Óhapp verður að velheppnaðri bók

Allt annar handleggur er einkar athyglisverð barnabók eftir hina fjölhæfu Áslaugu Jónsdóttur. Hana þekkja flestir sem einn af höfundum Skrímslabókanna sem hafa svo sannarlega slegið í gegn hjá yngstu kynslóðinni. En bækurnar sem innihalda texta og/eða myndlýsingar eftir hana eru fjöldamargar og hægt er að glöggva sig á verkum hennar hér. Hún hefur unnið og verið tilnefnd til fjölda verðlauna og hlaut meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka fyrir Skrímsli í vanda árið 2017. 

Það sem hendi er næst

Bókin er einstaklega skapandi gjörningur úr smiðju Áslaugar sem varð fyrir því óhappi að handleggsbrjóta sig. Eins og hægt er að ímynda sér þá er virkilega óhentugt fyrir myndhöfund og rithöfund að vinna með ónothæfa hönd. Áslaug dó þó ekki ráðalaus og nýtti það sem hendi var næst til að skapa myndaseríu af þrjátíu og fjórum fjölbreyttum furðuverum úr rauðu umbúðunum sem hún sat uppi með. Seinna meir ákvað hún að semja limrur til heiðurs hverrar einustu fígúru og birtast þær samsíða myndunum.

Kápu bókarinnar prýðir óheillakrákan, mögulega sú sem olli handleggsbrotinu:

Þá óheillakrákan sjálf kvakaði
og kirfileg vandræði bakaði,
            í gólfið hún skall,
            það var skelfilegt fall,
og skaðinn svo heillengi þjakaði
(Dagur 1)

Hún er einnig fyrsta fígúran sem birtist lesandanum í bókinni en þetta er auðvitað frábær byrjun á verkinu þar sem fallið, óhappið, var upphafið á gjörningnum. En lokalimran sem birtist við hlið Hugfangna Hallmundar „sem hnepptur var lengi í prísund“ (dagur 34) táknar auðvitað frelsun handleggsins úr fangelsi. Inn á milli kynnist lesandinn alls kyns furðuverum og fígúrum líkt og Sólbjörtu svartsýnu, Katli kapphlaupara og Illuga anarkista. Með þeim fær gipsklæddur handleggurinn að fara í gervi allskyns dýra sem klárlega heilluðu minn unga gutta mest. Þar voru Hrói köttur og Lúsifer djúpsjávarfiskur ansi óhugnanlegir en í miklu uppáhaldi. 

Limrurnar eru flestar skondnar og munu vekja upp kátínu lesenda. Það má sjá sem dæmi í limrunni sem fylgir áðurnefndum Katli Kapphlaupara sem er háður er því að auglýsa afrek sín á samfélagsmiðlum:

Títt hleypur hann Ketill af kappi
og kynnir sín afrek á snappi, 
            með blóðbragð á tungu
            og titrandi lungu
hann telur hvert fótspor í appi.
(Dagur 29)

Einstakur efniviður

Gaman er að rýna í myndirnar og finna út úr því hvaðan efni búninganna er fundinn. Þórarinn trúður frá degi 3 er til dæmis með hár úr krulluðu innpökkunarbandi og nef úr kirsuberjatómat. Gunnólfur lýruleikari mundar lýru sem ég get ekki betur en séð sé úr eggjaskerara, en ég myndi halda að það yrði skemmtilegur leikur með börnunum að nefna efniviðinn þegar bókin er lesin. Hægt er svo að fletta upp efniviði hvers dags aftast í bókinni.

Ef ég ætti að gagnrýna eitthvað myndi ég hafa valið litríkari mynd á kápuna til að laða augu ungra lesenda að. Einnig segir textinn á bakkápunni lítið um innihald bókarinnar og því mögulega erfitt fyrir tilvonandi kaupanda í bókabúð að átta sig á innihaldi bókarinnar. 

Að mínu mati er Allt annar handleggur bók fyrir allan aldur þrátt fyrir að hún sé skráð sem barnabók í Bókatíðindum. Ég sé hana fyrir mér sem skemmtilega tækifærisgjöf ef létta þarf lund fullorðins fólks en börnin verða nú auðvitað hrifin af henni, og þá sérstaklega ljósmyndunum og fígúrunum sem Áslaug hefur skapað svo skemmtilega.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...