Hrollvekjur og mjög blóðugar glæpasögur orðið útundan

Bókaklúbburinn Rútínubólgan

Anna Wernersdóttir tilheyrir rótgrónum bókaklúbbi sem var stofnaður í Kópavogi, nánar tiltekið í Muffin Bakery sem þá var til húsa í Hamraborg, í nóvember 2008. 

Það var hugmynd Önnu að stofna klúbbinn. “Kveikjan var að mig vantaði vettvang til að hitta gamlar vinkonur aðeins oftar, það var farið að strjálast um hitting og flestar önnum kafnar konur með vinnu og heimili. Mér fannst því tilvalið að hóa saman tveimur vinkonum sem ég vissi að læsu mikið og nefna þessa hugmynd – og til að gera hugmyndina fýsilegri þá var planið að hittast einu sinni í mánuði yfir veturinn milli átta og tíu á kvöldin. Þá var hægt að hittast í miðri viku og enginn þreyttur eftir útstáelsi,” segir Anna.

Einnig var lagt upp með að veitingum væri stillt í hóf og vatn, te eða kaffi væri ljómandi gott. En þess má einnig geta að alltaf er boðið upp á einhverjar veitingar í föstu formi með vatninu.

Vinkonurnar tvær sem Anna heyrði í voru til í tuskið og svo var fleiri konum boðið að slást í hópinn.  Í gegnum árin hefur orðið breyting á samsetningunni og sumar hætt og nýjar komið í stað. Til að byrja með voru þetta konur sem Anna þekkti fyrir en síðan komu inn vinkonur vinkvenna og þær kynntust hægt og rólega. 

Í hópnum eru konur sem hafa gaman af að lesa og njóta samvista við aðra lestrarhesta. Flestar byrjuðu þær á aldrinum fjörutíu og eitthvað og síðan eru tæp 15 ár svo þannig er hægt að reikna aldur hópsins.

Lesa unga íslenska rithöfunda

Við lesum frekar fjölbreyttar bækur en samt hafa hrollvekjur og mjög blóðugar glæpasögur orðið útundan. Við reynum að fylgjast með ungum íslenskum rithöfundum sem skrifa fyrir fullorðna og höfum lesið ýmislegt eftir þá höfunda – fyrir næst bókaklúbb á að lesa söguna Snuð eftir Brynjólf Þorsteinsson.

Það frábæra við klúbbinn að sögn Önnu er félagsskapurinn og það að geta lesið bók og rætt við aðra um hana og spekúlerað í umhverfi, persónum, höfundi og fleiru. Eftir jól og sumarfrí er farið yfir leslista allra félagsmanna og meðlimir fá þannig hugmyndir að nýjum bókum að lesa og geta einnig deilt sínum leslista því eins og gefur að skilja lesa þær miklu meira en eina bók á mánuði.

Þær eru ekki alltaf sammála um bækurnar og sýnist sitt hverjum og er það bara besta mál. Ekki hefur skapast klofnungur svo alvarlegur gæti talist vegna bóka. 

Eftir 15 ár af þessum bókalestri þá hafa þær lesið margt bæði nýtt og gamalt.

Kannski stendur helst uppúr það sem við höfum lesið undanfarið, Kalmann, Violetta og Fullorðið fólk.

Skipulagið er þannig að þær nota stafrófsröð til að muna hver er með næsta klúbb og sú sem heldur klúbbinn ræður hvaða bók er lesin – einfalt og þægilegt fyrirkomulag sem virkar ótrúlega vel.

Við þökkum bókaklúbbnum frá Kópavogi kærlega fyrir að segja okkur frá klúbbnum sínum og óskum meðlimum klúbbsins góðs lesturs í vetur!

 

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...