Badreads?

Er lestur keppni?

Þarf alltaf að vera keppni?

Hver á hreinasta húsið fer oftast í ræktina, á flottustu börnin og er með mjóasta mittið? Hver bakar mest og best og líka hollast og er gallharður feministi en samt á forsendum feðraveldisins svo það sé ekki of óþægilegt í framsetningu? 

Hver passar að vera sæt á meðan hún djögglar nokkrum vinnum, móðurhlutverkinu og virku félagslífi? Og er sú hin sama ekki örugglega líka að lesa í það minnsta 20 bækur á ári til að teljast maður með mönnum. Eða voru það 50? Hverju mælir Goodreads með? 

Síðasta vígið fallið?

Samanburðarþráhyggjunni sem þrýst er á okkur í samfélagsmiðladrifnu æði nútímans lætur ekkert heilagt, allra síst áhugamálin. Finnst þér gaman að vatnslita? Skiptir ekki máli ef þú gerir það ekki nógu vel til að deila fallegum myndum eftir þig á instagram (og helst selja líka) geturðu alveg eins sleppt því. Sama gildir um hreyfinguna og matseldina, félagslífið og sambandið við makann. Til hvers að taka þátt ef þú ert ekki best í því sem þú gerir? Eða allavega með þeim betri? Og nú er síhungraður algóryþminn búinn að læsa klónum í síðasta vígið: lesturinn.

Skrímslið Goodreads, sem er í eigu Amazon, hljómar eins og góð hugmynd í fyrstu, rétt eins og það að selja djöflinum sál sína virðist ekki svo afleit hugmynd fyrr en kemur að skuldadögum. Í appinu getur notandi sett sér sín eigin markmið um hversu margar bækur hann ætlar sér að lesa á árinu, sem hvatningu til að reyna að lesa meira. Sem hljómar nú ekki alvitlaust í nútímaheimi þar sem stöðugt er verið að tilkynna að æ færri gefi sér tíma í bókalestur. En rétt eins og hlaupari sem hefur halað niður Strava veit manna best, þá er stutt frá því að ætla að bæta sig og gefa sér meiri tíma í áhugamál yfir í að verða þræll samanburðar við náungann. Lestrarappið getur hæglega orðið, eins og hlaupaappið, bókaormur sem bítur í halann á sér.

Nú er lesturinn nefninlega ekki lengur bara fyrir þig, heldur líka fyrir þá sem fylgja þér. Þú átt að geta svarað því hversu margar bækur þú last á árinu því þú ert með nákvæma tölu yfir það. Og svo má ekki gleyma að auk þess að upplýsa um fjölda bóka er líka tekið fram hvaða bækur það eru sem þú lest. Þá fer lestrarsnobb að slæða sér inn á sjóndeildarhringinn, því það er ekki það sama að lesa og lesa, Anna í Grænuhlíð á ekki séns í Dostoyevskí, og þar fram eftir götum. Nú er notandi Goodreads jafnvel ekki að velja bækurnar sem hann sjálfan langar mest að lesa til að njóta gæðastundar, heldur litar álit almennings valið. Önnur skvísubók? Sú þriðja í röð? Færðu aldrei nóg af litlum bakaríum við sjóinn og myndarlegum garðyrkjumönnum, fávitinn þinn? Meiri skandinavískar glæpasögur? En frumlegt. Var morðinginn kannski misnotaður í æsku og lögreglumaðurinn alkóhólisti? Til hamingju með að vera boring. Og bíddu er þetta ljóðabók? Telst það með sem heil bók? 40 blaðsíðna gerpi? Róleg að svindla, letingi. Og svo mætti lengi telja.

Að spyrna við fótum

Að lesa er fyrir mér margslungin iðja. Það er allt í senn og til skiptis innlit í menningarheima og huga sem þú hefðir ekki aðgang að annars, grípandi upplifun þar sem heimurinn verður fullkominn um hríð, vinátta þekking og ást, og heilalaus afþreying. Hvað hef ég ekki lesið margar glæpasögur sem skildu ekkert eftir? Hversu margar frábærar stundir hef ég ekki átt með ódýrum hryllingsbókum með augljósu plotti og vafasamri persónusköpun? Hversu margar skvísubækur hakkaði ég ekki í mig á unglingsárunum, sem og allt sem Stephen King hefur skrifað? Hvað hef ég persónulega lagt marga þúsundkalla í vasa Camillu Läckberg? Ég elska að lesa til að sóna út, hætta að hugsa og róa mig niður eftir langa daga. Ég elska að hálfhunsa börnin mín með góða (eða vonda) bók í hönd, eins og pabbi Einars Áskells með dagblaðið sitt. Í þokkabót finst mér best að lesa á símanum mínum og graðga þar í mig endalausu magn af ömurlega ódýrum bókmenntum, af frábærum og vel skrifuðum bókum, af góðu léttmeti og lélegum upphafningslegum skrifum, smá klassík, helling af fræðibókum og öllu þar á milli. (Nema Jonathan Franzen þar segi ég stopp).

Er þessi pistill skrifaður til að upphefja mig sem virkan lesara ? Kannski endar það þannig, en planið var að minna okkur á að það að lesa er ekki keppni. Það er enginn að telja – og ef einhver er að telja er sá hinn sami fáviti, svolítið eins og frænka sem telur ofan í þig pönnukökur í kaffiboði. Vissulega hljómar það vel í nútímasamfélagi að hafa tíma, getu og hæfni til að gera allt og app sem sannar að það fyrir heiminum. Það er ekki við einstaklinginn að sakast sem lætur sogast með brjáluðu togi þessara markaðsaðila sem þrá að láta okkur aldrei finnast við nógu góð og dugleg. En að ná að setja fæturnar niður og ýta á móti getur verið mjög valdeflandi og frelsandi – og jafnvel á endanum meira gefandi en að horfa á vel útfylltan Goodreadslistann og strjúka sveittum lófa yfir þvalt enni með þreyttum, útlesnum augum. Líta svo á klukkuna og athuga hvaða óyfirstíganlega verkefni sem samfélagið krefst af þér þú ættir að klára næst.

Aftur til stílabókarinnar

Þá færa margir þau rök að þeir séu bara með Goodreads lista fyrir sig til að hvetja sig áfram ekki til að sýna sog og sjá aðra. En ef það er satt af hverju skráir þú ekki bara í dagbókina þína? Á word skjal? Bak við eyrað? Stofnar bókaspjall með vinum eða kunningjum eða gerist lítill einkagagnrýnandi og skrifar álit þitt á því sem þú lest í örfáum setningum sem þú getur svo kíkt á seinna til að glöggva þig og rifja upp?

Ég held að Goodreads sé eins og aðrir samfélagsmiðlar og smáforrit – tæknilega séð góð hugmynd, en þegar forritið er hannað gagngert til að halda okkur límdum við skjáinn þá er ekki verið að veita okkur þjónustu heldur taka eitthvað frá okkur. Tíminn sem fer í að bera sig saman við aðra er dýrmæti sem sogað er frá okkur. Tími sem annars gæti farið í eitthvað gefandi, róandi eða heilalaust – eins og lestur. Það er ágætt að hafa það í huga og svo bara að setja sjálfan sig virkilega í fyrsta sæti og lesa sér til ánægju og yndisauka fyrir engan nema sjálfan sig.

Höfundur er bókmenntafræðingur og doktorsnemi sem hefur reynt, og mistekist, að halda úti Goodreads síðu.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...