Það er eitthvað fallegt við að fá póstsendingu inn um lúguna. Þá meina ég ekki auglýsingabæklinga eða sífellda yfirlitið yfir lífeyrissjóðsstöðuna frá Þýskalandi sem enginn kann að lesa, heldur eitthvað eigulegra og meira spennandi. Sending sem að gefur meira af sér, jafnvel heilan heim. Ef að þú ert sammála mér að þá er ekki úr vegi að skrá sig í bókaáskrift. Bók beint heim í hlaðið, sérvaldar af natni og þýddar af alúð. Eintakið berst til þín oftast áður en það ratar inn í bókaverslanir. Það er líka svo gaman að láta koma sér á óvart, fá einhvern annan til að velja næsta söguþráð fyrir sig, en það er einmitt það sem bókaáskrift gengur út á. Að fá óvænta upplifun. Þetta getur verið sérstaklega sniðugt til að vekja áhuga barna á lestri, en biðin eftir sendingu skapar aukna spennu og eftirvæntingu. 

Ég vildi gera þeim sem hafa áhuga á slíkum áskriftum auðvelt fyrir og setja alla klúbbana saman í eina sæng hér til samanburðar.

Bókaklúbburinn Sólin 

Bókaklúbburinn Sólin hjá Benedikti Bókaútgáfu gefur út þrjár bækur á ári. Bækurnar eru ávallt með einhvers konar þema, en þemað árið 2023 voru verðlaunaðar norrænar bókmenntir og svo koma þær allar út í sömu stílhreinu kápuhönnuninni eftir Elin Mejergren. Hver bók er á 3290 kr. hjá Sólinni.

Uglan, Hrafninn og TMM

Forlagið býður upp á þrjár áskriftarleiðir af bókmenntum. Í fyrsta lagi Uglu klúbburinn þar sem áskrifendur fá sendar til sín sex kiljur á ári. Þar eru innlendar og erlendar í bland. 

Hrafninn er síðan bókaklúbbur fyrir þá sem elska spennusögur en þar fá áskrifendur einnig sex kiljur á ári af bæði íslenskum og erlendum krimmum. 

Hver sending  úr sitthvorum klúbbnum er á 2490 kr. 

Síðan má auðvitað ekki gleyma Tímariti Máls og Menningar en það kemur út fjórum sinnum á ári og eru þar birtar virkilega vandaðar greinar um bókmenntir, bókagagnrýni og svo einnig frumbirting á nýjum ljóðum og smásögum eftir okkar frábæru rithöfunda. Ársáskrift er á 7.500 kr. 

forlagið bókaklúbbar

Neon bókaklúbbur

Bjartur býður upp á bókaklúbbinn Neon en þar er að finna bækur sem hafa slegið í gegn í heimalandi sínu eða vakið sérstaka athygli. Að sögn Bjarts þá eru þær sérstaklega valdar út frá “forvitnilega-mælikvarðanum”, það er að segja bækur sem að sýna lesendum á Íslandi inn í nýja menningarheima. Verð per bók er 3.690 kr. með sendingu og koma fimm bækur á ári með pósti.

Angústúra

Í bókaáskrift hjá Angústúru berast áskrifendum fjögur áhugaverð verk á ári. Verkin eru fjölbreytt og sýna lesendum alls kyns ólíka menningarheima en þau eiga það öll sameiginlegt að hafa slegið í gegn í heimalandi sínu. Hver bók er á 2.980 krónur með sendingargjaldi. 

Angústúra býður einnig upp á barnabækur í áskrift. Hver bók kostar þar 2.800 kr. með sendingargjaldi.

Fyrir börnin

Ljósasería Bókabeitunnar

Ljósaseríuklúbbur Bókabeitunnar er áskrift af bókum fyrir börn. Í Ljósaseríunni er boðið upp á  myndskreyttar barnabækur með fjölbreyttum efnistökum. Sögurnar eru eftir íslenska höfunda og túlkaðar af ólíkum myndskreytum. Bækurnar eru misþungar en hafa allar þægilegt letur og rúmt línubil sem gerir lesturinn þægilegri og auðveldari. Verðið hjá Bókabeitunni er 2.990 krónur á bók.

Leynifélag Ísadóru

Leynifélag Ísadóru kallast áskriftarklúbbur bókaforlagsins Drápu en þar, eins og nafnið gefur til kynna eru í boði bækurnar um Ísadóru Nótt sem er að hálfu álfur og hálfu vampíra. Bækurnar henta börnum á aldrinum 6 – 12 ára. Félagar í klúbbnum fá sendar til sín þrjár bækur á ári um Ísadóru Nótt og kostar hver bók með sendingu 2.999 kr.

 

Áskriftir Eddu

Fyrir krakka þá eru það auðvitað alltaf áskriftarleiðir Eddu útgáfu. Þar má finna áskrift að hinum klassíska og sívinsæla Andrési Önd, svo er þar Disney- klúbburinn með sögum sem eru unnar upp úr Disney kvikmyndum og svo einnig Disney- krílaklúbbur fyrir allra yngstu börnin. Og þá er vel boðið af lesefni því að 12 bækur koma á ári frá Disney og einnig 12 Syrpur en ef valið er að fá Andrés Önd í tölublöðum koma þaðan 52 blöð í pósti á ári. Mismunandi verð eru eftir því hvaða áskriftarleið er valin.  

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...