Sársaukinn er hringlaga

Kákasus-gerillinn jónas reynir

Árið 2020 kom út ljóðabókin Taugaboð á háspennulínu sem var frábær frumraun skáldsins Arndísar Lóu Magnúsdóttur. Nú í haust kom svo út önnur ljóðabók hennar, Skurn, sem mætti í raun kalla ljóðsögu. Prósaljóð fylla hverja síðu og er frásögnin er frekar línuleg.

Arndís hefur einnig starfað sem þýðandi síðustu ár og þýddi áhrifamiklu bækurnar Ru eftir Kim Thúy og Samþykki eftir Vanessu Springora. Þær hef ég báðar lesið og finnst Arndís eiga framtíðina fyrir sér í bókmenntaheiminum. 

Tvíburar úr einu eggi

Skurn fjallar um eineggja tvíburasystur sem er stöðugt varpað upp sem andstæðum í verkinu. Ljóðmælandi er viðkvæma systirin, en hin er mínútu eldri og sú sterka. 

Ég kom í heiminn með kreppta hægri hendi. Það reyndist vera vonlaust að rétta úr fingrunum og opna lófann. Síðan þá hef ég alltaf átt erfitt með að sleppa takinu af þeim sem mér þykir vænt um. (bls. 9)

Sú eldri gætti systur sinnar, átti að vera verndari hennar. En snemma í ljóðsögunni verða straumhvörf þar sem eldri systirin lendir í skelfilegu slysi:

…höfuðið skellur í götuna og höfuðkúpan brotnar. Eins og eggjaskurn. (bls. 11)

Við tekur barátta ljóðmælanda að kljást við áfallið og breytta heimsmynd. Nú þarf hún að vera sterki tvíburinn og horfa upp á systur sína þjást meðvitundalausa í spítalarúmi. Lýsingarnar skiptast á að vera hversdagslegar og ljóðrænar en textinn nær mestu flugi þegar höfundur leikur sér að orðunum og varpar upp næmum myndum:

Við grát aflagast sjónin og heimurinn breytist í vatnslitamynd. Húðin og augun verða rauðleit og viðkvæm. (bls. 14)

Það erfiðasta við að vera aðstandandi er að geta ekki gert neitt til að láta sársauka ástvinarins linna. Ljóðmælandi hugsar reglulega í gegnum verkið: „ég get ekki deilt sársauka þínum,“ (bls. 15). Hún á erfitt með að vera gjörsamlega hjálparvana í þessum aðstæðum þar sem tengsl systranna hafa verið gjörsamlega rofin:  „Við erum staddar í þyngdarleysi, þar sem við getum ekki snerst.“ (bls. 28)

Ljóðmælandi er andvaka í gegnum bróðurpart verksins og fær þráhyggju fyrir öllu því sem er hringlaga. Það er eitthvað við formið sem sefjar hana en beltisdýr verða einnig áberandi táknmynd í ljóðsögunni. En þau eru einmitt þeim hæfileiku gædd að geta:

hniprað sig saman í 360 gráðu hring þegar því stendur ógn af einhverju. […], Þetta er einn fullkomnasti hringur sem er til frá náttúrunnar hendi.’“ (bls. 16)

Allt tengist, heilinn „marar eins og egg inni í skurn“, sjónsvið systurinnar hefur takmarkast við slysið, „allt sem hún sér er kringlótt.“ (bls. 35) Ljóðmælandi sér hringi allstaðar. 

Hin viðkvæma og sterka skurn

Lesandinn skynjar að ljóðmælandi er að upplifa hálfgjört óráð af svefnleysi, hún er sárþjáð, vill deila sársaukanum með systur sinni en liggur andvaka og rifjar upp barnæsku þeirra systra, veltir fyrir sér því sem er hringlaga, orðum sem tengjast og framtíðarplönum systur sinnar sem munu nú líklega verða að engu. Eitt sem vinkona þeirra systra segir kjarnar í raun bókina: 

Af einhverjum ástæðum bitnar það helst á þeim sem við elskum mest þegar við finnum til. (bls. 75)

En allt leiðir aftur til eggsins. Eggið, og skurnin utan um það, er táknmynd yfir tengsl tvíburanna, eggið er bæði viðkvæmt og sterkt:

„Það er nógu sterkt til að bera foreldri sem liggur á því og nógu brothætt til að unginn geti komist út úr því upp á eigin spýtur.“ (bls. 80)

Svo er sjálft orðið egg mótsagnakennt: „vísar það til brothætts hylkis utan um dýrafóstur og hins vegar getur það merkt hvassa brún á hnífi eða sverði.“ (bls. 81) Líkt og tvíburasysturnar á eggið og skurnin tvær hliðar, viðkvæma og sterka. 

Næmt verk

Skurn er úthugsað og næmt verk um sársauka, áföll og hvernig aðstandendur standa varnarlausir gagnvart þjáningu ástvina. Táknin í verkinu eru skýr og sterk, þeim er fléttað gaumgæfilega saman svo ekki má finna lausan þráð. Arndís Lóa beitir formi ljóðsögunnar einstaklega vel við að segja sögu þessarar ungu stúlku sem þarf að fóta sig í nýjum veruleika. 

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...