It’s Britney, bitch!

Þriðjudaginn 24. október, sama dag og við á Íslandi héldum kvennaverkfall, kom út bók sem strax er orðin metsölubók: Ævisaga Britney Spears, The Woman in Me. Britney þekkjum við flest. Hún skaust upp á stjörnuhimininn við útgáfu fyrstu plötu sinnar haustið 1998 en þá var hún tæplega sautján ára gömul. Hún var ekki sviðsljósinu ókunnug en þá hafði hún þegar unnið í eitt og hálft ár í sjónvarpsþættinum The Mickey Mouse Club.

Britney var örugglega alltaf ætlað að verða stjarna, það eru upptökur af henni á YouTube kornungri að syngja og krafturinn er slíkur að maður fær gæsahúð! Uppgangur hennar var gríðarlega ör. Hún gaf út sína fyrstu plötu og svo fylgdi fjöldinn allur af plötum í kjölfarið, hún kom fram á stærstu tónlistarverðlaunahátíðunum, fór í tónleikaferðalög um allan heim og sprengdi fjölmiðla þegar hún klæddi sig í gallabuxnadragt í stíl við þáverandi kærasta sinn Justin Timberlake árið 2001.

Loksins fær Britney orðið

Frá og með árinu 2007 fór að bera á því í fjölmiðlum að Britney væri ekki á besta stað í lífinu. Hún rakaði af sér hárið og réðst á ljósmyndara með regnhlíf. Á svipuðum tíma kom plata hennar Blackout út sem öll voru sammála um að væri stórmerkileg, en platan fékk mun minni athygli en persónulegt líf Britney. Söngkonan fræga hélt þó áfram að koma fram og landaði meðal annars resídensíu í Las Vegas þar sem aðdáendur hennar gátu séð hana allt að þrisvar sinnum í viku.

Britney hefur alltaf átt trygga aðdáendur og fyrir allmörgum árum hófust getgátur um að Britney réði sér ekki sjálf. Í kringum þann tíma sem hún réðst á manninn með regnhlíf missti hún bókstaflega eigið ákvörðunarvald þegar faðir hennar fékk hana svipta sjálfræði og fór að stjórna lífi hennar í gegnum hlutverk sitt sem „conservator“. Aðdáendur fóru að hafa áhyggjur af henni og stofnuðu hreyfinguna #FreeBritney. Árið 2021 fékk Britney loks sjálfræði sitt til baka eftir þrettán löng ár og hefur verið dugleg að deila frá lífi sínu á Instagram, en nú segir hún loks sína eigin sögu.

Átti stjörnudrauma sjálf

The Woman in Me er skrifuð af Britney og annars höfundar er ekki getið. En í þakkarkaflanum nefnir hún þó aðstoðarfólk við skrifin. Tónninn í bókinni fannst mér þó einlægur og eins og þarna væru raunveruleg orð söngkonunnar. Bókin er hefðbundin ævisaga, hún er að mestu línuleg og er Britney afar opinská með sína hlið mála.

Britney er fædd í Louisiana fylki í Bandaríkjunum árið 1981 og á eldri bróður fæddan 1977 og yngri systur (sem sjálf hefur gert garðinn frægan) Jamie Lynn fædda árið 1991. Ég myndi ekki segja að hún hafi átt góða æsku. Eins og hún lýsir því var fjölskyldan ágætlega stæð en það litaði æsku hennar gríðarlega hvað faðir hennar var mikill alkóhólisti og hvað foreldrarnir rifust mikið vegna þess. Auk þess var faðir hennar gríðarlega metnaðarfullur í garð barna sinna (sérstaklega elsta sonarins) og ýtti þeim áfram langt út fyrir eðlileg mörk. Mér þótti mjög áhugavert að Britney upplifði það greinilega ekki að foreldrar sínir væru að ýta sér út í frægðina. Pabbi hennar er nánast ósýnilegur í fyrstu köflunum um æskuna.

