Fleiri bækur, eða góðar bækur? Um stöðu íslenskrar barnabókaútgáfu

Síðustu ár hefur jólabókaflóðið í barnabókadeildinni verið gríðarlega stórt og mikið. Allra stærst var það árið 2019, eða 310 útgefnar bækur samanborið við 240 árið 2017. Árlega koma út í kringum 250-300 barnabækur á íslensku.

En þó að barnabókaúrvalið sé mikið hefur barnabókasala dalað. Eftir hrikalegar niðurstöðurnar úr PISA könnuninni, þar sem kom í ljós að stór hluti íslenskra barna er illa læs, stukku foreldrar og forráðamenn þó til og gáfu bækur fyrir síðustu jól, svo salan var nokkuð betri en árin á undan.

Ógnarhraði í útgáfu

Manstu í Covid, þegar við vorum öll heima? Þótt allar taugar væru þandar og kvíðinn að drepa okkur þá voru kröfurnar til að sinna skyldum og hugðarefnum utan heimilisins minni og samfélagið hægði á sér um hríð. Þótt óvissa hafi verið um framtíðina þá var allavega hægt að hafa það rólegt heima. 

Nú er Covid búið, heimsfaraldri lokið og lestin sem við sitjum í geysist áfram eftir gamla sporinu á ógnarhraða. Viðburðir hafa aldrei verið fleiri. Frestir eru stuttir og enginn hefur tíma! Tíminn er af skornum skammti, hann er lúxusvara. Tilfinningin er sú að ef eitthvað sé ekki gert núna strax séum við að missa af tækifæri. Það er stundum ekki einu sinni tími til að klára hlutina, meira liggur á að skila einhverju strax en að skila fullunnu verki þegar það er tilbúið.

Stuðningur

Árið 2019 tóku lög um sérstakan stuðning við bókaútgefendur gildi. Markmið laganna var að efla útgáfu bóka á íslensku með því að veita bókaútgefendum tímabundinn stuðning í formi endurgreiðslu á hluta kostnaðar sem fellur til við útgáfu bóka á íslensku. Lögin voru í gildi til 31. desember 2023 og það verður áhugavert að sjá hvað tekur við hér eftir.

Tilgangurinn með stuðningnum er góður og gildur. Ég held að þessi stuðingur sé almennt séð álitinn af því góða, þótt framkvæmd hans og útfærsla hafi verið gagnrýnd í gegnum árin. Til dæmis hefur verið gagnrýnt að hvorki rit- né myndhöfundar njóti góðs af styrknum, þess í stað er hann greiddur beint til bókaútgefandanna – til fyrirtækja. Þannig fái listamennirnir ekki skerf af kökunni, þótt kakan sé engin án þeirra. Þú bakar ekki köku án hveitis eða sykurs. Einnig er þessi stuðningur ólíkur öðrum opinberum styrkjum til bókmennta á Íslandi að því leyti að honum fylgir engin gæðastjórnun. Það eina sem þarf að gera til að eiga rétt á þessari endurgreiðslu er að  hafa gefið út bók, hvaða bók sem er. 

Magn frekar en gæði?

Miðað við þá aukningu sem hefur orðið við útgáfu barna- og unglingabóka, þá virðist sem svo að eitthvað hafi liðkast um fyrir útgáfunni með stuðningnum sem settur var á árið 2019. Gamall bókaútgefandi sagði hins vegar eitt sinn við mig að það væri ekki endilega gott að útgáfa væri auðveld. Meira magn sé ekki alltaf merki um gæði. Í raun sé því alveg öfugt farið. Þegar hann sagði þetta fannst mér hann heldur harðorður enda fjölmargir efnilegir höfundar sem biðu spenntir eftir að fá útgáfu á verkum sínum en komust ekki að. Nú sé ég betur hvað hann á við. Margar þeirra bóka sem börnunum okkar er boðið upp á í dag eru einfaldlega ekki nægilega vandaðar. 

