Ráðgáta á dvalarheimili og barnsrán

Varnarlaus

Jólabókaflóðið er svo sannarlega hafið og Jónína Leósdóttir á að sjálfsögðu bók í flóðinu. Bókin Varnarlaus kom út hjá Forlaginu nú í október. Þetta er önnur sagan um Adam og Soffíu en fyrsta sagan kom út í fyrra og hét Launsátur. Sú bók hlaut góðar viðtökur og var því spennandi að sjá að önnur saga um tvíeykið væri komin út.

Bókin fjallar eins og áður segir um Adam, sálfræðing á sálfræðistofunni Sáló sem virðist ekki fá frið fyrir lögreglunni, nánar tiltekið sinni fyrrverandi eiginkonu sinni Soffíu sem er rannsóknarlögreglukona. Hún er gjörn á að leita aðstoðar hjá honum við að leysa ýmis lögreglumál.

Einkalífið og vinnan

Soffía heldur áður uppteknum hætti frá fyrri bók og fær Adam nú til að hjálpa sér með mál sem er nokkuð sérstætt og tengist dvalarheimili í borginni. Það er þó ekki eina lögreglumálið sem kemur við sögu, því barni er rænt úr afgreiðslunni á sálfræðistofunni Sáló og flækist Pandóra, kollegi Adams, og Adam sjálfur inn í það mál. Líkt og í fyrri bókinni þá er Covid enn allsráðandi þó sigið sé á seinnihluta heimsfaraldursins. Adam er enn mjög hræddur við að veikjast af Covid en einnig setur það strik í reikninginn þegar kemur að samskiptum hans við aldraða foreldra sína sem búa í Englandi. Þau fara að haga sér furðulega og flækja líf hans enn frekar. Það var alveg nógu flókið fyrir! 

Margslungin og vel fléttuð flétta

Það er óhætt að segja að söguþráður bókarinnar sé margslunginn. Adam flækist í tvenn sakamál og einkalífið flækist svo heldur betur fyrir honum. Það má jafnvel segja að þetta séu þrjár svo gott sem sjálfstæðar sögur fléttaðar inn í eina og gerir höfundur það vel. Hún er einstaklega lunkin við að setja upp margþættann söguþráð og ná að flétta hann vel saman án þess að eitthvað sé ruglingslegt eða endasleppt. Sagan er áhugaverð og spennandi, klassísk sakamálasaga en þó ekki. Adam er að mínu mati sjaldséð útgáfa af karakter í týpískri íslenskri sakamálasögu sem er virkilega heillandi. Samband hans og Jennýjar heldur áfram að vera flókið en ég verð að viðurkenna að ég vonaðist til að í þessari bók væri farið aðeins dýpra ofan í þeirra samband en svo er ekki. Hinsvegar bætir eðli annars sakamálsins, og svo brasið í einkalífi Adams, aðeins upp fyrir það. Bæði atriðin kafa aðeins ofan í samfélagslegar áskoranir sem vekur lesandann til umhugsunar. 

Varnarlaus er sakamálasaga sem gefur öðrum slíkum sögum ekkert eftir í spennu né frumleika. Frábær bók í lesturinn á aðfangadagskvöld með konfektinu og jólaölinu.

Lestu þetta næst

Föst í Hulduheimi

Föst í Hulduheimi

Það er farið að líða á haustið. Úti er rökkur, rakt og kalt. Náttúran fellur í dvala og sjálf...

Drekar, dauði og erótík

Drekar, dauði og erótík

Hafi man eitthvað fylgst með bókaumræðum á samfélagsmiðlum á þessu ári þá er ansi líklegt að man...

Bækur inn um lúgu

Bækur inn um lúgu

Það er eitthvað fallegt við að fá póstsendingu inn um lúguna. Þá meina ég ekki auglýsingabæklinga...