Rétt nú fyrir páska gaf Bókafélagið út bókina Íbúðin í París eftir metsöluhöfundinn Lucy Foley. Íslensk þýðing hennar er í höndum Herdísar M. Hübner líkt og fyrri bækur Lucy sem Bókafélagið hefur gefið út en bókin Áramótaveislan kom út árið 2021 og Gestalistinn kom út árið 2022. Ég hafði nú þegar lesið Áramótaveisluna og Gestalistann og fannst mér því tilvalið að ná mér í eintak af Íbúðin í París og lesa hana sem páskakrimma ársins. Ég hef í nokkur ár haft það sem vana að næla mér í einhverja “djúsí” spennusögu og hámlesa hana með páskaegginu.
Ég var því að hefja lestur á þriðju bók höfundarins og fannst ótækt að hafa ekki skrifað umfjöllun um bækur Foley fyrir Lestrarklefann. Ekki síst þar sem Foley hefur verið mjög áberandi á Booktok og Bookstagram í nokkurn tíma og virðist vera að gera eitthvað rétt þegar kemur að spennusögum.
Horfinn bróðir
Bókin fjallar um Jess sem ákveður af illri nauðsyn að heimsækja bróður sinn Ben sem býr í París. Þegar hún hinsvegar kemur til Parísar og bankar uppá heima hjá Ben þá grípur hún í tómt. Hann finnst hvergi, það er eins og hann hafi gufað upp og eina sem hún hefur í höndunum eru furðuleg talskilaboð frá honum í símanum hennar. Jess kemur sér fyrir í íbúð hans til að hefja leit að honum og byrjar fyrst á því að skoða nágranna hans sem virðast allir hafa eitthvað að fela. Nágrannarnir þekktu allir Ben og eru misopnir með þá staðreynd ásamt því að sjálft húsið er sérstakt og býr yfir leynigöngum, gömlum vínkjallara og forvitinni umsjónarkonu.
Kröftug byrjun
Sagan byrjar af krafti, lesandanum er fleygt inn í atburðarás voðaverka og spennan byggist upp. Aðalsögupersónurnar eru nokkrar og segja þau söguna út frá sínu sjónarhorni en hver kafli er tileinkaður frásögn ákveðinnar persónu. Það er ekki í fyrsta sinn sem bækur Lucy eru skrifaðar á þann hátt og það hefur gefist henni vel. Það gerir það líka í þessari bók og mögulega betur, höfundur nær að kynna persónur vel fyrir manni á þennan hátt og segja þeirra sögu bæði í fortíð og nútið. Fléttan er líka góð og nær manni inn í hringiðuna, í byrjun. Því miður þá finnst mér bókin fljótt missa dampinn.
Hugmyndin var góð en framkvæmdin klikkar eitthvað aðeins því athygli mín hélst ekki nógu vel. Mér var farið að finnast þetta smá langdregið á köflum og ég viðurkenni að ég byrjaði að skauta í gegnum suma kaflana því of miklu púðri var eytt í að segja frá ýmsu sem skipti kannski ekki höfuðmáli frekar en að gefa vísbendingu eða innsýn inn í ráðgátuna sjálfa. Það gerðist ekki fyrr en eftir rúmlega miðja bók að spennan náði að grípa mig á ný en þó ekki nóg til að ég myndi spæna í gegnum hana til að komast að því hvað gerðist. Endir bókarinnar var samt áhugaverður og kom á óvart. Það er ekki annað hægt en að veita höfundinum fullt hús stiga fyrir smá frumleika þar.
Misjafn smekkur
Heilt yfir er þetta fínasta spennusaga og hafi maður lesið aðrar bækur eftir Lucy þá ætti maður að vera þokkalega sáttur. Mér sjálfri fannst talsvert vanta uppá að halda spennunni gangandi en eins og áður segir, endirinn bætti upp fyrir það. Eiginmaður minn sem les mikið af spennusögum var hins vegar á öðru máli en ég, honum þótti spennan halda sér við lesturinn allan tímann. Kannski var ég ekki í spennusagna stuði þrátt fyrir allt? Veit ekki. Þýðing Herdísar er svo auðvitað stórfín og það er ávallt fagnaðarefni þegar bækur eftir metsöluhöfunda eru þýddar á íslensku.