Spássera saman á ströndum, torgum og strætum

Hópur kvenna sem unnu allar á Þjóðarbókhlöðunni eru saman í lesklúbb sem stofnaður var í upphafi árs 2011. Meðlimirnir unnu við hin ýmsu störf og voru hæstánægðar hver með aðra, bæði sem vinnufélaga og sem manneskjur, og vildu efla kynnin. Nú eru þær allar komnar á síðari unglingsárin, lausar undan vinnukvöð. Sú yngsta er 72, sú elsta 86 ára.

Í stafrófsröð telur hópurinn eftirfarandi konur: Auði Gestsdóttur, Auði Styrkársdóttur, Áslaugu Agnarsdóttur, Bryndísi Ísaksdóttur, Emilíu Sigmarsdóttur, Guðrúnu Eggertsdóttur, Halldóru Þorsteinsdóttur og Kristínu Bragadóttur. Heiðursfélagi er Sigrún Eggertsdóttir.

Fundir eru haldnir mánaðarlega yfir vetrarmánuði og skiptast þær á að hýsa fundi. Gestgjafahlutverkið er tekið hátíðlega, en að sögn Auðar Styrkársdóttur varast þær þó samkeppni (!) Þær taka hlé yfir sumarið enda flestar úti um hvippinn og hvappinn þá.

Lesa bækur eftir meðlimi

Tveir meðlimir hópsins hafa gefið út bækur sem þær hafa tekið fyrir í klúbbnum: Helga sögu eftir Auði Styrkársdóttur og Bakkadrottninguna eftir Kristínu Bragadóttur. Áslaug Agnarsdóttir er virtur þýðandi úr rússnesku, og þær hafa lesið Bernsku – Æsku eftir Lev Tolstoy í hennar þýðingu, sömuleiðis Dauðann og mörgæsina og Gráar býflugur eftir Andrei Kurkov, Dostoyevski og ástin og Sögur frá Sovétríkjunum.

Að sögn Auðar lesa þær það sem kalla má skáldsögur í betri flokki. Þannig var fyrsta bókin sem þær lásu Svar við bréfi Helgu eftir Bergsvein Birgisson, og síðasta bókin var Smámunir sem þessir eftir Claire Keegan. Lengi framan af ræddu þær næstu bók á fundi en í seinni tíð hefur skapast sú regla að sú sem hýsir klúbbinn velur þá bók sem lesin er og rætt um.

Ferðast reglulega saman

Auður segir félagsskapinn það sem geri hópinn svo frábæran.

Við fáum ekki nóg af honum. Við erum satt að segja svo þyrstar í hann að við höfum efnt til hópferða innanlands og utan, sofið saman sitt á hvað, spásserað á ströndum, torgum og strætum, og setið sem sardínur í rútum, sem Emilía ekur af snilld með Auði S. á gps tækinu.

Þær hafa farið í nokkrar ferðir til Stykkishólms, þar sem Halldóra á hús. Þar hafa þær snætt og sofið saman og lesið og hlegið. Árið 2016 fóru þær til Skagen á Jótlandi. Þar gistu þær á því fræga Bröndum Hotel og eltu fótspor hinna frægu Skagenmálara eftir ströndinni og nutu hinnar sérstöku birtu og sáu öldur Skagerak mynnast við öldur Kattegat. Þær skoðuðu listaverk á listasafninu og hús Önnu og Michaels Anchers, einnig klifu þær turninn í Den tilsandede kirke og gengu upp á hina geysimiklu sandöldu Råbjerg mile.

Þetta er ekki eina utanlandsferð hópsins en árið 2018 heimsóttu þær Bjerkebæk, hús Sigrid Undset í Lillehammer í Noregi. Þar skrifaði hún sín helstu verk, þ.á.m Kristínu Lavransdóttur sem þær lásu í klúbbnum. Húsið er nú safn og þar urðu þær nokkru fróðari um líf Sigrid og bókmenntaverk hennar. Á leiðinni til Lillehammer skoðuðu þær Eidsvoll, eða Eiðsvelli, þar sem Norðmenn lýstu yfir sjálfstæði frá Dönum árið 1814 og samþykktu stjórnarskrá. Frá Lillehammer lá leiðin til Osló og gist var á Grand Hotel á Karli Johan. Bæði Sigrid Undset og Knut Hamsun voru þar fastagestir, og segir sagan að þau hafi sneitt rækilega hvort hjá öðru og litið í hina áttina ef mættust, að sögn Auðar. Konungshjónin, þau Haraldur og Sonja, veifuðu til þeirra úr opnum bíl á leið úr sinni höllu eftir Karli Johan til dómkirkjunnar að minnast þess að þau voru gefin þar saman 50 árum fyrr.

​Í september á þessu ári fóru þær saman til Basel í Sviss þar sem Guðrún á tvíburasystur, og er sú þeirra heiðursfélagi. Þær gengu um gamla bæinn undir leiðsögn Sigrúnar og meðfram Rín og fylgdust með fólki berast með straumnum eftir ánni, en þarna er vinsælt að baða sig. 

Við dreyptum á hvítvíni og te á hótelinu Les Trois Rois (Konúngarnir þrír). Þar hafa ritað í gestabók meðal annarra fyrirmenna skáldin Voltaire, James Joyce, Goethe og Charles Dickens.

Að sögn Auðar eru þær lang oftast sammála um ágæti bóka og erjur hafa engar verið. Aðspurð hvaða bækur hafa staðið upp úr segir Auður að þeim hafi öllum þótt Veröld sem var eftir Stefan Zweig merkileg, og málfarið á þýðingunni einstaklega fallegt. Einnig má nefna Ljósu eftir Kristínu Steinsdóttur, Dyrnar eftir Magda Szabó, Spámennina í Botnleysufirði eftir Kim Leine, Moby Dick eftir Herman Melville, Þar sem fjórir vegir mætast eftir Tommi Kinnunen, Þar sem vegurinn endar eftir Hrafn Jökulsson og Gróður jarðar eftir Knut Hamsun.

Næsta bók hópsins verður Þung ský eftir Einar Kárason. Annað er óráðið og þær bíða spenntar. Ráð hópsins fyrir aðra lestrarklúbba er að taka lífinu létt saman. Neyta meðan á nefinu stendur. Nóg er nú volæðið í honum heimi. Og að lokum að lesa léttmeti inn á milli.

Lestrarklefinn þakkar hópnum kærlega fyrir að deila með okkur sinni sögu og óskar honum frábærs lesturs í vetur.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.