Hamingja þessa heims og svekkelsi sagnfræðinördsins

Þegar ég heyrði fyrst af því að Sigríður Hagalín Björnsdóttir væri að fara að gefa út sögulega skáldsögu sem gerist á Íslandi á 15. öld þá sperrti ég svo sannarlega eyrun. Ég hafði að vísu bara náð að lesa fyrstu bókina hennar, Eyland, en eins og flestum finnst mér hún virkilega eftirminnileg og ég hlakkaði til að sjá hvernig Sigríður myndi tækla þetta metnaðarfulla verkefni, gleymdu öldina í Íslandssögunni. Þegar útgáfufregnir skýrðust enn frekar og í ljós kom að bókin fjallaði um me too-sagnfræðiprófessor í útlegð sem finnur óvænt gamalt handrit, þá fór ég á límingunum. Frumheimildir og túlkun þeirra eru jú kjarninn í sagnfræði og eitt af því áhugaverðasta sem til er. (Ekkert en, ef eða ha. Ef þessi yfirlýsing hljómar eitthvað furðulega þá er restin af þessu bókabloggi líklega bara ekki fyrir þig.)

 

En, því meiri væntingar sem maður gerir til bókar, því líklegri er hún til að valda manni vonbrigðum. Það er einfalt eðlisfræðilögmál. Og Hamingja þessa heims stóð ekki undir væntingum mínum. Ég held að ég sé ein á báti með þessa skoðun, eftir því sem ég best hef séð hefur bókin fallið vel í kramið hjá öllum. Mjög oft við lestur bókarinnar leit ég þess vegna upp, horfði svekkt á blaðsíðurnar og hugsaði með mér: Er það bara ég, eða ert það þú?

Þetta bókablogg er því hálft í hvoru tilraun til að útskýra fyrir sjálfri mér hvað mér fannst svona pirrandi við þessa bók.

Skáldsaga sögð í gegnum bréf og handrit

Bókin fjallar ekki bara um frumheimildir, hún er eingöngu frumheimildir. Eða þið vitið, texti Sigríðar Hagalín í búningi frumheimilda. Í bókinni eru sagðar tvær sögur, af hinum útlæga sagnfræðiprófessor Eyjólfi Úlfssyni í nútímanum og svo ritaranum, skáldinu og sveininum Sveini Þórðarsyni á 15. öld, og þessar sögur eru eingöngu sagðar í gegnum texta sem þeir skrifa fyrir aðra. Saga Eyjólfs í gegnum bréf og tölvupósta sem hann sendir vini sínum í Reykjavík og saga Sveins í gegnum þrjú handrit sem hann skrifar fyrir erlenda höfuðsmanninn Diðrik Píning og íslenska höfðingjann Ólöfu Loftsdóttur.

Þetta sleppur í tilviki Eyjólfs. Stundum staldraði ég við til að hugsa: vá, sá skrifar aldeilis nákvæm bréf. En, það sleppur. Í tilviki Sveins og handritanna þriggja sem hann skrifar gengur dæmið hins vegar engan veginn upp. Frásögn Sveins er svo ómiðaldaleg og ótrúverðug að Eyjólfur hefði mín vegna getað sagt frá því í bréfum sínum að hann hefði opnað kistu og fundið þar skinnhandrit með fallegum glimmerlímmiðum af einhyrningum, og væri að velta fyrir sér hvort þetta gæti mögulega verið ófalsað. Sveinn beitir frásagnaraðferðum og stílbrögðum sem voru ekki til á 15. öld, ekkert frekar en glimmerlímmiðar af einhyrningum. Og þessu þurfti ég að kyngja, aftur og aftur og aftur. Í hvert sinn sem ég var búin að nokkurn veginn venjast þessum furðulegheitum var skipt yfir í sjónarhorn Eyjólfs og svo þurfti ég að venjast Sveini aftur upp á nýtt. Það er alveg sama þó ritbeiðendur hans, Diðrik Píning og Ólöf Loftsdóttir, segi upphátt (og Sveinn skrifi eftir þeim jafnóðum í beinni ræðu): mikið er þetta skrítin bók sem þú ert að skrifa Sveinn. Það verður ekki trúverðugra fyrir það.

