Að hindra morð – eftir að það er framið

Wrong place wrong time

Wrong Place Wrong Time er sjöunda bók breska spennusagnahöfundarins Gillian McAllister. Hún var gefin út í ágúst 2022 og naut strax mikillar velgengni en Gillian hefur einnig náð góðum árangri með fyrri bókum sínum sem hafa setið hátt á metsölulistum.

Bókin var tilnefnd sem besta spennusagan árið 2022 af Goodreads Choice Awards.

Glæpur og tímaflakk

Sagan fjallar um Jen, móður og lögfræðing á fimmtugsaldri, Kelly eiginmann hennar og unglingsson þeirra, Todd. Síðla kvölds í októbermánuði verður Jen vitni að því þegar Todd stingur mann til bana fyrir utan heimili þeirra í Liverpool í Bretlandi. Jen kann engin deili á fórnarlambinu og Todd er fljótlega tekinn fastur af lögreglunni. Seinna um nóttina sofnar Jen á sófanum á heimili þeirra eftir að hafa farið með Kelly á lögreglustöðina. Hún vaknar ekki daginn eftir, heldur daginn þar áður. Daginn áður en glæpurinn er framinn. Þegar hún svo sofnar þann daginn vaknar hún tveimur dögum áður en glæpurinn er framinn. Og svo koll af kolli. Jen áttar sig á að hún hefur fengið tækifæri til að fara aftur í tímann. Bæði til að skilja af hverju sonur hennar framdi þennan hræðilega glæp og til að sjá hvort hún geti breytt einhverju í fortíðinni til að stöðva atburðarrásina.

Í öðrum þræði er fylgst með unga og metnaðarfulla lögreglumanninum Ryan þegar hann tekur sín fyrstu skref innan lögreglunnar og vinnur sig smám saman upp í að takast á við stærri verkefni. Sú vinna yfirtekur líf hans að miklu leyti.

Á yfirborðinu fjallar Wrong Place Wrong Time um lausn á morðráðgátu en þegar kafað er dýpra fjallar hún um svo miklu meira. Í leit sinni að svörum byrjar Jen að efast um hæfni sína sem móður, hún sér eftir mörgu sem hún hefur gert (eða ekki gert) bæði í leik og starfi. Hún er reið yfir að vera föst í tímalúppu sem hún skilur ekkert í en er á sama tíma þakklát fyrir að fá annað tækifæri. Hún lærir að vera meira til staðar í eigin lífi, að taka eftir litlu hlutunum og skilur loks hversu hratt lífið þýtur í raun hjá. Sjónum er auk þess beint að sögu ástarsambands þeirra hjóna, Jen og Kelly, og sú frásögn skilur engan eftir ósnortinn.

Ég hafði horft á Russian Doll nýlega, settist niður til að horfa á fréttirnar og frásögn um hnífaglæpi vakti athygli mína. Svona gerist þetta hjá rithöfundum. Aldrei við skrifborðið, aldrei á réttum tíma en alltaf, óhjákvæmilega, koma hugmyndirnar og ég held að þetta sé mín besta hingað til.

Höfundurinn, Gillian McAllister, um tilurð bókarinnar

Hugmyndin er gjöf sem vel er unnið úr

Undirrituð átti erfitt með að leggja bókina frá sér. Í hvert skipti sem ég hélt að ég vissi hvað væri um að vera kollsteyptist allt og söguþráðurinn tók nýja stefnu. Sagan er þaulskipulögð, úthugsuð og virkilega góð afþreying. Ég stóð mig að því að velta sögunni lengi fyrir mér eftir að henni lauk. Að mínu mati er hugmynd höfundar að þessum söguþræði gjöf sem hún hefur unnið vel úr. Bókin er auðlesin og höfundur reynir ekki að flækja málin með þungum texta, þrátt fyrir nokkra kafla af lögfræðimáli sem er ekki mjög heillandi fyrir leikmenn. Höfundur notar svolítið af endurtekningum þar sem hún endurtekur sömu orðin í setningum nokkrum sinnum til áhersluauka. Sérstakur stíll sem ég náði ekki að venjast. Styrkleiki höfundar liggur í fléttunni og þar blómstrar hún. Þeir sem eru hrifnir af ráðgátum, tímaflakki og jafnvel ástarsögum verða ekki sviknir. Gillian hefur eignast nýjan aðdánda.

Gillian McAllister

Gillian McAllister (f. 1985) er breskur spennusagnahöfundur sem starfaði sem lögfræðingur áður en hún sneri sér alfarið að skrifum.

Fyrsta bók hennar, Everything But The Truth, kom út árið 2017. Síðan þá hefur hún skrifað sex bækur til viðbótar. Áttunda bók hennar, Just Another Missing Person, er væntanleg í maí 2023.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...