Í sumar fengu fjórir nýir höfundar Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta en einn af þeim var Arndís Lóa Magnúsdóttir. Hún fékk styrk fyrir ljóðabókinni Taugaboð á háspennulínu. Bókin kemur út hjá Unu útgáfuhúsi og er tvískipt ljóðsaga.

Tjáningarleysi

Fyrsti hluti bókarinnar ber sama heiti og ljóðabókin sjálf og fjallar um tungumálið, taugaboð og tjáningu manneskjunnar. Fyrsta ljóð bókarinnar er áhrifamikið, en bókin hefst í móðurkviði: „þú marar / rangsælis / í níu mánuði / sýgur salta fingur / þangað til að súrefniskúturinn klárast // móðurmál: ekkert“ (bls. 7) Ljóðmælandi „kemur í heiminn / hljóðlaus / í blóðrauðu flæðarmáli / tungan flækist í slímugu þanginu“ (bls. 8). Myndirnar eru áhrifaríkar og jafnvel óþægilegar. Einhverja tengingu vantar: „vinstra heilahvel sendir taugaboð / til ótyngdra líkamsparta / sem eiga ekki samskipti / sín á milli // allar götur síðan / leitar þú frumöskursins“ (bls. 8). Frægt er að börn fæðist organdi eftir að þau draga inn fyrsta andardráttinn en hvað ef ekki er svo? Mun barnið vera þá í eilífri leit að þessu magnaða „frumöskri“?

Ljóðin halda áfram að fylgja þessari glænýju manneskju en sambandsleysi einkennir ljóðin, málleysi: „trumbusláttur í vöðvum / talfærin þarf að stilla: tónhæðin fölsk / flöktandi tíðnibylgjur / rétt utan seilingar / hljóðleysur í frjálsu falli // samband út: stopult“ (bls. 9).

Í fyrsta hluta bókarinnar er einhverslags vera sem er alltaf yfirvofandi, Krossgátusmiðurinn, hann „finnur öllum hljóðum nöfn / smækkar þau niður í óróa og hengir yfir rúmið / muldra tafsa kvaka drafa“ (bls. 10). Óljóst er hvort hann sé vinur eða óvinur en hann er allavega yfir ljóðmælandann hafinn, hann „situr í efstu tröppu stigans / með kaffibolla / þú í neðstu tröppu“ (bls. 16). Hann hefur vald yfir orðunum en ljóðmælandi ekki.

Að týna orðum

Það er einnig líkaminn sem veldur usla, hann titrar, hristist. Hann er „þaninn fiðlustrengur / taugaboð á brakandi háspennulínu / […] / þitt eigið tónverk“ (bls. 19).

 

9. 

líkaminn titrar
eins og taktfastar hristur

hver líkamspartur
með sitt eigið hjarta
eitt í hvorum lófa
tvo í hverjum fingri
eitt í öxl og annað í
upphandleggsvöðva
fjögur í fótum og
eitt í hverri tá

trommar í takt við aðalhjartað

bls. 15

 

Miklar tengingar má finna textanum við tónlist, hljóðbylgjur og rafbylgjur náttúrunnar. Þessar tengingar dýpka ljóðin, varpa nýju ljósi á líkama sem lætur ekki af stjórn, aðstoðar við að útskýra líf ljóðmælanda og sýna einnig fegurð þess.

Í seinni hluta fyrsta kaflans fær Krossgátusmiðurinn sviðsljósið en hann eldist á meðan ljóðmælandi þroskast, „á meðan tíminn leggur áhringi í börk krossgátusmiðsins / sankarðu að þér tungumálum / lærir að ferja tilfinningar / orð / flytja sögur um sæstreng / frá einum heimi til annars“ (bls. 20). Þá er það Krossgátusmiðurinn sem verður ómálga: „hann er farinn að týna orðum / líkt og gleraugunum“ (bls. 21) Ljóðmælandi fylgist með honum visna „lest úr augum hans / hljómlausa rödd / flytja ljóð án orða / horfir á fætur hans / stíga taktlausan dans / bláar jökulár renna niður fótleggi“ (bls. 28). En í lok fyrsta hluta virðist ljóðmælandi uppgötva tilgang orðanna:

 

21. 

og skyndilega rennur upp ljós

orð eru ekki til
að uppfylla frumþarfir
ekki til að biðja um sódavatn
heldur til að 
kveikja í

verða að svartri ösku
sem sáldrast niður
á auðar síður

bls. 27

Þessum magnaða ljóðabálki lýkur svo með stuttu áhrifaríku ljóði: „á næturnar laumastu út / til að skrifa leyndarmál // heggur múrstein fyrir múrstein með oddhvössum steini // ristir / sögu hinna þvoglumæltu / sögu hinna mállausu / í veggi heimsins“ (bls. 30).

„þú segir að sársaukinn hafi skapað tungumálið“

Annar hluti ljóðabókarinnar er styttri og heitir „Lifandi vísindi“ en er þó mun meira spennandi en þekkta tímaritið sem situr mestmegnis ólesið á bókasöfnum landsins. Þessi hluti er tengdari nútímanum, vísar í hversdagslíf ljóðmælanda sem veltir fyrir sér náttúrunni, lífinu sjálfu: „skynfrumur krókódíla / nefnast merkelfrumur / þær eru notaðar til að / greina útlínur // ekki ósvipað og þegar strekktir strengir handa minna / sem nema titring kryppu þinnar“ (bls. 38). Þó að hér sé um að ræða allt aðra stemningu og jafnvel öðruvísi stíl en í fyrri hluta, má þó greina höfundareinkenni. Tónlist heldur áfram að spila stórt hlutverk í myndmálinu eins og sést hér fyrir ofan og svo er það vísindalega tengingin. Leiftur úr fyrri hluta birtast einnig í ljóðunum: „við spilum á líkama hvort annars / á tungumálinu sem við eigum sameiginlegt // hlustum á trumbusláttinn / í útlimum mínum“ (bls. 41) Tungumálið, trumbuslátturinn, þú ættir að þekkja þetta úr ljóðlínum sem birtust hér fyrr í umfjölluninni ef þú varst að taka vel eftir lesandi góður.

Það kemur rólega í ljós að seinni hluti ljóðabókarinnar fjallar kannski örlítið meira um ástina en ljóðmælandi þorir að viðurkenna. Maðurinn með kryppuna, sem býr í sama húsi og ljóðmælandi, er nálægur í flestum ljóðunum en í gegnum hann veltir ljóðmælandi upp allskyns heimspekilegum spurningum, en hann gerir það einnig sjálfur: „þú segir að / sársaukinn hafi skapað tungumálið / að ósjálfráð hljóð sem þú gefur frá þér / þegar þú getur ekki sofið á bakinu / séu uppspretta tungumálsins // við tvö vitum að þetta er tónlist“ (bls. 46).

 

Lokaniðurstaðan er sú að Taugaboð á háspennulínu er virkilega vel unnið byrjendaverk sem bendir til mikilla hæfileika ungskáldsins. Fyrri hluti ljóðabókarinnar er virkilega góður, svo góður að ég hefði jafnvel vilja láta þar við sitja. Seinni hluti fellur aðeins í skuggann en við nánari lestur og athugun koma tengingarnar við fyrsta kaflann í ljós og verður hann þá örlítið merkilegri fyrir vikið. Ef bókin væri aðeins fyrsti hlutinn hefði ég líklega gefið bókinni fimm stjörnur en þrátt fyrir það er þetta stórgóð bók sem ég mæli með að ljóðaunnendur og aðrir lesi.

 

 

 

Lestu þetta næst

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...