Í Sýnishorninu birtum við brot úr bókum sem eru væntanlegar eða ný útkomnar.
Hér má lesa forkaflann úr bókinni Bronsharpan sem er bók tvö í Dulstafa bókaflokknum eftir Kristínu Björg Sigurvinsdóttur sem kemur út hjá bókaútgáfunni Björt þann 15. október.
Hægt er að fylgjast með Kristínu Björgu á höfundasíðunni hennar á facebook og instagram. Við hjá Lestrarklefanum erum svo lukkuleg að hún er partur af okkar frábæra pennahópi.
Marmaraborgin
Hofið var mettað funheitu lofti. Fyrir flesta væri hitastigið óbærilegt en ekki fyrir steingyðjuna. Hún þráði hitann. Hann mýkti vöðvana, sem voru hægt og rólega að breytast í stein. Hún reis löturhægt úr hásætinu og gnísti tönnum þegar kunnuglegur sársauki fór um líkamann. Hún rétti úr sér með herkjum og gekk berfætt yfir salinn.
Hásætið, sem áður táknaði heiður og stolt, var nú ímynd skammar og vonbrigða. Einu sinni hafði fólk tilbeðið steingyðjuna en nú hafði umheimurinn nánast gleymt tilvist hennar. Fólk mundi varla nafn hennar.
Draxana.
Nú var hún vöknuð úr dvalanum og áður en langt um liði myndu allir vita hver hún væri. Draxana leit yfir stytturnar í hofinu. Sumar voru heilar en flestar lágu í molum á gólfinu. Hún sópaði brotunum frá með fótunum og gekk út um dyrnar. Gríðarstórar marmarasúlur, sem áður höfðu haldið uppi þökum glæsilegra bygginga, lágu eins og trjádrumbar á jörðinni. Hús stóðu opin og auð og sá litli gróður sem þreifst í hitanum lék lausum hala. Fyrir löngu hafði þetta verið ríkidæmi hennar en nú var borgin þögul og yfirgefin.
Með brennandi heift í hjarta lokaði steingyðjan augunum og kallaði eftir myrka mættinum innra með sér. Hún þyrfti liðsauka fyrir það sem var í vændum og djöflar Eyðilandanna höfðu verið lokaðir af of lengi. Það var kominn tími til að frelsa þá úr fjötrunum. Draxana fór með lága töfraþulu og fann hvernig líkaminn brann þegar galdurinn streymdi um æðarnar. Í fjarska heyrðust drunur og svo upphófust öskur skrímslanna.
Steingyðjan beið hreyfingarlaus. Lítið bros lék um varirnar þegar hún heyrði vængjaþyt. Hljóð sem öldum áður skaut hverjum sem það heyrði skelk í bringu. Þegar Draxana leit til himins sá hún að hundruð vængjaðra ófreskna nálguðust marmaraborgina. Tinnusvart hár Draxönu fauk til þegar eitt skrímslið steypti sér niður og lenti fyrir framan hana. Andlitið var afskræmt og öll fjögur augun stingandi. Langur halinn hreyfðist letilega eins og á ketti. Skrímslið fnæsti þegar steingyðjan snerti annan vænginn. Úkrólar höfðu ekki sést í þessum heimi í margar aldir en nú svertu þeir himininn yfir borginni.
Draxana leit til vesturs. Síðasti gæslumaðurinn var rétt ókominn. Þá yrði tíminn til að láta til skarar skríða, þegar hún næði öllum flugunum í einu höggi. Hún kreppti hnefana svo brakaði í hnúunum. Héldu svikul systkini hennar virkilega að þau gætu sigrað með því að láta aðra vinna fyrir sig skítverkin? Gæslumennirnir voru öflugir en þeir höfðu ekki nema brot af mættinum sem hún bjó yfir. Gyðjan leit upp þegar fleiri ófreskjur bættust í hópinn og hringsóluðu yfir borginni. Draxana hafði haldið sig til hlés nógu lengi. Nú var kominn tími til að minna heiminn á hver hún væri.
Kristín Björg Sigurvinsdóttir er rithöfundur og lögfræðingur. Kristín gaf út sína fyrstu bók í september 2020. Bókin heitir Dóttir hafsins og er ævintýrabók fyrir 11 til 14 ára. Hún var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna það ár í flokki barna- og ungmennabókmennta. Í október 2022 kemur út næsta bók í bókaflokknum Dulstafir og ber heitið Bronsharpan.