Hugvíkkandi skáldsaga

Kákasus-gerillinn jónas reynir

Nú hef ég lesið hverja einustu bók eftir Jónas Reyni frá því að hans fyrsta ljóðabók kom út árið 2017, en sama ár gaf hann út heilar þrjár bækur og vann Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. Þetta ár festi hann sig svo sannarlega í sessi sem  einn af eftirtektarverðustu ungu rithöfundum okkar Íslendinga. Síðast kom út stórfína skáldagan Dauði skógar (2020) sem hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. 

Alltaf hefur Jónas Reynir boðið lesendum upp á eitthvað glænýtt með hverri bók og hann veldur svo sannarlega ekki vonbrigðum með nýjustu skáldsögu sinni, Kákasus-gerillinn. Ég verð þó að viðurkenna að ég furðaði mig mjög á titli þessarar bókar, enda algjörlega græn hvað varðar sveppi, gerjun, kefir og ég veit ekki hvað og hvað. Þannig að fyrir mér opnaðist algjörlega nýr heimur við lestur þessarar bókar en umfjöllunarefni hennar er virkilega áhugavert og mun vekja lesendur til umhugsunar. 

Úr nútíð í fortíð

Bókin fjallar um Báru, ungan stúdent sem vinnur í frítíma sínum að hlaðvarpi um hugbreytandi efni fyrir Rás 1. Hún neytir sjálf ekki slíkra efna en er heilluð, og jafnvel með svolitla þráhyggju, fyrir öllum efnum sem breyta líðan fólks. Bára er uppfull af loddaralíðan, föst í niðurdrepandi vinnu í símaveri, nýlega komin með kærasta sem hún veit ekki hvort að er sá rétti, framtíðin er óljós og hún upplifir kvíða yfir óvissunni. Í heimildaleit sinni fyrir hlaðvarpið rekst hún svo á nafn Eiríks Mendez og greinar um Kákasus-gerilinn.

Kaflarnir flakka á milli lífs Báru í nútímanum og lífs ungs manns rúmlega tuttugu árum áður. Hann er ljósmyndari að nafni Eiríkur Mendez sem býr með systur sinni og móður. Agnes, móðir hans, hefur um langt skeið haldið lífi í Kákasus-gerlinum, gerlaðri mjólk sem á að vera sannkallaður töfradrykkur. Eiríkur eignast nýja vini sem eru allir í neyslu og hann byrjar sjálfur að gera tilraunir með ofskynjunarlyf og sveppi. Það er þó ekki fyrr en hann fer í örlagaríkaferð til Mexíkó að hitta pabba sinn í fyrsta sinn sem hann fer að neyta ofskynunarefna að einhverju viti. Og það töluvert hættulegri efna. 

Er vellíðan tabú?

Kákasus-gerillinn er einstaklega vel uppbyggð skáldsaga sem hefur að geyma djúpar hugleiðingar um neyslusamfélagið og mótsagnakennda sýn okkar á ávanabindandi efni. Fólk stillir sig af með því að fá sér koffín á morgnana, slettir úr klaufunum með því að fá sér áfengi, hreinsar meltingarkerfið með hollustudjúsum og tekur inn allskyns lyf til að bæta bæði líkamlega og andlega heilsu. En á sama tíma er litið niður á fíkla og finnst Báru það furðulegt: „Stundum þætti henni vellíðan vera tabú. Að fólk með fíknivanda væri fyrst og fremst dæmt fyrir að langa til að líða vel.“ (bls. 176) Í gegnum Eirík fær lesandinn svo nasaþefinn af lífi fíkla sem fá oft ekki að vera þrívíðar persónur í bókum heldur flatar erkitýpur sem lesandanum ber ekki að finna fyrir samlíðan með. 

Gífurlega vel úthugsað verk

Bókin heldur lesandanum við efnið með stuttum köflum og hröðum skiptingum á milli sjónarhorna Báru og Eiríks. Hver einasti kafli hefur að geyma athyglisverða framvindu og áhugaverðar og djúpar pælingar um upplifun okkar á lífinu og því sem við gerum til að gera það bærilegt. Jónas Reyni hefur tekist hér að flétta saman virkilega sterkum þráðum sem tala beint inn í samtímann. Hann gerir þetta alveg listilega vel og það er ekki annað en hægt að njóta þess að lesa hverja einustu síðu í svona gífurlega vel úthugsuðu verki.

Ég mæli heilshugar með Kákasus-gerlinum og staðfesti hér að þetta er besta skáldsaga Jónasar Reynis til þessa. Það verður erfitt að toppa hana.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...