Það hefur ekki farið fram hjá neinum að það er október og Íslendingar hafa tekið hrollvekjuhátíðinni Hrekkjavöku opnum örmum. Þetta endurspeglast vel í úrvali barnabóka sem hefur verið gefið út í byrjun haustsins. Hver hrollvekjubókin á fætur annarri hefur sprottið fram og þar á meðal er VeikindaDagur eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur með myndlýsingum Sigmundar Breiðfjörð, eða Simma. 

Kápa bókarinnar gefur strax til kynna að hér sé á ferðinni hrollvekjandi saga þar sem mannát kemur við sögu. Mögulega uppvakningar. Þeir elska heila.

Sagan segir af Degi sem er einn heima. Foreldrar hans fóru í frí til útlanda og hann fékk að vera einn heima og sjá um sig sjálfan, eftir smá tuð. Hann þarf að mæta í skólann á réttum tíma og sinna náminu og íþróttaæfingum. Og það er mjög mikilvægt að hann muni eftir að taka lyfin sín. Svo virðist samt sem hann sé að veikjast. VeikindaDagur, fattið þið! En hann lætur veikindin lítið á sig fá og heldur áfram að mæta í skólann, þótt hann sé drulluslappur. 

Svo fara krakkar í kringum hann að hverfa, þar á meðal einn félagi hans sem var honum samferða heim eitt kvöldið. En Dagur man ekkert eftir kvöldinu. Hefur Dagur eitthvað að gera með hvarfið? Hann veit það ekki alveg sjálfur. Af hverju heyrir hann svona vel hjartslátt fólks? Af hverju er hann svona rosalega svangur? Hvaðan kemur þessi undarlega þrá hans fyrir blóði? Hvers vegna hungrar hann í mannakjöt!? Svo er hann að farast úr ást á Ylfu Dögg. Er hún kannski skotin í honum líka? 

Fjörug og ógeðsleg en ástleitin

Texti Bergrúnar og myndir Simma segja saman splattersögu af venjulegum strák … eða sko næstum venjulegum strák. Það er nefnilega eitthvað við Dag sem er heldur undarlegt. Hann missir algjörlega stjórnina! Ég uppljóstra ekkert þegar ég segi að Dagur borði fólk, það kemur fram mjög snemma fram í bókinni. Lýsingar af mannáti, blóðslettum, bruddum tánöglum og nöguðu fótsiggi eru mjög grafískar. Myndir Simma styðja þarna vel við hryllinginn, eru myrkar, dularfullar og óreiðukenndar eins og hugsanir Dags þegar hann er á mannaveiður. Á nokkrum stöðum í bókinni fá myndirnar alveg að taka yfir, þá helst þegar Dagur er á mannaveiðum og drepur til að seðja óstöðvandi hungrið. Þá fær myrkur og óhugananlegur stíll Simma að njóta sín í formi teiknimyndasögu. 

Dagur er sem sagt alveg að missa það en eins og í öðrum bókum Bergrúnar Írisar þá kemur ástin sterk inn. Dagur er ástfanginn af Ylfu Dögg og svo virðist sem hún sé hrifin af honum líka. Þótt líf Dags sé á hraðri niðurleið þá er ástin það eina sem kemst að í huga hans. Ástin og mannakjöt. Munu þau Ylfa Dögg ná saman?

Einfaldur splatter

Sagan er ekkert of flókin, hún er sögð á einföldu tungumáli og er nokkuð jarðbundin á sinn hátt. Ætli það sé ekki ástin sem heldur bókinni á jörðinni. Það mætti segja að lýsingar á kjöttægjum sem eru fastar í tönnum séu mjög raunsannar líka, ef við lítum fram hjá því að það sé mannakjöt. Ylfa og Dagur eru vissulega hrifin hvort að öðru og hér er það Ylfa sem stígur fyrsta skrefið. Ég hafði gaman af því að lesa um mannát (því ég elska hrollvekjur) en söguþráðurinn um vandræðalegar unglingaástir höfðaði ekki eins til mín. En ég er svo sem ekki markhópurinn. Bergrún Íris lokar þó bókinni á mjög óvæntan hátt. Senan ætti þó ekki að koma lesendum á óvart hafi þeir lesið byrjunina vel. En samt sem áður kom þetta á óvart og var skemmtilega ógeðslegt, en samt fallegt. Ástin spyr ekki um lífsmark er slagorðið fyrir bókina og nokkuð flott slagorð.

Ef þú þekkir barn sem er á miðstigi eða efsta stigi í grunnskóla þá gæti þessi bók hitt í mark. Krakkar vilja láta hneyksla sig og hræða og ganga fram af sér. Hafa ber í huga að bók hræðir aldrei meira en þeirra eigin ímyndunarafl. Myndir Simma gefa ekki of mikinn hrylling upp, heldur ýta frekar undir ímyndunaraflið. Kauptu handa barninu hrollvekjubókina, ég lofa að það er ekki eins viðkvæmt og þú heldur. 

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...