Eftirminnilegustu kvöldstundirnar með Braga Páli

Bókaklúbburinn Rútínubólgan

Bókaklúbburinn Lespíurnar á Akranesi var stofnaður snemma árs 2018 og er því fimm ára í ár. Það var strax ákveðið að þær myndu hittast á kaffihúsum í bænum, þar sem hægt væri að láta þjóna sér með heitu kakói og kökum. Á  Akranesi helst mjög illa á kaffihúsum, þau stoppa stutt við. Þær vildu styrkja við kaffihúsin með því að hittast þar. En það dugði ekki til. Klúbburinn hefur lifað þrjú kaffihús, sem hafa opnað og lokað á þessum fimm árum. Þær hittast því í heimahúsum í dag og halda öllu umstangi í lágmarki. 

Klúbburinn var stofnaður þar sem þær voru nokkrar sem höfðu áhuga á að ræða saman um bækur, sumar þeirra vildu komast burt frá ungbörnum og allri umræðu í kringum þau einu sinni í mánuði og ræða þá eitthvað allt annað. Þetta var líka kjörið tækifæri til að komast í tengsl við svipað þenkjandi fólk, að sögn Katrínar Lilju Jónsdóttur (meðlim hópsins og stofnanda Lestrarklefans) en það fór þó svo að aðeins konur eru í klúbbnum.  

Allar á Skaganum

Hópurinn telur 12 konur úr mismunandi áttum en þær eiga það allar sameiginlegt að búa á Akranesi og hafa brennandi áhuga á bókum. Hópurinn hefur vaxið og minnkað í gegnum árin, fólk flutt í og úr bæjarfélaginu. En kjarninn hefur haldist óbreyttur, sem er þrír starfsmenn Pennans Eymundssonar á Akranesi. 

Á tímabili voru þær á aldrinum 20-60 ára, en í dag eru þær á aldrinum 30-60 ára, aðallega af því ungu konurnar fluttu burt til að stunda nám. En vegna þessa breiða aldursbils þá koma oft fram mjög mismunandi sjónarmið og sýn á lífið og bókmenntirnar. Samræður geti því oft verið mjög líflegar. Þær reyna að lesa fjölbreytt efni, allt frá léttmeti yfir í eitthvað þyngra. Þær hafa síðustu mánuði þó helst lesið eftir íslenska höfunda.

Þegar jólabókaflóðið stendur sem hæst er erfitt að halda að okkur höndum og við viljum oft demba okkur beint í flóðið. 

Vildu ekki festa sig við ákveðnar bækur

Við stofnun klúbbsins var rætt um að lesa eingöngu bækur eftir kvenhöfunda og frá eins mismunandi löndum og þær komust yfir. En fljótlega kom í ljós að þær vildu ekki hefta valið þannig. Síðustu mánuði hafa þær reynt að miða við að bækurnar séu aðgengilegar á hljóðbókaveitum líka, þar sem einn meðlimur er tvíburamamma með mjög takmarkaðan tíma til að setjast niður með bók og lesa. En hún getur hlustað. Þær reyna því að koma til móts við þarfir allra. 

Það sem gerir okkar hóp svo frábæran er kunningsskapurinn sem hefur myndast í gegnum klúbbinn. Samræðurnar sem myndast á fundum fara líka oft út fyrir bókina sem við vorum að lesa og við ræðum um aðrar bækur. Þannig erum við komin með meðmæli að öðrum bókum.

„Hafi bókin sem við vorum að lesa kynt undir mismunandi sjónarmið um samfélagsmál þá endar kvöldið oft á miklum umræðum um pólitík, kvenréttindi, samfélagsmál líðandi stundar og margt fleira. Það er skemmtilegt að vera í hópi sem er með breitt aldursbil þar sem öll heimsins mál eru rædd og kynslóðirnar deila þekkingu sín á milli. Ekki bara um bækur, heldur um svo margt annað,” segir Katrín.

Bókaklúbbsmeðlimir eru alls ekki alltaf sammála um bækurnar og það er skemmtilegast í klúbb þegar þær eru alls ekki á sömu skoðun um bækurnar að sögn Katrínar. Þá kvikni samræður sem haldi þeim á snakki langt fram eftir kvöldi. 

Lásu mikið úr áskriftarseríu Angústúru

Margar bækur eru eftirminnilegar hjá klúbbnum. Á tímabili lásu þær mikið bækur úr áskriftarseríu Angústúru. Það eru bækur sem sitja lengi í manni, til dæmis Einu sinni var í Austri eftir Xiaolu Guo. Þá nýtti klúbburinn líka tækifærið og fór og sá Xiaolu Guo í eigin persónu í Veröld þegar hún kom hingað til lands. Einnig lásu þær Allt sundrast eftir Chinua Achebe sem opnaði algjörlega nýja sýn á líf í Nígeríu.

Eftirminnilegasta kvöldið er þó án efa kvöldið sem þær ræddu bókina Arnaldur Indriðason deyr eftir Braga Pál Sigurðarson. Sennilega hefur aldrei verið hlegið eða hneykslast eins mikið nokkurt kvöld. Setningin „Má þetta bara?“ var mjög oft endurtekin. Segja má að svipað hafi endurtekið sig við krufningu á nýjustu bók hans Kjöt nú á aðventunni. Sumar fengu kjöthungur og aðrar urðu afhuga kjöti. Mjög líflegar umræður og skemmtilegar áttu sér stað. 

Svo var eins og við andvörpuðum samtaka þegar við lásum Sumarbókina eftir Tove Jansson. Sú bók var sérlega eftirminnileg og kvöldið líka. Við ræddum hana á fallegu og stilltu haustkvöldi með útsýni yfir Akrafjallið og bókin náði að fylla okkur einhverri kyrrð og ró. 

Það er ekkert plan um einhverjar sérstakar bækur hjá klúbbnum. Næsta bók er valin á fundi hvert sinn. 

Ráð klúbbsins til annarra bókaklúbba er að lesa sem fjölbreyttastar bækur, ekki hengja sig á að vera með veitingar og annað umstang fyrir fundina. Aðalmálið er að hittast og ræða saman!

Við þökkum Lespíunum kærlega fyrir að segja okkur frá klúbbnum sínum og óskum meðlimum klúbbsins góðs lesturs í vetur!

Mynd af hópnum, frá vinstri í aftari röð: Heiðrún Janusardóttir, Ásta Jenný Magnúsdóttir, Harpa Sólbjört Másdóttir, María Mist Helgadóttir, Þóra Þórðardóttir

Fremri röð: Fjóla Ásgeirsdóttir, Katrín Lilja Jónsdóttir, Ásta Jónsdóttir.
Á myndina vantar nokkra meðlimi.

 

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...