Ferðasögur frá bjartri fortíð til skrýtinnar samtíðar

Vegabréf: Íslenskt eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur kom út á dögunum hjá Forlaginu. Þetta er önnur bókin eftir Sigríði, en fyrri bók hennar Ríkisfang: Ekkert hlaut mjög góðar viðtökur við útgáfu árið 2011. Sigríður er víðförul og hefur meðan annars starfað sem blaðamaður og kynningarstjóri UNICEF á Íslandi. Í bókinni Vegabréf: Íslenskt veitir hún lesendum innsýn í ferðalög sín síðustu tvo áratugi og beinir sjónum sínum að fjölbreyttum og fjarlægum löndum sem líklega fæstir lesendur hafa heimsótt sjálfir. Sigríði tekst að fræða man um fjarlæg lönd með því að einblína á fólkið sem hún hitti á hverjum stað og þeirra merkilegu sögur. 

 

Virðing gagnvart viðfangsefninu

Bókin er sögð í beinni tímalínu frá 2003 til 2021 og segir Sigríður frá dvöl sinni í tíu löndum auk Íslands. Strax í fyrsta kafla bókarinnar bendir Sigríður á hve mikil forréttindi fylgi íslensku vegabréfi og því að vera Íslendingur erlendis, en þetta er gegnum gangandi stef í bókinni. Einnig teflir hún allnægtum Íslands á móti bágborinni stöðu íbúa í öðrum löndum.

Sigríður nálgast viðfangsefni sín af virðingu, hefur beðið um leyfi þeirra sem koma við sögu til að segja frá þeim og í þeim tilfellum þar sem ekki tókst að hafa samband hefur hún breytt nöfnum viðkomandi. Hver kafli er eins og stutt innlit í landið sem hún dvaldi í á þeim tíma, með litríkum frásögnum af fólkinu sem hún kynntist þar. Sigríður segir í stuttu máli frá sögu landsins til að setja aðstæður í samhengi, en mér þótti sérstaklega gaman að hún hafi svo sagt í lok hvers kafla frá stöðunni í landinu við útgáfu bókarinnar og hvað hafi orðið af viðmælendum hennar og þeim sem hún kynntist á ferðalaginu.

Ferðamannaparadísin Sýrland

Bókin er auðlesin og aðgengileg þrátt fyrir að umfjöllunarefnið sé oft á tíðum átakanlegt. Mér fundust kaflarnir um Afganistan og Sýrland standa upp úr. Það var grátbroslegt að lesa um bjartsýnina í Afganistan árið 2003, en þar hefst bókin, og hugsa svo um ástandið þar í dag. Kaflinn um Sýrland var ef eitthvað er ennþá áhrifaríkari. Þar dvaldi Sigríður árið 2009 og hún lýsir ferðamannaparadísinni, stórkostlegu borgunum og mögnuðum menningararfi. Sigríður dvaldi einmitt í Sýrlandi þegar hún skrifaði fyrstu bók sína um flóttakonur og heimsótti  flóttamannabúðir rétt utan við landamæri Sýrlands sem voru fullar af fólki frá Írak. Þá árið 2009 upplifði hún mikla arabíska gestrisni og bendir á hve stór flóttamannahópur kom frá Írak til Sýrlands. Enginn í föruneyti hennar gat gert sér í hugarlund hvað myndi gerast þarna tveimur stuttum árum síðar.

Fleiri ferðabækur!

Það er ljóst að Sigríður hefur verið óhrædd á ferðalögum sínum (oftast ein síns liðs) að upplifa framandi menningarheima og kynnast nýju fólk. Hún miðlar þessum upplifunum sínum mjög vel með pennanum. Ég hefði þó viljað hafa myndir í bókinni, sérstaklega þegar hún lýsir einhverju mjög myndrænu eins og svörtu ruslapokunum sem voru fullir af mannabeinum í Bosníu. Það er skemmtilegt að fá séríslenskt sjónarhorn af ferðalögum, en það eru ekki margar bækur til sem bjóða upp á það. Sigríður nefnir inn á milli fleiri staði sem hún hefur heimsótt sem ekki koma við sögu í þessari bók og það er ljóst að af nægu er að taka ef hún kýs að skrifa aðra ferðabók. Ég væri alla veganna mjög til í að lesa hana!

Við erum umföðmuð mennskunni í þessari fallegu stofu í Palestínu og með Skagann á línunni – en aðskilin út af heimspólitík. Abeer getur ekki komið hingað. Hún getur heldur ekki farið aftur til Íraks. Vegna Ísraelhers eiga Umm Salim og Abu Salim erfitt með að fara um Vesturbakkann. Við Marta getum á hinn bóginn farið hvert sem við viljum. (Bls. 309)

 

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.