bronsharpan kristín björg

Fyrsta bók Kristínar Bjargar Siguvinsdóttur, Dóttir hafsins, fékk tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barna- og unglingabóka árið 2020. Önnur bókin, Bronsharpan, hlaut tilnefningu til Fjöruverðlaunanna. Bækurnar í sagnabálkinum um Dulastafi eru furðusögur, en þó með sterka tengingu við íslenskan raunveruleika.

Í fyrri bókinni kemst Elísa að því að hún er gæslumaður vatnsins, það er að segja hún býr yfir kröftum sem gera henni kleyft að stjórna vatni. Þessa hæfileika þroskar hún í neðarsjávarborginni Jenerí, þar sem marfólk ræður ríkjum. Öll fyrri bókin gerist því neðansjávar í mjög svo frumlegum og vel úthugsuðum heimi. 

Nú tveimur árum síðar kemur önnur bókin í Dulstafaseríunni út. Bronsharpan hefst í íslenskum raunveruleika 17 ára unglings sem er í miðjum prófum í menntaskólanum. En fljótlega dregst Elísa aftur yfir í annann heim, eftir að kall hins deyjandi heims glymur um allt. 

Í nýjum heimi

Í enda fyrri bókar fær Elísa innsýn í annan heim og sér strák sem býr yfir krafti eldsins. Strákurinn hefur dvalið í huga hennar síðan þá, hún dregst að honum. Í Bronshörpunni fer Elísa yfir í annan og nýjan heim sem sprettur fullskapaður úr huga Kristínar Bjargar. Í Renóru eru fjórar borgir; Ena, Aura, Simra og Leira. Elísa er boðin velkomin í bronsborgina Enu þar sem hún hittir aðra gæslumenn grunnefnanna, þar á meðal eldstrákinn Aren sem hefur átt hug hennar allan í heilt ár. Saman eiga gæslumennirnir að berjast gegn Draxönu frá Leiru sem ógnar tilveru allra borganna Enu, Auru og Simru. Í bókinni þurfa unglingarnir að þjálfa sig og kynnast sín á milli. Söguþráðurinn er því undirbúningur undir þrekvirki sem þarf að vinna. Hægfara uppbygging spennu er í gegnum alla bókina þar til hámarkinu er náð við lok hennar. 

Ástin í unglingabók

Allt sögusvið bóka Kristínar Bjargar er vel úthugsað, söguþráður vandaður og engu smáatriði er gleymt. Kristín hefur gott vald á forminu sem furðusögur byggja á og lesandinn er í öruggum höndum. Engu er til sparað við að draga lesandann djúpt inn í nýjan heim, sem er þó ekki mjög fjarri okkar eigin. Í þessari bók er ástin ríkjandi. Gæslumennirnri eru að kynnast sín á milli, en Aren og Elísa hafa átt hug og hjarta hvors annars lengi. Spurningin er bara er þeim ætlað að vera saman? Hinir gæslumennirnir eiga líka sínar ástir. Hér erum við að ræða um ástir þar sem efinn nagar, óvissa og óöryggi eru allt. „Elskar hann mig, eða elskar hann mig ekki“ vangaveltur, þar sem höfundur sleppir sér alveg í rómantíkinni. 

En þrátt fyrir sterka undiröldu af ást og rómantík og öðrum tilfinningum, þá er aðal söguþráðurinn undirbúningur gæslumannanna fyrir bardagann gegn Draxönu sem vill tortíma Renóru. Sagan er spennandi alla leið í gegn, því hægt og rólega opnast leyndardómar Renóru fyrir Elísu.

Í lok bókarinnar opinberast fyrir lesandanum að margt er í vændum og sagnaheimur Dulstafaseríunnar mun bara vaxa og blómstra meira. Möguleikar til fleiri sagna eru endalausir og lesandinn situr eftir með fleiri spurningar en í byrjun bókar og eftirvæntinguna innra með sér fyrir næstu bók. 

Heilsteyptur heimur

Kristín Björg skapaði frumlegan og fullmótaðan heim þegar hún skrifaði um neðansjávarborgina Jenerí í Dóttir hafsins. Ég varð fyrir smá vonbrigðum að fá ekki að dvelja neðansjávar með Elísu, með sporð og tálkn, í þessari bók. En þau vonbrigði voru skammlíf. Heimurinn sem Kristín Björg skapar hér, Renóra, er engu síðri þótt hann sé ekki eins framandi og neðansjávarheimurinn. Það er athygli Kristínar á smáatriðum, tilfinningaríkum samskiptum, góðri persónusköpun sem gera bækurnar hennar eins góðar og raunin er. Persónurnar eru djúpar og fjölbreyttar og trúar sjálfum sér.

Bronsharpan er fullmótuð furðusaga þar sem höfundurinn býður lesandanum á vit ævintýra og ásta. Heimurinn stekkur fullskapaður úr huga höfundar.

 

 

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...