Fallegar barnabækur eru algjörlega nauðsynlegar í jólapakkann að mínu mati. Vanda þarf valið fyrir börn á öllum aldri og því vildi ég fjalla um eina litla bók um frosk með stóran munn sem mun henta yngstu kynslóðinni einstaklega vel.
Froskurinn með stór munninn eftir Francine Vidal og Élodie Nouhen er vinsæl frönsk barnabók sem var íslenskuð af Jóhönnu Björk Guðjónsdóttur og gefin út hjá Dimmu. Það er klárlega myndlýsingin sem laðar augað strax að bókinni en myndirnar eru vandaðar, litríkar og uppfullar af dýrum sem börnin hafa einstaklega gaman af.
„Mikið ullabjakk og pú!“
Titill bókarinnar ætti að gefa lesendum vísbendingu um hvað bókin snýst, en uppáhalds brandarinn minn þegar ég var lítil var einmitt brandarinn um froskinn með stóra munninn. Textinn er að hluta til í bundnu máli sem gefur lestrinum skemmtilega hrynjandi, „Flugur í morgunverð, flugur í kvöldverð, hann af þeim fær nóg, eins og þú sérð!“. Þannig froskurinn hoppar af stað og ávarpar hvert dýrið að fætur öðru í leit að meira spennandi fæðu en flugum. Hér er ánægjulegt hvernig textinn liðast um blaðsíðurnar í allskonar litum og snúningum. Þannig blandast hann betur inn í myndheiminn og endurspeglar jafnvel orðin sjálf.
Frosknum líst nú ekki vel á þá fæðu sem dýrin stinga upp á og lætur út úr sér allskyns skondna frasa sem munu vekja kátinu hjá börnunum, sem dæmi: „Mikið ullabjakk og pú!“ og „Ó gúbbí dúbbí dú!“. Opnurnar með myndunum af krókódílnum eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér og tveggja og hálfs árs syni mínum en myndhöfundinum tekst að gera hann sérstaklega ógnvænlegan með gulu glyrnunum og hárbeittu tönnunum.
Froskurinn með stóra munninn er litskrúðug og skemmtileg bók fyrir yngstu kynslóðina. Börnin munu hafa gaman af ævintýrum frosksins, endurtekningunni og taktinum í textanum, listrænu myndunum og að lokum hlæja að hræðslu forvitna frosksins við krókódílinn ógurlega sem elskar auðvitað að borða froska með stóra munna.