Britney hafði áhuga á að koma fram og syngja og dansa og mamma hennar studdi hana og fylgdi henni í áheyrnarprufur en eftir að Mickey Mouse Club lauk fór Britney bara í menntaskóla og foreldrar hennar voru ekki að ýta á hana að taka að sér ný verkefni. Með þetta í huga fer lesandinn ósjálfrátt að hugsa hvenær fór þá allt úrskeiðis hjá Britney. Samkvæmt ævisögunni er eftir það að drullusokkurinn Justin Timberlake hætti með henni.

Kunni að meta #FreeBritney hreyfinguna

Bókin er uppgjör Britney. Hún er loksins orðin frjáls og þráir núna (fyrst hún getur það í fyrsta sinn) að tjá sig um sína reynslu. Ég hóf lestur og festist gjörsamlega í bókinni. Konur af minni kynslóð ólust upp með Britney og var hún í raun fyrirmynd margra stelpna (þó hún hafi ekki beðið um það sjálf!) þar til hún virtist allt í einu hafa breyst í partístelpu sem djammaði með Lindsay Lohan og Paris Hilton. En lífið er ekki svona svart og hvítt og fer Britney yfir mörg af sínum áföllum og erfiðleikum í æsku sem mótuðu hana.

Mér þótti fyrri helmingur bókarinnar sérstaklega sterkur því bæði fer Britney yfir heimsþekkt atvik í sínu lífi, hún var til dæmis skíthrædd þegar hún dansaði á MTV VMA með gulri slöngu, en segir einnig frá persónulegri og óþekktum atvikum til dæmis að hún hafi átt mjög góðar stundir að drekka daiquiri drykki með mömmu sinni þrettán ára gömul.

Fylltist reiði við lesturinn

Seinni helmingur bókarinnar segir frá árunum 2007 til 2021 og fer yfir hvernig var fyrir Britney að missa stjórn yfir peningum sínum, líkama sínum (hún þurfti að biðja um leyfi að fá að losna við lykkjuna, hversu viðbjóðslegt!) og öllum ákvörðunum sínum. Þegar hún er nauðungarvistuð undir lok þess tímabils upplifir hún versta tíma lífs síns. Hún lýsir algjörum hryllingi og sturlaðri hræsni. Á meðan hún var ekki talin nógu góð til heilsu til að hafa sjálfsákvörðunarvald var hún samt talin nógu heilsuhraust til að koma fram í Las Vegas þrisvar sinnum í viku. Hún segir að hún hafi virkilega kunnað að meta #FreeBritney hreyfinguna.

Man fyllist brjálaðri reiði við lesturinn, fjölskylda Britney er greinilega alveg handónýt og pabbi hennar hefur misnotað dóttur sínar fyrir milljónir dollara. Jafnframt hafa tveir menn algjörlega brotið Britney niður; Timberlake byrjaði með því að neyða hana í fóstureyðingu og gefa út plötu sem gaf í skyn að hún hafi verið framhjáhaldarinn í sambandinu (höskuldarviðvörun, það var hann!); Kevin Federline endanlega braut hana með því að misnota sér frægð hennar til að byggja upp eigin feril. Þessi seinni hluti bókarinnar er átakanlegur en hefði mátt vera skýrari, tímalínan er ekki jafn línuleg og meiri kaótík í textanum, en það er eflaust til marks um hvernig Britney leið á þessum tíma.

Ævisaga Britney Spears er uppgjör sem ég er viss um að mjög mörgum mun finnast áhugavert að lesa. Það er svo margt að í okkar frægðarmenningu sem hún kemur inn á í bókinni, ótrúlegar væntingar um fullkomna hegðun, sjúkur fókus á meydóm og enginn afsláttur gefinn ungum konum sem eru að finna sig. Hvort sem fólk er aðdáendur Britney eða ekki er þetta grípandi lesning, bókin er fyndin á köflum og margt virkilega athyglisvert. Niðurstaða mín eftir lesturinn er sú að Britney Spears á miklu betra skilið. Ég ætla rétt að vona að henni takist að byggja upp líf sitt að nýju á sínum eigin forsendum, en ekki á forsendum skíthælanna (karlanna) í hennar lífi!

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...

Þörf bók um missi

Þörf bók um missi

Núna á dögunum kom út íslensk þýðing á barnabók eftir John Dougherty og Thomas Docherty...