Gunnar Theodór Eggertsson hóf þríleikinn um Furðufjall fyrir síðustu jól með bókinni Nornaseiður. Sagan gerist í öðrum heimi, þar sem álfar, hrímálfar, hrörálfar og aðrar furðuverur eru til. En í þessum heimi eru líka menn sem þó lifa í heimi sem svipar fremur til miðalda. Andreas smiðssonur og álfastúlkan Íma eru aðalsöguhetjur bókanna og sagan er sögðu út frá sjónarhorni þeirra til skiptis.

Það vill svo til að í fyrri bókinni þarf Andreas að flýja heimaland sitt og stefnir á þjóðsagnakennda eyju í Norðurhafi, sem er einmitt eyjan hennar Ímu. Fyrir mikla tilviljun rambar hópur Andreasar á eyjuna og hittir þar fyrir álfa. En það er ekki allt sem sýnist í álfaheimum. Íma er orðin nornalærlingur hjá nornunum sem búa í fjallinu og hún er hægt og rólega að komast að alls kyns leyndarmálum og öðru dularfullu.

Örlög Andreasar og Ímu eru samtvinnuð.

Dularfullt ævintýri

Sögunni vindur ekki mjög hratt áfram. Gunnar Theodór gefur sér tíma til að byggja upp heiminn í kringum persónurnar, skapa dýnamík í kringum þær og aðrar aukapersónur sem og byggja upp heim töfra inni í fjallinu. Lesandinn tengist persónunum, bæði Ímu og Andreasi, nokkrum böndum. Íma er hin óþreyjufulla og óþolinmóða ungnorn sem þráir ekkert heitar en að komast á flug með hinum nornunum. Hún er frekar óhlýðin og brallar ýmislegt sem hún ætti ekki að gera. Andreas er svo aftur á móti hinn rólegi og forvitni en varkári og hugljúfi drengur sem ætlar sér ekkert ill, en á það þó til að kalla yfir sig og sína svolitla ógæfu. Íma og Andreas hittast loks og með þeim tekst vinkapur. Til allrar hamingju.

Óvæntur sögumaður

Um miðja bók fór atburðarásin að ganga hraðar og kraftur færðist í söguþráðinn. Undir lokin fór lesandinn að óska þess að þriðja bókin væri komin út, svo hægt væri að halda áfram með söguna strax. Hrollvekjandi atburðir ganga yfir og myndir Fífu Finnsdóttur draga svo um munar fram gæsahúðina á lesandanum. Myndir hennar eru tjáningarríkar, dramatískar og svolítið tölvuleikjalegar sem ætti að hitta í mark hjá fjöldamörgum lesendum. Í lokin stígur svo fram óvæntur sögumaður sem eykur enn á hið dularfulla sögusvið.

Furðufjall: Næturfrost er önnur bók í þríleik sem hentar börnum frá 10 ára aldri sem hafa náð góðum tökum á lestri. Sagan er spennandi, dularfull og grípandi.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...

Þörf bók um missi

Þörf bók um missi

Núna á dögunum kom út íslensk þýðing á barnabók eftir John Dougherty og Thomas Docherty...