 2016. Sagan fjallar um tvíbura sem skiljast að upp úr 1960 og lifa gjörólíkum lífum í framhaldi aðskilnaðarins. Þemu bókarinnar eru meðal annars kynþátta- og hörundslitafordóma og bandarískt líf á síðari hluta síðustu aldar. Ég er bara búin með 30% af henni samkvæmt Kindle, en hún er mjög vel skrifuð og mér er tjáð að hún fjalli meðal annars um trans karlmann, ástarsambönd hans og kynvitund. Ef það er ekki hinsegin þá veit ég ekki hvað.