Listaverk þarf tíma til að vaxa, þroskast og gerjast með listamanninum. Bókverk er ekkert öðruvísi. Texti þarf tíma til að slípast í höndum ritstjóra og höfundar. Álag er óvinur gerjunar. Þegar skiladagur er orðinn heilagur af því skila þarf inn skjölum til að fá endurgreiðslu á framleiðslukostnaði, þá stefnir í óefni. Gerjunin fær ekki að eiga sér stað. Endurgreiðslan hefur einnig liðkað fyrir því að höfundar gefi sjálfir út verk sín. Enginn skal draga í efa að þannig verk hafa stundum vakið mikla lukku. Sumar sjálfsútgefnar bækur hefðu átt að fá pláss hjá útgefendum, sem hafa kannski ekki viljað taka séns á umdeildu verki eða ekki séð fram á næga tekjumöguleika. En í barnabókadeildinni er þessu ekki alltaf þannig farið. Mörg verkanna sem hafa komið út í sjálfsútgáfu undanfarin ár eru einfaldlega ekki fullunninn og hefðu þurft styrka ritstjórn, myndritstjórn (sem stóru forlögin mættu líka bæta) og betri yfirlestur. Svo er þar líka að finna bækur sem áttu ekki erindi fyrir almenna lesendur, þó höfundi og nánustu aðstandendum hans hafi þótt bókin stórkostleg. Við viljum bjóða börnunum okkar upp á gott og áhugavert efni, sem höfðar til þeirra og eykur lestraráhuga. Tilgangur barnabóka er ekki að láta drauma fullorðinna einstaklinga, um að matreiða sérleg áhugamál sín ofan í unga lesendur, verða að veruleika. Stundum er samþykki rótgróinna bókaútgefanda nauðsynlegur þröskuldur. 

Er hægt að lifa á því að skrifa fyrir börn á Íslandi? 

Á sama tíma hafa barnabókahöfundar og myndhöfundar lítið fengið úthlutað frá launasjóði listamanna. Sem þýðir að barnabókahöfundar eru margir að sinna skrifum með annarri vinnu, skrifa um kvöld og um helgar. Eða hverfa einfaldlega á braut til annarra starfa sem skila salti í grautinn. Því skal þó ekki neitað að margar þeirra bóka sem eru getnar með þeim hætti eru mjög góðar og eiga höfundar hrós skilið fyrir vinnu og eljusemi. En það væri samt næs að þurfa ekki að vera alltaf svona djöfulli duglegur og vinna allt um kvöld og um helgar. Því fylgir kannski líka svolítill biturleiki, að streitast við að skrifa sem besta bók við lítil efni á meðan innihaldsrýrum og óvönduðum bókum er dælt út á markaðinn með lítilli áhættu fyrir útgefandann, allt í boði opinberra styrkja. 

Hægjum á og hugsum 

Þrátt fyrir nokkra vafasama titla gladdi það mig að sjá hvað úrval myndabóka var gott í jólabókaflóðinu 2023. Kannski er bölmóður minn og svartsýni óþörf, undanfarin ár hafa sprottið upp litlar en metnaðarfullar útgáfur sem leggja sig fram við að gefa út vandaðar og fallegar myndabækur fyrir yngstu börnin og hafa styrkirnir eflaust haft sitt um það að segja. Þarna eru þýddar myndabækur sérstaklega sterkur flokkur og gaman væri að sjá enn fleiri myndabækur eftir íslenska höfunda. 

Ég vona innilega að bækurnar sem verða í boði fyrir börnin okkar í ár verði byggðar á góðum hugmyndum, vel unnar, prófarkalesnar, ritstýrt í þaula og með vönduðum myndlýsingum. Eins og verðlag er núna á bókum, þá eru bækur munaðarvara, og börnin okkar eiga skilið að fá góðar, vandaðar og skemmtilegar bækur sem endast. Við viljum úrval, við viljum sjá fjölda bóka, en við viljum líka gæði.

ES. Úrvalið í unglingabókaflokknum er svo efni í annan pistil.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.