Einstakt jólatré er ný barnabók eftir Benný Sif Ísleifsdóttur með myndskreytingum eftir Linn Janssen. Benný Sif hefur sent frá sér fjölda söglegra skáldsagna og ber þar helst að nefna Hansdætur og Gratíönu.
Í sögunni um Einstakt jólatré er lesandinn hvattur til að fagna fjölbreytileikanum hvar sem hann birtist. Þá setur upphafsopnan tóninn fyrir söguna þar sem við sjáum fullt af ólíkum grenitrjám. Síðan hefst sagan á smá fílu, en aðalpersónan Unnsteinn er ekki í góðu skapi vegna þess að það er ráðist á jólagleði hans úr ýmsum áttum. Systur hans rifu niður jólaseríurnar og snjókarlinn hans bráðnaði úti, en foreldrar hans og amma og afi vilja bara drekka kaffi. En þegar pabbi stingur síðan upp á því að þau fari í jólaskóginn að finna sér jólatré þá kætist hann um leið. Sagan sýnir að oft er gaman að fara óhefðbundnar leiðir því þær verði oftar en ekki eftirminnilegastar. Einnig minnir hún á að fegurðin er fjölbreytileg.
Teikningar nákvæmar og blæbrigðaríkar
Teikningar Linn eru gerðar í klippimyndastíl sem er skemmtileg aðferð og kemur einstaklega vel út. Með mismunandi áferðum verða teikningarnar marglaga á vissan hátt en þær fylla út í blaðsíðurnar og eru svipmiklar, litríkar og fallegar. Það er líka vert að nefna eitt það besta við myndlýsinguna, en það er að teikningarnar eru mjög nákvæmar þegar kemur að smáatriðunum, þessi smáatriði eru að minnsta kosti mjög mikilvæg fyrir þriggja ára heilabú. Að fá að sjá eplabitana og piparkökurnar sem er verið að tala um í textanum lifna við á köflóttu teppi í nestispásunni er fagnaðarefni. Mörg ung börn vilja sjá myndlýsinguna samræmast því sem er sagt er í textanum og er það raunin í sögunni Einstakt jólatré.
Orðum skreytt
Benný nýtir sér ríkulegan orðaforða og gaman er að taka samræðuna um að fyrirbæri eigi sér mörg mismunandi orð meðfram lestrinum. Lýsingarorðin eru þar skemmtilega áberandi og við fáum að kynnast trjám sem eru hnúskótt, kræklótt og snubbótt. Blæbrigði tungumálsins er greinilega í hávegum höfð hjá höfundi og skreytir hún textann með fjölbreyttum orðum. Sjálf á ég það til að einfalda stundum frásögnina fyrir ungan hlustanda en gott er að minna sig á að það er vert að kynna börn snemma fyrir fjölbreytileika tungumálsins.
Snubbótt tré sem fær að dafna
Mér finnst þó misræmi í sögunni og það angraði mig. Það hefði mátt vera skýrara í sögunni af hverju litið var framhjá hnúskóttu trjánum sem systur Unnsteins bentu á, en Unnsteinn fær að velja snubbótta skakka tréð sem á endanum verður jólatré fjölskyldunnar. Hvað það var sem heillaði hann og af hverju ákvað faðirinn að verða við ósk sonarins. En boðskapurinn er fallegur og Unnsteinn er vissulega söguhetja þessarar bókar. Jólatréð verður síðan að lokum einstakt vegna þess að það fær að lifa áfram og vaxa og dafna með Unnsteini, það er meira en bara jólatré.
Mér finnst kærkomið að fá nýja íslenska jólabók fyrir ung börn en það er eitthvað svo dásamlegt að eiga bækur sem eru dregnar upp á hverjum jólum. Einstakt jólatré er vönduð, fagurlega myndskreytt og mjög eiguleg bók sem sómir sér vel í jólapakkann.
Viðbót við umfjöllun eftir birtingu:
Ég fékk ábendingu um að skoða teikningarnar betur og sjá að Unnsteinn er einhentur og ástæðan fyrir því að hann velur tréð sem er bústnara einum megin er þá sú að hann sér sjálfan sig í því. Jólatréð er því einstakt á marga vegu, ekki einungis fyrir þær sakir að það fær að lifa áfram og dafna. Ég vil benda á þetta því þetta gerir bókina líka einstaka þar sem þetta er mikilvæg birtingarmynd sem sést ekki oft. Benný og Linn eiga hrós skilið fyrir það. Og mögulega eru einhverjir þarna úti sem eru jafn óglöggir og ég og sjá þetta ekki, en það er sniðugt að tala um þetta við börnin á meðan lestri stendur. Ég vil þó halda mig við upprunalegu umfjöllun mína hér að ofan líka, því þetta hefði mátt vera ögn skýrara í textanum enda las ég bókina oft og rýndi í hana.. Ein lítil setning á borð við “Það er eins og ég!“ hefði ýtt undir boðskapinn og gert hann sterkari.