Litskrúðug gleðisprengja

Söngleikurinn Fíasól gefst aldrei upp var frumsýndur laugardaginn 2 desember í Borgarleikhúsinu. Sýningin, þar sem börn fara með aðalhlutverk, er sett upp með stórum leikhóp barna, sem sýnir til skiptis, og ég sá leikhópinn þar sem Hildur Kristín fer með hlutverk Fíusólar. Hún stóð sig með miklum glæsibrag, hreif salinn með sér strax frá upphafi og var ákveðin og örugg með sterka útgeislun. Hún söng fallega og var skýrmælt og fyndin þegar þurfti, ákveðin, tilfinningarík, sorgmædd og glöð. 

Leikstjórn er í höndum Þórunnar Örnu Kristjánsdóttur og tónlistin er frumsamin af Braga Valdimar Skúlasyni, en sagan er sjálf byggð á þjóðþekktum barnabókum Kristínar Helgu Gunnarsdóttur.

Nýjar stjörnur fæddar

Börnin stóðu sig eins og stjörnur, misstu hvergi úr dansspor eða nótu í söngnum og voru full af gleði sem skilaði sér út í áhorfendasal. Þó erfitt sé að reyna að gera upp á milli var systir Fíusólar mjög góð í að skila textanum sínum skýrt og fallega, og lék einstaklega vel á móti systrum sínum, og stríðnispúkinn Tedda sýndi dýpt og persónutöfra. Þá var ánægjulegt hvað barnaleikarahópurinn var fjölbreyttur, öruggur og kröftugur, og þá er sérlega ánægjulegt að sjá fatlaða leikara á sviðinu.

Fullorðnu leikararnir voru ekki síðri en þeir ungu. Mamma Fíusólar, í túlkun Birnu Pétursdóttur, söng áberandi best af öllum og var mjög skemmtileg. Pabbinn, leikinn af Sveini Ólafi Gunnarssyni, hafði kannski úr minnstu að moða í frekar klassísku hlutverki „vandræðalega pabbans“, en gerir það ágætlega. Stóra systir Fíusólar nær unglingaveikinni mjög vel, án þess að verða að algjörri fígúru og kærastinn hennar, kossa- og fótboltaþjálfarinn Lárus hagaði sér nákvæmlega eins og unglingskærasti á heimili tengdafjölskyldu sinnar gerir. Þá var kjölturakkinn Jensína einhverskonar hundavélmenni, og hver sá sem stýrði þeirri skepnu og hannaði á mikið lof skilið, því hún var á fullkomnum mörkum grótesks ókennileika og tuskubrúðu, og bætti miklu við stemningu verksins.

Vilhelm Neto lék grunnskólakennarann Martein við mikinn fögnuð áhorfenda, bæði ungra og aldna, og stóð hann upp úr sem skemmtilegasti karakter verksins. Til að vitna í aðstoðargagnrýnanda minn, 9 ára dóttur mína, þá sagði hún: „Það er eins og kennarinn sé drukkinn. Ég vildi að það væri svona kennari í mínum skóla.“ Og hvað er betra hrós en það úr munni barns?

Ótal viðburðir úr lífi Fíusólar

Lögin voru stórskemmtileg og textarnir á góðu og fallegu máli eins og við var að búast. Þá voru dansatriðin æðisleg og búningarnir þurfa heilan lofsöng út af fyrir sig. Sviðsmyndin var svo lifandi og skemmtileg, einföld á sinn hátt, en margbrotin og mjög vel nýtt í atriðunum. Þegar hún tók umskiptum í hrekkjavökusenunni ætlaði salurinn að tryllast úr spenningi. 

Mér fannst sagan ágæt en held að verkið sé í lengra kantinum sérstaklega fyrir yngstu áhorfendurna en það er yfir tveir klukkutímar með hléi. Þá er sýningin skrifuð í sketcha-stíl, á þann hátt að við fylgjum ekki einum þræði út allt verkið heldur hoppum á milli atburða og viðburða í lífi Fíusólar, fjölskyldu hennar og bekkjarfélaganna. Það hefði að mínu mati mátt sleppa nokkrum senum, því eins og segir í lýsingu á verkinu hefur Fíasól tækjalausan dag, stofnar hjálparsveit barna, talar við umboðsmann barna og hjálpar bekkjarsystkinum að gera slíkt hið sama, semur um sumarlaunin sín, missir hundinn sinn, syrgir hann og jarðar, njósnar um stóru systur, tekur stærðfræðipróf, týnir stærðfræðiprófi, tekst á við eineltismál og svo mætti lengi telja. Mér finnst sérstaklega að dauði og jarðsetning hundsins hafi verið svolítið troðið inn og að það hefði verið betra að sleppa því atriði en að reyna að koma því að, eða þá sleppa öðru til að gefa því meira pláss. En það eru þó smávægilegir gallar á annars stórkostlegri sýningu.

„Skemmtilegasta leikrit sem ég hef nokkurn tímann séð“

En hvers vegna ættum við að hlusta á hvað ég, þrjátíu og tveggja ára manneskjan hef að segja, þegar við erum með aðstoðargagnrýnanda minn, hina níu ára Efiu Freyju, sérfræðing í barnasýningum?

Efia segir um senurnar í skólanum: „Þetta er alveg eins og skólinn minn.“ Um Hildi Kristínu í hlutverki Fíusólar segir hún: „Vá, hvað hún er góð leikkona, hún er örugglega búin að æfa sig í meira en mánuð,“ og um verkið í heild: „Þetta er skemmtilegasta leikrit sem ég hef nokkurn tímann séð.“ Sem foreldri hennar get ég staðfest að þetta síðasta sé satt, því þrátt fyrir að vera fjörugasta barn á Íslandi sat hún kyrr og horfði á allt leikritið og var svo spennt að hún missti sleikjóinn sinn á gólfið. Og hana nú.

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...