Ég hef alltaf heillast af sögum sem tengjast sjónum svo þessi bók varð strax fyrir valinu í kvöldlesturinn.
Höfundur Sjóræningjarnir eru að koma! er John Condon en hann býr með fjölskyldu sinni í Kent í Bretlandi. Þetta er önnur bók hans en hann hefur gefið út þrjár myndabækur hingað til. Sagan féll aldeilis vel í kramið hjá ungum lesendum og vann The Children‘s Jury Award í Belgíu en bókin er talin snerta á mikilvægum málefnum eins og þörfinni á að efla samfélag, jafnrétti og þrautsegju. Bókin hefur einnig verið þýdd á yfir tíu tungumál.
Myndhöfundurinn Matt Hunt hefur myndlýst fjölda bóka. Hann býr einnig í Bretandi ásamt konu sinni og tveimur köttum. Bókin var fyrst gefin út árið 2020 en kom út í íslenskri þýðingu Baldvins Ottó Guðjónssonar í fyrra.
Allir í felur!
Sagan segir frá drengnum Ása. Hvern einasta dag fer hann upp á hæð og skimar eftir sjóræningjum. Einn daginn sér hann bát og skipar öllum í bænum að fara í felur því sjóræningjarnir séu að koma. Borgarbúar hlýða og margir fela sig á ólíklegustu stöðum eins og í fiskihrúgu. Báturinn var hins vegar ekki sjóræningjaskip. Næstu tvo daga endurtekur sagan sig og bæjarbúar eru orðnir þreyttir á þessum röngu viðvörunum. Í fjórða skiptið fer enginn í felur en þá vill svo til að alvöru sjóræningjar eru mættir í bæinn! Þeir eru sem betur fer vinalegir og bæjarbúar bjóða þá velkomna heim. Þá kemur í ljós að sjóræningjaskipstjórinn er mamma Ása.
Úlfur úlfur
Sagan um Ása minnir á söguna um smalastrákinn sem kallaði úlfur úlfur. Reyndar er aðalpersónan í bókinni ekki að leika sér að því að kalla vegna þess að honum leiðist heldur trúir hann því sjálfur að skipin sem hann sér við sjóndeildarhringinn séu sjóræningjaskip. Þegar sjóræningjarnir birtast loksins eru þeir þó ekki vondir heldur virðast þeir vera frá bænum.
Ég skil reyndar ekki af hverju allir fara í felur ef þeir þekkja sjóræningjana? Allan tíman er gefið í skyn að þeir séu vondir og þegar þeir mæta á svæðið eru þeir með sverðin á lofti en síðan er mamma Ása er skipstjórinn. Mér finnst það reyndar skemmtileg tilbreyting að hafa konu sem sjóræningjaskipstjórann!
Nær til krakka
Textinn er auðlesinn en það er dálítið af endurtekningum enda kemur setningin „Sjóræningjarnir eru að koma“ fyrir tíu sinnum í þessum stutta texta.
Stíll myndanna ólíkur þeim bókum sem við mæðginin höfum verið að lesa undanfarið. Mjög mikið í gangi og talsverð óreiða á myndunum. Stundum veit ég ekki hvar ég á að byrja því það er svo mikið í gangi en það þýðir líka að maður er allaf að koma auga á eitthvað nýtt. Það er mikill kostur því barnabækur eru lesnar oftar en einu sinni. Drengnum mínum finnst myndirnar fyndnar og skemmtilegastar eru opnurnar þar sem íbúarnir þurfa að fela sig.
Ási má eiga það að hann gefst ekki upp. Þrátt fyrir að verða fyrir vonbrigðum aftur og aftur þá fer hann alltaf aftur upp á hólinn að bíða eftir sjóræningjaskipinu. Ég skil það vel þar sem hann er að bíða eftir að mamma hans komi heim og það setur ákveðna dýpt í verkið.