LucyFoley
Gestalistinn eftir breska spennusagnahöfundinn Lucy Foley kom út í íslenskri þýðingu í apríl 2022. Þetta er fimmta bók Foley en Lestrarklefinn hefur áður fjallað um bókina Íbúðin í París.

Foley starfaði sem ritstjóri áður en hún sneri sér að ritstörfum. Fyrsta bók hennar, The Book of Lost and Found kom út árið 2015.

Gestalistinn var valin besta spennusagan af lesendum Goodreads árið 2020 og sem bók mánaðarins í júní 2020 af bókaklúbbi Reese Witherspoon.

Glæsilegt brúðkaup á afskekktri eyju

Jules og Will eru glæsilegt par á fertugsaldri sem er að fara að gifta sig. Hann er sjónvarpsstjarna og hún er farsæll ritstjóri stafræns tímarits. Snemma verður ljóst að þau tilheyra hópi ríka og fræga fólksins og því er engu tilsparað við brúðkaupið. Bókin hefst í miðri sögunni þar sem öngþveiti ríkir í brúðkaupinu og skelfingaróp heyrist úr óveðrinu sem geysar fyrir utan. Fylgst er með aðdragandanum að þessu öngþveiti en ekki er ljóst til að byrja með hvað hefur gerst. Snemma í sögunni kemur í ljós að brúðurin, Jules, hefur fengið nafnlaust bréf sem varar hana við því að giftast Will, sem út á við virkar sem hinn fullkomni draumaprins.

Brúðkaupið gerist á afskekktri og yfirgefinni eyju við Írlandsstrendur sem býður upp á áhugaverðar andstæður: glæsilegt, ríkmannlegt brúðkaup á drungalegri eyðieyju með grafreitum.

Höfundar notast við sjónarhorn nokkurra persóna en ég hef gaman af slíkum sögum og það var ánægjulegt að sjá hvernig persónurnar tengdust hvor annarri.

Innri tími sögunnar er stuttur. Bókin gerist að langmestu leyti á brúðkaupsdaginn sjálfan og daginn áður.

Ríkar og fyrirlitlegar persónur

Það var óhjákvæmilegt að hugsa til einnar þekktustu bókar Agöthu Christie, And Then There Were None, við lestur Gestalistans. Rétt eins og í bók Christie er sögusviðið afskekkt og yfirgefin eyja, eitthvað hræðilegt á sér stað á eyjunni og í báðum bókum eru hjón sem sjá um eldamennsku og önnur þjónustustörf á eyjunni.

Foley tekst ágætlega að skapa drungalegt og hryllilegt andrúmslof með hinu stigmagnandi óveðri og ölvunarástandi brúðkaupsgestanna. Hið hryllilega umhverfi rímar vel við hryllileg leyndarmál gestanna.

Persónurnar eru flestar frekar óviðfelldar. Höfundur lýsir vel forréttindum efri stéttarinnar sem virðist eiga fátt gott skilið. Eftir að hafa skyggnst inn í hugarheim brúðarinnar Jules langar manni ekkert endilega að henni takist ætlunarverk sitt, sem er að halda hið fullkomna brúðkaup, laust við óvæntar uppákomur þar sem öll augu eru á henni. Það truflaði mig aðeins hve mér þótti það ótrúverðugt að svona fínt fólk sem vill hafa allt fullkomið hafi valið svona afskekkta og óaðlaðandi staðsetningu til að halda brúðkaupið.

Bókin var eins og nútímaleg Agatha Christie: Hópur fólks þar sem allir hafa hvata til að fremja glæp og framvindan nær yfir frekar stuttan tíma. Hins vegar hefði Christie seint skrifað kynlífslýsingar eins og í Gestalistanum.

 

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.