Þriðja bókin í Dulstafa seríu Kristínar Bjargar er væntanlega í vikunni. Síðustu ár hefur Lestrarklefinn fengið að birta forkafla bókanna í Rithorninu og okkur þótti við hæfi að loka seríunni á sama hátt. Hér er því forkaflinn að bókinni Orrustan um Renóru eftir Kristínu Björgu Sigurvinsdóttur.
Forkafli – Fyrir 500 árum
Draxana gekk berfætt í grasinu og faldurinn á vínrauða blúndukjólnum dróst á eftir henni. Hún strauk hárlokk bak við eyrað þegar golan lék um svart hárið. Það var langt síðan hún hafði litið þessi fjöll augum. Náttúran á Aratim var gerólík öllu öðru í Renóru enda eyjan einangruð langt í norðri.
Hún var rétt ókomin að hellinum sem hún hafði eitt sinn kallað heimili, hann var handan við hæðina. Draxana dró andann djúpt. Það yrði ekki auðvelt að hitta systkini sín aftur, sérstaklega af því að framtíð hennar valt á þeim. Hún hafði reynt allt og nú voru þau eina bjargráðið sem hún átti eftir.
Stuttu seinna heyrði hún hörpuhljóm. Þegar hún gekk upp á hæðina kom hún auga á hellisopið. Það var í laginu eins og munnur sem hafði ekki náð að lokast. Hér höfðu þau dvalið fyrst um sinn þegar þau ferðuðust frá gömlu heimkynnum sínum hinum megin við Órahafið. Draxana hafði alltaf ímyndað sér að óvenjulegt hellisopið væri leifar af fornri forynju, óvætt sem eitt sinn hefði skekið þennan heim með þungum skrefum sínum.
Skammt frá hellinum voru systkini hennar.
Abraxa sat á steini og strauk gríðarstórt stálspjót með klút. Ymar sat á jörðinni og hallaði sér upp að útvegg hellisins og las í bók. Hann hagræddi gleraugunum á nefinu og fletti svo blaðsíðunum, sem voru úr þunnu skinni með skautlegu letri. Skammt frá þeim stóð Belinda. Hún spilaði á viðarhörpu og ljóst hárið sveiflaðist til og frá þegar hún vaggaði í takt við tónana.
Eftirvænting í bland við kvíða fór um Draxönu þegar hún leit fjölskyldu sína augum í fyrsta sinn í tugi ára.
„Sæl, systkin,“ sagði hún og reyndi að fela titringinn í röddinni. Þau hlutu að sjá að henni var mikið niðri fyrir því þau stóðu samstundis upp og gengu til hennar.
„Hvað er að, systir?“ spurði Abraxa. Brúnir lokkarnir bærðust í golunni. Hún var elst og tónninn í röddinni bar þess merki. Það kom hik á Draxönu. Vissu þau ekki hvað plagaði hana? Vissu þau ekki af hverju hún hafði beðið þau að hitta sig hér?
„Hvetjið þau til að flytja til baka,“ bað Draxana og kyngdi. Hún þráði ekkert heitar en að fá fólkið aftur í marmaraborgina. Leira, sem eitt sinn hafði verið borg glæsileika og munaðar, var nú lítið annað en þögul auðn. Samúðarsvipur Abröxu var litlu skárri en vorkunnin í augum Ymars.
„Það var ástæða fyrir því að fólkið flutti burt. Eyðilöndin eru hættuleg,“ sagði Ymar ákveðinn. Draxönu varð hugsað til fjölskyldunnar sem hafði lent í klóm Úkrólanna, fornra vængjaðra djöfla. Þegar þau loksins fundust var ekkert eftir af þeim nema örfáar tennur. Atvikið hafði sent óttabylgjur gegnum íbúa Leiru og smátt og smátt hófu þeir að flytja yfir í borgir systkina hennar.
„Ég mun sjá til þess að það gerist ekki aftur,“ sagði Draxana staðföst. Hún myndi beita töfrum sínum til að reisa marmaramúra milli Eyðilandanna og Renóru ef hún þyrfti. Ef það dygði ekki til myndi hún sjálf ganga frá djöflunum til að verja fólkið sitt. Hún var ekkert án þess.
„Ég bið ykkur,“ sagði Draxana. Systkinin litu hvert á annað. Draxana var yngsta systirin og vön því að hin tækju ekki mark á henni, en hún vonaði að í þetta sinn sæju þau örvæntinguna í augum hennar. Það var Belinda sem svaraði.
„Nei, systir. Fólkið velur hvar það hefur heimili,“ sagði hún. Orðin stungu beint í hjartastað. Belinda var næst henni í aldri og það hafði alltaf gert þær nánar. Tvær yngri systur á móti eldri systkinunum. Draxana hafði treyst á að Belinda myndi tala máli hennar en nú yfirgaf hún hana á ögurstundu.
Draxana lokaði augunum og kreppti hnefana í von um að stöðva skjálftann sem skók líkamann. Hún gat ekki verið alein. Þögnin í borginni var nöturleg en einmanaleikinn var óumflýjanleg kvöl. Hún var þegar farin að finna áhrif hans læsa klónum í sinn innsta kjarna.
„Svo þið gerið ekkert?“ spurði hún gegnum samanbitnar tennurnar.
„Nei,“ svöruðu þau samtímis og hristu höfuðið.
Ískyggileg værð kom yfir Draxönu. Innst inni hafði hana grunað að þau myndu bregðast henni, hafna henni eins og fólkið í Renóru hafði gert. Þess vegna kom hún undirbúin.
Þegar Draxana sneri úlnliðunum myndaðist myrkur töfrasveimur umhverfis hana. Hún reyndi að hugsa ekki um ófrýnilegu skuggaverurnar sem höfðu veitt henni svartagaldurinn. Um leið og hún kallaði eftir dimmu töfrunum fann hún að fingurgómarnir urðu stífir, líkt og þeir væru að breytast í stein. Hátt gjald var fyrir svartagaldurinn en undrunin og áfallið í augum systkina hennar á þessu augnabliki gerði það allt þess virði.
Gull-, silfur- og bronslitað mistur myndaðist umhverfis systkinin þegar þau kölluðu eftir sínum eigin töfrum. Þetta var í síðasta skipti sem þau myndu vanmeta hana.
„Ekki gera þetta. Við getum fundið aðra leið,“ bað mjóróma rödd Belindu. Draxana hikaði eitt augnablik. Ef hún réðist á þau yrði ekki aftur snúið. Brýrnar á milli þeirra myndu brenna, hjartaþræðir myndu slitna, blóðbönd rofna. Draxana beit tönnunum svo fast saman að hún fann járnbragð í munninum. Hún vildi ekki finna aðra leið. Þau höfðu neitað henni um það eina sem hún bað um, það eina sem hún gat ekki lifað án.
Alein að eilífu.
„Þið eigið eftir að sjá eftir að hafa hafnað mér,“ hvæsti Draxana og reisti hendurnar upp yfir höfuð. Hún hafði engu að tapa og í næstu andrá sleppti hún takinu á myrku orkunni sem flæddi um æðarnar.