Kuldi eftir Yrsu Sigurðardóttur kom út árið 2012, en bíður nú nýtt líf þar sem kvikmynduð útgáfa bókarinnar er komin í bíóhús. Sjöfn bauð sig fram til að lesa bókina og henda fram færslu, en þegar ljóst er að skoðanir okkar á bæði þessari sögu og höfundaverki Yrsu eru jafn misjafnar og við erum mörg þá leiddum við Lestrarklefarar saman hesta okkar til að leggja margslungnara mat á verkið.

Sum okkar lásu bókina á sínum tíma þegar hún var aðal glæpasagan um jólin fyrir ellefu árum, sum voru að lesa hana í fyrsta skipti (eða hlusta, takk Storytel) en önnur hafa aðeins séð myndina og því með þriðja sjónarhornið á verkið. 

 

Sjöfn Asare skrifar:

Skáldsagan: Gott plott í óþarflega langdreginni sögu

Óðinn er nýlega orðinn einstæður faðir tíu ára dóttur eftir að barnsmóðir hans og fyrrum eiginkona, Lára, lést með voveiflegum hætti. Auk þessa vendinga í persónulega lífinu fær hann nýtt mál á borðið hjá sér í vinnunni, það að rannsaka drengjaheimilið Krók sem lokaði árið 1984 eftir dauðsföll vistmanna. Við fylgjumst með Óðni rannsaka þetta gamla mál og takast á við flækjur í tengslum við dauða Láru. Ekki er nóg með það heldur er eins og eitthvað yfirnáttúrulegt liggi í loftinu og þá ekki endilega af því góða. Reimleikar og draugar fortíðarinnar blandast saman í spennandi fléttu, atburðarrásin er ekki of fyrirsjáanleg og persónur flestar áhugaverðar. Það sem er bókinni fjötur um fót er hreinlega orðafjöldinn, en plottið leysist aðeins of hægt að mínu mati. Ég þarf ekki endilega að heyra allar pælingar Óðins um fyrrum samstarfsfólk eða samskipti hans við konur í gegn um tíðina. Þá eru þeir kaflar sem gerast á drengjaheimilinu 1984 örlítið meira spennandi, en þó á tíðum endurtektarsamir. Ég myndi samt óhikað mæla með bókinni við þá sem hafa þolinmæði í að lesa sig í gegnum hana, en eins og með margar bækur Yrsu er fléttan sterk og óvænt. Það er þó ekki endilega við Yrsu að sakast þegar kemur að lengd bókanna, en vitanlega hafa útgefendur, ritstjórnar- og markaðsöfl einhverja hönd í bagga þegar næsta metsölubók eftir Yrsu er pöntuð fyrir jólabókaflóðið.

Kvikmyndin: Gott plott í straumlínulagaðri sögu

Nú hefur Kulda verið breytt í kvikmynd í leikstjórn Erlings Óttars Thoroddsen sem samdi einnig handritið. Í aðalhlutverkum eru Jóhannes Haukur, Selma Björnsdóttir, Elín Hall, Mikael Kaaber og Halldóra Geirharðsdóttir svo fáein séu nefnd. Mér fannst myndin betri en bókin en að miklu leyti er það sökum þess að kvikmyndaformið krefst þess að fita sé skorin af kjötinu með ákveðnari hætti en í skáldsöguforminu. Einnig voru örlitlar breytingar á baksögu og aðstæðum sem mér fannst auka á ágæti framvindu. Dýpkun á persónum eins og Lilju var einnig af hinu góða. Mér fannst leikararnir hver öðrum betri, allur díalógur mjög raunsannur og persónusköpun skila sér vel í svipbrigðum og almennri holningu. Tökustaðir eru vel valdir og sérlega er gaman að sjá fyrrum meðferðarheimilið Staðarfell leika gamalt drengjaheimili. Þá finnst mér kvikmyndatakan heillandi, mörg skot eru falleg og senurnar renna vel frá einni í aðra. Þar sem ég var alveg nýbúin að lesa bókina fannst mér ekkert þurfa frekari útskýringu á gangi mála, en spurning er hvort þeir sem hafa ekki lesið bókina eru á sama máli.

Hugrún Björnsdóttir skrifar: 

Ég hef lesið allar fullorðinsbækur eftir Yrsu nema eina. Þegar líður á haustið bíð ég yfirleitt spennt eftir að næla mér í eintak af Yrsunni þetta árið og það er afar sjaldgæft að ég verði fyrir vonbrigðum. Þessi eina sem ég hef ekki enn lesið er bókin Þögn sem kom út árið 2019 en ég mun lesa hana fyrr eða síðar.

Kuldi kom út árið 2012 en ég las hana fyrst á vormánuðum 2013, fyrir tíu árum síðan. Venjulega man ég ekki svona nákvæmlega hvenær ég las bækur nema ég hafi punktað það niður samviskusamlega á vefsíðuna Goodreads. Sem ég geri oftast. Það sem er mér svona minnistætt er fyrsti kafli bókarinnar. Ég settist niður, las hann og þá var bókstaflega ekki aftur snúið. Ég endaði á að klára bókina á einum eða tveimur dögum.