Ein frásögn þar sem hefðu þurft að vera tvær

Með því að láta alla söguna gerast í gegnum ritaðar samtímaheimildir er henni settur alltof þröngur rammi. Ég held ekki að það sé hægt að skrifa sögulega skáldsögu um leit fræðimanna að sannleikanum um fortíðina í gegnum frumheimildir án þess að vera borinn saman við þá frábæru bók Possession eftir A. S. Byatt. Þar er sjónarhorn lesandans á karakterana í fortíðinni tvíþætt, frumheimildirnar sem karakterarnir í nútíðinni finna og svo senur úr lífi þeirra sjálfra sem bara lesendinn hefur aðgang að. Þannig er hægt að gefa öll þau smáatriði sem lesandann þyrstir í en fortíðarkarakterarnir hefðu aldrei sest niður til að festa á blað. Þannig skapast líka ákveðin spenna, lesandinn fylgist með fræðimönnunum túlka frumheimildirnar en veit stundum meira en þeir og veit þegar heimildirnar eru beinlínis villandi. Og frumheimildir eru alltaf villandi og gloppóttar og valda á einhvern hátt vonbrigðum. Það er það sem er spennandi við þær, vissan um að þú veist bara brotabrot af því sem gekk á. Handritin sem Eyjólfur Úlfsson skrifar upp eru aftur á móti algjört wish fulfillment.

Oft gerðist það við lestur Hamingju þessa heims að ég spurði mig hvort ég væri ekki bara að misskilja eitthvað. Að höfundurinn hefði gert einmitt þetta, sumir kaflarnir um Svein væru hans eigin skrif fyrir Diðrik Píning og Ólöfu Loftsdóttur og aðrir væru hann að vera til og hugsa, en að Sigríður hefði bara ekki náð fram nægilega miklum og skýrum blæbrigðamun á þessum tveimur ólíku frásögnum. Sumir kaflarnir í frásögn Sveins hafa nefnilega kaflaheiti og aðrir ekki, bara ártal. Sá túlkunarmöguleiki var hins vegar úr sögunni nokkuð aftarlega í bókinni þegar Sveinn neitar að skrifa um atriði sem Diðrik Píning gæti notað á áþreifanlegan hátt gagnvart Ólöfu í valdabaráttu þeirra og Píning lætur þess vegna brjóta höndina á Sveini. Seinna um daginn spyr ráðsmaðurinn á Bessastöðum Svein að því af hverju hann hafi ekki gert eins og Píning bað um. Sveinn neitar hins vegar að segja honum það því hann veit að ráðsmaðurinn muni bara fara með svarið beint í húsbónda sinn. En segir okkur lesendunum strax í næstu málsgrein að það sé vegna loforðs sem hann gaf móður Ólafar. Þetta, myndi maður gera ráð fyrir, er þá ekki hluti af handritinu sem Sveinn skrifar og Píning og síðar meir Eyjólfur lesa. (Bls. 319) Engu að síður talar Eyjólfur síðar um „ritstjórn“ Pínings þegar hann braut höndina á Sveini, svo þetta er þá eftir allt saman hluti af „miðaldahandritinu.“

Af hverju er ég að eltast við svona smáatriði, kann einhver að spyrja. En þetta er ekki smáatriði. Ég veit að Sigríður Hagalín lagði sig í líma við að hafa sögu Sveins sem nákvæmasta eftir þeim heimildum sem þekktar eru, og þá bara skil ég ekki af hverju sú fræðilega nákvæmni náði ekki líka til þess að láta „frumheimildina“ hljóma eins og frumheimild. Þetta virðist ekki hafa truflað neinn nema mig (skil nú reyndar ekki af hverju, miðaldabókmenntir er eitthvað sem allir lesa í skóla og ættu þar af leiðandi að geta þekkt þegar þær dansar naktar fyrir framan sig). En þetta er ekki bara spurning um fræðilega nákvæmni heldur líka um gæði frásagnarinnar. Frásögn Sveins kemst aldrei nálægt því að vera trúverðug frumheimild en á hinn bóginn finnst mér hún heldur aldrei verða safarík söguleg skáldsaga, einmitt af því að hún er of bundin við það að reyna að hljóma „gamaldags“. Hún hefur ekki nægt listrænt frelsi. Og þetta hefði bara verið svo auðvelt að leysa, með því að skipta sögu Sveins í tvennt.

