Sögur sem leyna á sér

Hinum megin við spegilinn er brakandi ferskt smásagnasafn eftir Kára S. Kárason sem kveður sér hér í fyrsta sinn til hljóðs. Handritið bar sigur út býtum í Nýjum röddum, handritasamkeppni Forlagsins, fyrr á árinu. Safnið inniheldur sautján smásögur og örsögur sem dansa flestallar á mörkum veruleikans. Líkt og segir aftan á bókinni: „Hér er ekki allt sem sýnist“.

Sögurnar eru fjölbreyttar og gerir Kári allskyns tilraunir með smásagnaformið. Í bókinni má finna stuttar ljóðrænar glefsur,  bréfaskipti milli notanda og stjórnanda einhverskonar lífsleiks, sögu sem er sögð frá tveimur sjónarhornum í sömu atrennu og auðvitað hefðbundnari frásagnir úr hversdeginum sem leyna á sér. 

Súrrealískir snúningar

Ég hef sérstakt dálæti á smásagnasöfnum og hér sést að það er nýr höfundur að finna sinn tón, sína leið, og er óhræddur við að prófa allar hliðar formsins. Ég hafði gaman af tilraunakenndu smásögunum en sögurnar sem virtust hefðbundnar frásagnir úr hversdagslífinu, en stökkbreyttust svo skyndilega með súrrealískum snúningi, voru í uppáhaldi hjá mér. Minnst fannst mér fara fyrir örsögunum sem voru flestar örfáar blaðsíður. Þó að textinn væri á köflum ljóðrænn og fallega skrifaður sat voða lítið eftir. 

Smásagan sem situr enn í mér, þónokkru eftir lesturinn, er sú næstsíðasta í safninu. Hún heitir „Allt sem skellur á“ og fjallar um nýja íbúðareigendur sem heillast að fallegum og stórum glugga í nýju íbúðinni. Þau eru ung og hamingjusöm og allt virðist með kyrrum kjörum. Furðulegir atburðir fara þó að gerast og er glugginn þar í aðalhlutverki. Bjarti og fallegi glugginn sem seldi þeim íbúðina verður að þungamiðjunni í röð martaðakenndra uppákomna. Hér er sagan vel uppbyggð, lesandi finnur fyrir undirliggjandi spennu frá upphafi og höfundi tekst að skapa óhugnanlegt og leyndardómsfullt andrúmsloft. 

Hinum megin við spegilinn er fínasta fyrsta verk sem hefur ágætisspretti. Höfundur er enn leitandi en styrkleika hans má finna í sögunum þar sem honum tekst að skekkja raunveruleikann með furðulegum atburðum eða persónum. Þetta er mjög vel gert og hefði ég viljað enn fleiri sögur af því tagi í safninu. Það verður spennandi að lesa næsta verk höfundar og fylgjast með hvernig stíll hans þróast. 

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...