Galdurinn liggur í fyrsta kafla

Í upphafi skyldi endinn skoða og það gerir Yrsa í Kulda. Fyrsti kafli gefur innsýn í hvað gerist í lokin, enda heitir kaflinn einfaldlega „Endalokin”. Og jeminn eini, þessi endalok gripu mig. Þar segir frá feðginunum Óðni, aðalpersónunni, og dóttur hans Rún. Þau eru stödd í hrikalegum aðstæðum sem mjög óljóst er hvernig þau hafa komist í. En það sem er ljóst er að bókin fjallar um aðdragandann. Þarna tekst Yrsu svo vel að skapa ákveðið andrúmsloft með andstæðum. Gleði og sorg, ótti og kæruleysi, hiti og kuldi. Ég man að ég hugsaði tvennt eftir lestur þessa kafla:

Ég mun ekki hætta fyrr en ég veit hvað gerðist

og

Svona skrifar maður fyrsta kafla

Tímaflakk og vísir að rómans

Það er skemmst frá því að segja að bókin stóðst mínar væntingar eftir þennan svakalega kafla og gott betur. Bókin varð strax mín uppáhalds Yrsa. Sagan flakkar í tíma, annars vegar nútímans og ársins 1974, en persónulega er ég mjög hrifin af slíku tímaflakki. Í sögunni er smá vísir að rómans sem ég er mjög veik fyrir. Mér fannst fléttan vel hugsuð og hún kom mér á óvart. Persónusköpunin var þokkaleg, og þá er ég sérstaklega að hugsa um aðalpersónuna Aldísi í fléttunni árið 1974. Auðvitað er eitt og annað sem má pota í eða velta fyrir sér. Ég hefði til dæmis viljað fá meiri tilfinningu fyrir tímanum árið 1974. Meiri lýsingu á því hvað var í deiglunni, hvernig tískan var o.s.frv. En afskekktar aðstæðurnar í söguþræðinum gáfu kannski ekki mikið færi á því.

Ég las bókina aftur nú á dögunum, tíu árum síðar, til að sjá hvort smekkur minn hafi breyst. En nei, það hefur ekkert breyst. Kuldi er ennþá mín uppáhalds Yrsa. Lygi (2013) kemur þar á eftir og svo Lok, lok og læs (2021).

Nú bíð ég bara spennt eftir að komast í bíó.

E.S. (eða ekki mikilvægar staðreyndir)

Við vinnslu þessa pistils komst ég að tvennu:

  • Yrsa heitir fullu nafni Vilborg Yrsa Sigurðardóttir
  • Verðmiðinn er enn á kiljunni sem ég las. Árið 2012/2013 kostaði kilju útgáfan af Kulda 3.499 kr.

Rebekka Sif Stefánsdóttir skrifar:

Nú kemur að sjónarhorni þess sem hefur eingöngu séð kvikmyndina! Það er nú ekki líkt mér að hafa ekki nú þegar lesið bækurnar sem ég fer svo á í bíó en þar sem ég er svo svakalega löt að lesa íslenskar spennusögur er raunin sú í þetta sinn. En ég man enn eftir að hafa séð Ég man þig, sem er einnig byggð á bók Yrsu, og ég var virkilega hrifin af þeirri kvikmynd og fléttunni sem kom mér svakalega á óvart. Einnig var hún óhugnanleg og spennandi þannig ég var með ákveðnar væntingar þegar ég fékk mér sæti í stútfullum sal á forsýningu Kulda. 

Fortíðin bitastæðari

Myndin var meiri hrollvekja, eða jafnvel draugasaga, en ég bjóst við en fyrir mér er það alls ekki neikvætt. Það er svo rammíslenskt að yfirnáttúrulegu öflin séu ávallt handan við hornið. Eins og kollegar mínir hérna fyrir ofan minntust á, þá er þráðurinn í fortíðinni mun bitastæðari og forvitnilegri. Þar hjálpaði einnig hversu vel Elín Hall lék hlutverk Aldísar og Mikael Kaaber hlutverk Einars. Selma Björnsdóttir kom einnig á óvart og var gaman að sjá hana í allt öðruvísi hlutverki en maður hefur séð hana áður, þó að ég hefði viljað sjá aðeins meiri dýpt á hennar persónu þar sem baksaga hennar er mjög athyglisverð. Jóhannes Haukur í hlutverki rannsóknarmannsins Óðins (það kom aldrei nógu skýrt fram frá hvaða ráðuneyti eða stofnun hann vann hjá í myndinni, sem fór örlítið í taugarnar á mér) stóð sig vel þó að það væri nú ekki mikið fyrir hann að vinna úr, stundum verður það þannig þegar megin hlutverk persónu er að rannsaka mál og ýta söguþræðinum áfram. Ólöf Halla Jóhannesdóttir er mjög sannfærandi sem syrgjandi vandræðaunglingurinn Rún og einnig fannst mér Halldóra Geirharðsdóttir frábær. 

Spenna, hrollur og óvæntir snúningar

Kuldi er hrollvekjandi spennutryllir sem íslenskir áhorfendur mega ekki missa af. Þó að stundum hafi verið farið hratt yfir sögu þá skína sagnahæfileikar Yrsu Sigurðardóttur í gegn en henni tókst enn og aftur að koma mér á óvart. Ég var því bara fegin að hafa ekki lesið bókina og fengið að upplifa snúningana á stóra tjaldinu. Ég hugsaði þó að mig langaði til að grípa í bókina til að fá aðeins dýpri sýn á sumar persónurnar og hægari atburðarrás. En það er ómögulegt að koma heillri bók fyrir á aðeins 90 mínútum. Lokaorð mín eru því: Skellið ykkur í bíó og látið hræða ykkur smá. 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...

Þörf bók um missi

Þörf bók um missi

Núna á dögunum kom út íslensk þýðing á barnabók eftir John Dougherty og Thomas Docherty...