Riddarasaga?

Annað vandamál við sögu Sveins er að þar er reynt að segja frá of miklu. Sveinn er eins og Forest Gump, hann hefur annað hvort sjálfur verið viðstaddur alla helstu atburði aldarinnar eða þekkir einhvern sem var það. Þetta eitt og sér er atriði sem ég hef heyrt að sé notað af fjölmiðlum og öðrum í dag til að skera úr um hvort heimildarmenn séu áreiðanlegir eða ekki.

Það er líka allt of lítill munur á frásögninni sem Sveinn skrifar undir yfirvaldi Diðriks Píning og Ólafar Loftsdóttur. Þó tilgangur þeirra tveggja með skrifunum sé gerólíkur kemur ekki upp þessi frásagnarspenna sem ég var allan tímann að vonast eftir. Það er helst að það örli á tilraunum til þess að skapa spennu um áreiðanleika frásagnarinnar undir lok bókarinnar, þegar dóttir Eyjólfs veltir upp þeirri hugmynd hvort Sveinn hafi verið hinsegin. Annað dæmi um slíka tvíræðni í frásögninni er þegar Þorvarður Loftsson fellur fyrir heimasætunni sem flýr í gervi unglingspilts undan ofríki hinna erlendu hrotta sem ætla sér að þvinga hana í hjónaband eftir að hafa drepið bróður hennar.

Vatnsfjarðar-Kristín dregur þessa frásögn í efa í eyru Sveins, þetta sé bragð til að fá Þorvarð til að fylkja liði gegn mönnum Skálholtsbiskups, og segir þetta vera „eins og í einni þessara riddarasagna sem allir liggja í núna.“ (bls. 406). Þó mér hafi fundist þessi óáreiðanleiki sögunnar kærkominn og hressandi andblær þá samt hnaut ég um þessa staðhæfingu. Ég hef ekki lesið allar þær þýddu og frumsömu riddarasögur sem voru í umferð á Íslandi á 15. öld, en ég hef lesið þær ansi margar. Og ofangreind örsaga minnti mig ekkert á þær en hún minnti mig á aðrar bækur sem ég hef lesið og það eru Game of Thrones eftir George R. R. Martin.

Eftir það gat ég ekki hætt að hugsa um Hamingju þessa heims sem einhvers konar framlag Íslands til Game of Thrones. Að einhverju leyti er sá samanburður fjarstæðukenndur (George R. R. Martin er meistari í cliffhangerum og plotttvistum en er að sama skapi alveg hörmulegur stílisti, sem Sigríður er svo sannarlega ekki). En engu að síður, George R. R. Martin fékk innblásturinn að sínum söguheimi úr atburðum síðmiðalda og eftir að ég byrjaði að hugsa um þetta svona get ég ekki hætt. Hamingja þessa heims er alla vega meira í anda Game of Thrones en fyrrnefndrar skáldsögu Possession.

Og ég veit að ég hef eytt öllum þessum orð í kvart og kvein, en þetta er samt skemmtileg bók. Sveinn og Eyjólfur eru vel skapaðir karakterar sem kristalla tvær ákveðnar erkitýpur sem allir Íslendingar kannast við, Eyjólfur er óþolandi sjálfumglaður montrass, sérfræðingur að sunnan, og Sveinn gamaldags hógværð og gæði í gegn. Tvær andstæðar erkitýpur sem mér fannst Sigríður einnig leika sér að í Eylandi, nema hvað að þá sameinaði aðalsöguhetjan Hjalti þær báðar. Hamingja þess heims er aðgengileg bók um áhugavert efni og mikilvægt tímabil sem einhvern veginn bara límist ekki í söguvitund okkar sama hvað, svo ég er ánægð að jafn vinsæll höfundur og Sigríður hafi tekið það að sér. Ég vildi bara að bókin hefði verið aðeins meiri negla.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...