Gift eftir Tove Ditlevsen er minningarbók sem segir frá hjónabandslífi danska rithöfundarins sem var enn ung að aldri þegar hún var fjórgift. Gift þýðir bæði að vera gift en einnig eitur á dönsku en titillinn passar afar vel þar sem bókin segir bæði frá eitruðu hjónabandi og glímu Ditlevsen við fíkn.
Gift kom fyrst út árið 1971 á dönsku (nokkrum árum áður en Tove Ditlevsen lést) og kom nýverið út í nýrri afbragðsgóðri þýðingu Þórdísar Gísladóttur. Bókin er hluti af þríleik um líf ástsæla rithöfundarins en hefur hlotið auknar vinsældir síðustu árin þar sem bókin var í fyrsta sinn þýdd yfir á ensku og önnur tungumál. Ég hefði alveg viljað lesa hinar tvær bækurnar áður til að dýpka upplifunina af að lesa þessa bók, en hún stendur þó alveg fyrir sínu ein og sér.
Fæddur rithöfundur
Bókin hefst þegar hin tvítuga Tove er nýgift Viggo F og er að taka sín fyrstu skref sem rithöfundur. Viggo er eldri en móðir Tove og henni hundleiðist með honum. Það eina sem gefur henni eitthvað í lífinu eru skrif hennar. Rithöfundar eru eins misjafnir og þeir eru margir en ljóst er af lýsingum Ditlevsen að hún er fæddur rithöfundur og þrátt fyrir að allt sé í ólagi í kringum hana er hún afar afkastamikill og drífandi höfundur. Eftir því sem Tove leiðist meir í hjónabandinu fer hún að leita að ástinni annars staðar, stef sem er gegnumgangandi í bókinni. Því miður leiðir ein slík ástarleit til þess að hún uppgötvar sprautulyf og þarf Tove að takast á við fíknina það sem eftir lifir lífs síns.
Afar grípandi
Gift er stutt bók en ég má til með að vara lesendur við hvað hún er grípandi. Ég þurfti að stoppa til að fara sofa eftir að hafa byrjað kvöld eitt að lesa hana og var svo ófúnkerandi heima hjá mér næsta morgun því ég varð að ljúka lestrinum. Bókin er vel skrifuð og ekki einu orði ofaukið. Hún kom út þegar Ditlevsen er á sextugsaldri og getur hún því gagnrýnt sína eigin hegðun í textanum. Hún bendir til dæmis á hve sjálfhverf ástin er, hún hugsar ekkert um neinn annan en sjálfa sig þegar hún er ástfangin. Einnig viðurkennir hún að sökum fíknar þekktu yngri börn hennar hana ekki á tímabili. Það er átakanlegt að lesa kaflana um fíknina og vita að Tove mun ekki geta staðið við loforð sín um að hætta öllu, enda bendir læknirinn á að einungis 1 af hverjum 100 fíklum læknast alfarið.
Gift er bók sem má ekki láta fram hjá sér fara. Tove Ditlevsen var ástsæll höfundur en einnig gölluð og mannleg kona. Þrátt fyrir að hafa verið metsöluhöfundur er Ditlevsen á vissan hátt undir stjórn eiginmanns síns hverju sinni og gefur sagan þannig sýn í líf og raunir kvenna á 20. öld.