Í nýjustu bókinni um Vísindalæsi er mistökunum fagnað. Bókin heitir einfaldlega Úps! sem er mjög viðeigandi og undirtitillinn er Mistök sem breyttu heiminum. Sævar Helgi Bragason hefur lagt sig fram við að auka vísindalæsi barna á Íslandi síðustu ár með bókaseríunni Vísindalæsi. Áður hafa komið út bækurnar Sólkerfið og UmhverfiðBækurnar hafa fengið nokkuð góðar viðtökur, meðal annars hér í Lestrarklefanum. Bækurnar eru myndlýstar af Elíasi Rúna.

Í þessari þriðju bók í seríunni um Vísindalæsi beinir Sævar Helgi sjónum sínum að mistökunum. Og hann imprar vel á því að engar uppgötvanir eða afrek stökkva fram úr tómarúmi. Það tekst ekkert í fyrsta sinn sem maður reynir. 

Mistök eru nauðsynleg

Ég las bókina með fimm ára, næstum sex ára, syni mínum. Eftirminnilegastur er okkur kaflinn um geimsjónaukann Hubble, sem er jafnframt fyrsti kaflinn í bókinni. Okkur fannst magnað að lesa um þessi gríðarlegu mistök við slípun glersins í sjónaukanum sem leiddu svo til þess að nýjar uppgötvanir voru gerðar í læknavísindum. Eftir lesturinn kíktum við á heimasíðu Hubble og gleymdum okkur í myndum af fjarlægum stjörnuþokum. 

Kjarni bókarinnar er nauðsyn mistaka. Rétt eins og allar myndir á Instagram sýna glansmynd af lífi okkar, þá eru námsbækur glansmynd vísindanna. Sævar tekur það sérstaklega fram í lokakafla bókarinnar að við sjáum aðeins það besta af öllu í námsbókunum, en ekki öll mistökin sem leiddu til uppgötvuninnar. Það þarf nefnilega að gera mistök til að verða góður í einhverju, læra af mistökunum, æfa sig og gera betur næst. Og ekki velta sér of mikið upp úr mistökunum, það gerir engum gott. 

Konur fá sitt pláss

Eins og í fyrri bókum hefur Elías Rúni myndlýst Úps! listavel. Myndir hans minna mig á teiknimyndasögu, eru aðgengilegar og það besta af öllu eru talblöðrurnar. Myndirnar eru bráðfyndnar en bæta að sama skapi miklu við textann. Þær eru tjáningaríkar og fræðandi. Það vakti líka athygli mína að við lok hvers kafla fékk einn vísindamaður kastljósið og deilir þar heilræði. Þar fengu konur meira pláss. Sem er kannski ekki undarlegt, þar sem flestar uppfinninganna sem voru ræddar í bókinni eru karla. Konur hafa bara ekki fengið það pláss sem þær eiga skilið innan vísindaheimsins. Svo það var gleðilegt að sjá að konur fengu pláss til jafns við karla í bókinni

Okkur mæðginunum fannst bókin fræðandi og skemmtileg og það er vel hægt að mæla með henni fyrir forvitin börn sem þyrstir í fróðleik og þekkingu. Við nutum lestursins.

 

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...