Vatnabobbar í bobba og lífshættulegir sveppir

Tómas Zoëga og Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir unnu samkeppni Borgarbókasafnsins og Bókmenntaborgarinnar um jóladagatal ársins 2020 með sögunni Nornin í eldhúsinu. Nú hafa þau sent frá sér bókina Skrímslavinafélagið. Tómas hefur einnig skrifað eina barnasögu fyrir Storytel,Vetrargestir (2019).

Skrímslavinafélagið segir af Pétri og Stefaníu sem eru líklega á yngsta eða miðstigi í grunnsóla. Þau leika sér við skítalækinn á skólalóðinni og safna þar vatnabobbum. Stefaníu langar nefnilega svo að eiga gæludýr, en foreldrar hennar vilja ekki sjá nein dýr á heimilinu. Þetta þarf því að vera mikið leyndarmál og til að standa vörð um það stofna Pétur og Stefanía leynifélag: Skrímslavinafélagið. Félagið vindur upp á sig þegar þau finna dularfullt krydd í skólanum. Lífskryddið. 

En hvað verður um vatnabobbana!

Pétur og Stefanía eru ekki í sama bekk. En þau eru bestu vinir. Jóhann Steinn er nýkominn í skólann. Öll eru krakkarnir á frekar óræðum aldri sem þýðir að allir krakkar á aldrinum 5-12 ára munu eiga auðvelt með að spegla sig í persónunum. Pétur er svolítill ofhugsari með brennandi áhuga á rannsóknum, flokkunum og heiminum. Stefanía er ákveðin, röggsöm og hugmyndarík og á greinilega mun auðveldara en Pétur með að eignast nýja vini. Svo kemur Jóhann Steinn inn í söguna með hvelli. Hann hrindir Pétri í skítalækinn, biðst afsökunar og heldur áfram að spila fótbolta. Samband Péturs og Jóhanns Steins er svolítið stirt eftir þetta. Þeirra samskipti sýna okkur mjög vel að það er stundum betra að tala saman en gera ráð fyrir að einhver hafi viljað eitthvað illt. Pétur upplifir öll afskipti Jóhanns Steins sem stríðni, en Jóhann Steinn er bara óöruggur í nýjum skóla og klaufskur í þokkabót. 

En svo eru það sveppirnir. Fjöldamörg börn á Íslandi hafa þurft að víkja úr skólum sínum vegna mygluvandamála. Álmum er lokað, íþróttahúsum skellt í lás. Þetta er landlægt vandamál. Pétur og Stefanía finna einmitt svepp í skólanum, lífskryddið er sveppagró. Og vegna haturssambands Péturs við Jóhann Stein lendir sá síðarnefndi í mikilli hættu. Inn í söguna fléttast svo dularfull norn í bílskúr og lækningamixtúra sem bjargar öllu. En best er þó að lesendur fá að vita hver örlög vatnabobbanna verða áður en sagan er úti.

Sagan er einföld, en undirniðri leynist flóknari saga af vináttu og því hvernig er að vera nýr í bekknum. Hvernig það er betra að tala saman áður en skrattinn er málaður á vegginn. Og svo leynist þarna svolítill fróðleikur um vatnabobba og skítalæki.

Sveit í borg?

Eins og ég sagði hér að ofan eru aðalsöguhetjurnar á heldur óræðum aldri. Þau geta verið í 1.-7. bekk, þó mig gruni nú að þau séu á yngsta stigi. Hvergi er það afhjúpað í hvaða bekk þau eru, sem gerir söguna enn aðgengilegri öllum aldurshópum. Að sama skapi er óljóst hvort krakkarnir búa í litlu þorpi, sveit eða stórri borg. Öll börn ættu því að geta auðveldlega speglað sig í bókinni. Það er samt ljóst að þau geta gengið á milli heimila, svo líklega eru þau ekki í miklu dreifbýli. Myndirnar endurspegla náttúru og stöku hús.

Og þá komum við að myndunum! Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir er myndhöfundur bókarinnar. Ég veit ekki hvað það er við myndirnar, en þær hitta beint í mark hjá mér. Það er mikill leikur í myndunum. Þær eru lausar við tilgerð og litríkar og í þeim leynist líka svolítill húmor. 

Fullkomin í heimalesturinn

Ég og sex ára sonur minn lásum bókina saman á kvöldin. Við vorum sammála um að hún væri spennandi og skemmtileg og fyndin. Allt sem prýða þarf góða bók. Bókin minnir svolítið á Ráðgátubækurnar eftir Helenu Willis og Martin Widmark. Hér er tvíeyki sem leysir leyndardóm, rétt eins og í þeim bókum. Brotið er eins og að sama skapi er línubil og stærð leturs í bókinni þægilegt fyrir fyrstu lesendur. Hér má því segja að komin sé íslensk útgáfa af þeim gífurlega vinsælu bókum. 

Skrímslavinafélagið hentar mjög vel í heimalesturinn fyrir krakka sem eru orðnir nokkuð öruggir í lestri. Hvern hefði grunað að hægt væri að skrifa skemmtilega barnabók um myglu í skóla!

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...