Harry var einn í heiminum

Wrong place wrong time

Í janúar kom út ein stærsta ævisaga síðari tíma. Bókin seldist í bílförmum út um allan heim því lesendur voru að springa úr forvitni um prinsinn sem gaf allt konungsdæmið upp á bátinn, Harry prins.

Titillinn á ævisögu Harry, Spare, eða varaskeifan eins og hún hefur verið kölluð á íslensku, er sérstaklega vel til fundinn. Í Bretlandi er talað um að eignast the heir (erfingjann) fyrsta barn sem tekur við konungsdæminu og svo the spare, varaskeifuna sem þörf er á skyldi eitthvað koma fyrir elsta barnið. Það er ekki langt síðan að the spare tók við en það gerði Georg sjötti, faðir Elísabetar II Englandsdrottningar eftir að eldri bróðir hans ákvað að velja ástina, fráskilda ameríska konu, fram yfir krúnuna. Ólíklegt er þó að Harry muni nokkurn tímann taka við krúnunni þar sem hann fæddist númer tvö, og nú hefur Vilhjálmur bróðir hans eignast þrjú börn sem eru á undan honum í erfðaröðinni. 

 

 Þessi staðreynd hefur líklega spilað eitthvert hlutverk í ákvörðun Meghan og Harry í janúar 2020 þegar þau ákváðu að flytja frá Bretlandi og segja sig frá sínum konunglegu skyldum. Munið að þetta gerist fyrir covid. Núna, þremur árum eftir þessa afdrifaríku ákvörðun, leysir Harry frá skjóðunni með þessari ævisögu. Raunar hafði hann aðeins byrjað að segja frá með útgáfu Netflix þáttanna Harry og Meghan í lok síðasta árs.

Einmana prins

Harry er fæddur árið 1984 og er 38 ára gamall. Í bókinni fer hann yfir æviskeið sitt hingað til. Hann byrjar á hittingi sínum við föður sinn og bróður eftir að hafa “sagt sig úr fjölskyldunni” en svo fylgir bókin línulegri tímalínu. Bókin skiptist í raun upp í þrjá hluta. Fyrsti fjallar um æsku Harry og áhrif andláts Díönu prinsessu, annar að mestu um veru hans í hernum og loks þriðji um líf hans með Meghan og ákvörðun og afleiðing þess að þau yfirgáfu konungsfjölskylduna.

Í Netflix þáttunum beindi Harry spjótunum að bresku pressunni. Hann kenndi þeim um ýmislegt sem hafði farið illa í hans lífi og gagnrýndi hegðun þeirra gagnvart honum og fjölskyldu hans, sem og móður sinni heitinni. Hann heldur áfram að gagnrýna gulu pressuna en stóri munurinn á þáttunum og bókinni er að hér beinast spjótin mest að stóra bróður. Harry skrifar af mikilli virðingu um ömmu sína, Elísabetu II. Hann lýsir mjög einmanalegri æsku, sérstaklega eftir fráfall móður sinnar þegar hann var einungis 13 ára. Hins vegar gefur hann föður sínum ágætis afslátt á þessu öllu saman – hann hafi bara brugðist við eins og hann gerði af því hann lærði ekki að sýna hlýju þegar hann var alinn upp.  Vilhjálmur er hins vegar, af frásögn Harrys að dæma, hinn mesti eineltishrellir og hefur verið leiðinlegur við bróður sinn nánast alla tíð. 

Engar stórar afhjúpanir

Harry fer yfir þroskasögu sína og inn á milli koma sögur sem man hefur ekki heyrt, t.d þegar typpið hans fraus í leiðangri á Norðurpólinn. Hins vegar er ekki um stórar bombur að ræða. Eftir stöðuga fjölmiðlaumfjöllun, viðtal hjá Opruh og Netflix þættina var kannski bara ekki mikið eftir til að afhjúpa. Mér fannst textinn þó flæða ágætlega, bókin vera vel skrifuð og hafði alveg gaman af því að lesa þetta. Langdregnir þóttu mér þó kaflarnir um hermanninn Harry, en það gæti bara skrifast á mitt áhugasvið.

Helsta gagnrýni mín á bókina er að Harry gagnrýnir aðra hart en virðist ekki getað tekið mikla ábyrgð eða horft gagnrýnum augum á eigin hegðun. Þetta er mikill galli við ævisögu. Það er afar mikilvægt þegar horft er til baka að fólk geti verið auðmjúkt og bent á mistök sín, enda eru þroskasögur okkar allra fullar af skyssum. Dæmi um þetta er þegar Harry (21 árs) klæddi sig upp i nasistabúning fyrir búningapartí. Hann sér eftir þessu en kennir helst Vilhjálmi og Kate konu hans um að hafa hvatt hann til að nota þennan búning.

Hvað er næst?

Ég hef ákveðna samúð með Harry. Hann missti heitelskaða móður sína, pressan hrellti burt vonbiðla hans og rasisminn gagnvart Meghan, eiginkonu hans, hefur verið óafsakanlegur. Hann hefur lifað áhugaverðu lífi og á alveg efni í heila ævisögu. Hins vegar hefði hún mátt snúast minna um ósætti tveggja bræðra, sem kannski ætti frekar heima hjá fjölskylduráðgjafa. Harry hefði mátt vera auðmýkri. Man veltir því fyrir sér hvað sé næst hjá Harry eftir að hafa selt sögu sína og líklega brennt allar brýr að baki sér í sambandi við fjölskylduna sína. Hann gefur ekki of miklar vísbendingar um það í bókinni, svo við verðum bara að bíða og sjá hvað verður um frægustu varaskeifu í heimi.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.