Lesa ljóðabækur og skáldsögur í bland

Á Borgarbókasafninu í Árbæ hefur verið starfræktur leshringur í ríflega áratug. Hópurinn hittist yfirleitt fyrsta mánudag í mánuði og les eina skáldsögu og eina ljóðabók.

Að sögn Jónínu Óskarsdóttur, bókavarðar á Borgarbókasafninu í Árbæ, hefur verið fastur kjarni í klúbbnum frá upphafi en síðan hefur bæst í hópinn. „Við höfum ekki getað bætt við okkur undanfarið því við viljum fá pláss, hver og ein, til að tjá okkur um bækurnar sem við höfum verið að lesa. Við höfum það þannig að við förum hringinn til að hver fái sitt pláss.“ 

Ljóðabækur og skáldsögur í bland

„Oft eru skiptar skoðanir um bækurnar, sérstaklega ljóðabækur. Þá lesum við stundum þau ljóð sem hafa höfðað sérstaklega til okkar og það kveikir oft ljós hjá efasemdarmanneskjunum og þær fá jafnvel áhuga á að kíkja betur á ljóð höfundar. Við erum konur en einn karlmaður var með okkur frá upphafi og allt þar til hann lést,“ segir Jónína.

Nýverið kláraði hópurinn ljóðabækur að eigin vali eftir Ísak Harðarson og skáldsöguna Sannleiksverkið. Það sem þær eru að lesa akkúrat núna er bókin Hinstu blíðuhót/Augnablik í eilífðinni eftir Kjersti Anfinnsen og ljóðabók að eigin vali eftir Þórdísi Gísladóttur. Stundum les hópurinn æviminningar eða aðrar bækur í stað skáldsagna, eru til dæmis á leiðinni að fara að lesa bókina Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur. 

Drukkið er te í leshringnum og áður var fastur liður að maula á Sæmundi í sparifötunum/kremkexi, en á því er hlé núna, að sögn Jónínu.

Upplestur og út að borða á aðventunni

Einstöku sinnum bregður leshringurinn sér af bæ. Þau hafa farið á indverskan veitingastað í miðbænum og í Bíó Paradís á eftir. Í tilefni afmælis leshringsins fóru þau á veitingastað og á höfundakynningu og upplestur í Borgarbókasafninu í Gerðubergi. Nú er framundan að skoða Elley – endurvinnsluverslun á Seltjarnarnesi og borða í Ráðagerði. Þau hafa auk þess farið saman á einhverja upplestra sérstaklega á aðventunni.

„Þetta er einstaklega góður hópur – það er gaman að vera í leshring!“ segir Jónína að lokum.

 

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...