Wrong place wrong time

Á dögunum las ég bókina American Wife eftir Curtis Sittenfeld sem vakti mikla athygli við útgáfu árið 2008, þegar ég rakst á hana á Kindle ákvað ég að prófa sýnishorn sem greip mig strax og því varð úr að ég pantaði bókina. Bókin fjallar um Alice Blackwell, forsetafrú Bandaríkjanna, á þeim tímamótum að maður hennar Charlie er að ljúka seinna kjörtímabilinu sínu í embætti, hún lítur yfir farinn veg, hvernig hún endaði í þessari ólíklegu stöðu og hvað hefur gengið á meðan maðurinn hennar fetaði metorðastigann.

Ég naut þess að lesa bókina, hún er áhugverð, vel skrifuð og persónusköpun Alice frábær, nema hvað að bókin er í raun “skálduð” saga Lauru Bush, fyrrum forsetafrúar Bandaríkjanna, konu George Bush yngri. Og ég veit einfaldlega ekki hvað manni á að finnast um slíkt bókmenntaform. Bókin er hvorki fugl né fiskur: þetta er ekki ævisaga Lauru Bush, þetta er ekki yfirlýst söguleg skáldsaga sem byggir á lífi Lauru Bush, en á sama tíma er varla hægt að kalla það hreinan skáldskap þar sem þrátt fyrir breytingu á nöfnum og að sagan gerist í Wisconsin fylki frekar en Texas notar höfundurinn mjög margt úr lífi Bush hjónanna sem efnivið sögunnar.

Siðferðisspurningar

Það eru önnur dæmi um svona týpu af skáldskap bæði í íslenskum og erlendum bókum. En ég var mjög hugsi yfir þessari lestrarupplifun, á hinum frábæra vef Goodreads komu einmitt sumir að þessari sömu upplifun í dómi sínum. Bókin er grípandi og Alice Blackwell áhugaverð týpa, en er það árangur hjá rithöfundi að skapa persónu sem er svona margslungin þegar að hún byggir á raunverulegri konu sem hefur sýnt sig sem slíka í raunheimum? Það sem hefur mótað Alice Blackwell er að þegar hún var 17 ára gömul varð hún bekkjarbróður sínum að bana í bílslysi en þau voru skotin í hvort öðru og allt eins líklegt að hún hefði gifst honum ef hann hefði ekki hlotið þessu ótímabæru örlög. Hún veltir því fyrir sér hvernig líf hennar hefði orðið hefði ekki farið svona? Í gegnum lesturinn var ég stöðugt að fletta því upp hvað í bókinni átti samsvörun við líf Lauru Bush og viti menn þetta kom fyrir hana. Er siðferðislega er í lagi að nota svona djúpstætt áfall í lífi alvöru manneskju sem lykilþráð í bók sem byggir lauslega á lífi hennar?

Fyrirframgefinn efniviður

Ég fór að kynna mér betur bækur Sittenfeld, sem hafa orðið metsölubækur og margir virkilega hrifist af. Hvað annað hefur hún tekið sér fyrir hendur? Bók um Hillary Clinton, Rodham, sem er um það ef hún hefði ekki gifst Bill og bókin Eligible nútímaútgáfa af Hroka og hleypidómum eftir Jane Austen. Einhverjar aðrar bækur hefur hún skrifað sem virðast líkari hefðbundnum skáldskap, en ég gat ekki annað en velt vöngum yfir þessum efnistökum, er of mikið að biðja höfund um að skapa sinn eigin skáldheim? Þarf alltaf að nota fyrirframgefinn efnivið? Ég held að mér finnist verra það sem höfundur gerir hér en í Rodham, því þar er hún að minnsta kosti hreinskilin um að byggja hana á alvöru manneskju. Svo hafa nú margir stælað Austen í nútímastíl við frábæran orðstír, til dæmis í hinni ógleymanlegu mynd Clueless.

Ef ég ætti að dæma bókina óháð þessu öllu myndi ég segja að þetta væri að mestu leyti fínasta bók, það sem mér fannst vanta var útskýring á hvernig Charlie komst upp metorðastigann, bókin dvelur lengi í fyrstu árum sambands Alice og Charlie og svo í nútíðinni en eitthvað skorti til að skýra framgang hans. Ég mæli ekkert endilega gegn því að lesa þessa bók, en vona alla veganna að einhver lesi bókina og nenni að þræta við mig um hvaða tegund af skáldskap er hér um að ræða.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...