Íslendingasögurnar hafa aldrei verið í uppáhaldi hjá mér, langt í frá. Ég barðist í gegnum einhverjar þeirra er ég sat á skólabekk en um leið og tækifærið gafst bolaði ég þeim aftur í bókahilluna og þar kúra þær samviskusamlega. Ég geri mér samt sem áður fyllilega grein fyrir hversu mikill fjársjóður leynist í þessum sögum, hversu rík við erum að eiga þær og hversu mikilvægt það er að passa upp á þennan dýrmæta bókmenntaarf okkar. Að geta rakið ættir sínar aftur til Sturlungualdar og jafnvel enn lengra er algjörlega ótrúlegt og það veit Vilborg Davíðsdóttir. 

Vilborg hefur gert Íslendngasögurnar að viðfangsefni sínu og sér í lagi kvenpersónur þeirra. Hún er margverðlaunuð fyrir bækur sínar og  síðustu ár hefur hún skapað ótrúlegan söguheim í bókunum um Auði Djúpúðgu.  

Hofgyðjur og Væringjar.

Árið 2023 kom út bókin Land næturinnar, framhald bókarinnar Undir Yggdrasil, þar sem Vilborg heldur áfram að hylla formæður okkar og nú er Þorgerður Þorsteinsdóttir í aðalhlutverki, ömmubarn hinnar fyrrnefndu Auðar. Þegar hér er komið við sögu er Þorgerður nýgift Herjólfi kaupmanni og siglir með honum til Garðaríkis, til fundar við væringja í viðskiptaerindum.  Sú sem stendur í stafni í herbúðum væringjanna er Hofgyðjan Járngerður, kona Hólmgarðsjarlsins og saman brugga þau jarlinn, Herjólfi og Þorgerði launráð með skelfilegum afleiðingum.

Ég veit ekki hversu mikið eða ítarlega ég á að tíunda söguþráð bókarinnar. Frásögnin er hröð, fléttan er flókin og spennandi frá fyrstu síðu og ekki spillir fyrir þó fyrri bók hafi ekki verið lesin. Vilborg fer lipurlega að því að rifja upp það sem lesandinn þarf að vita til að sagan komi lesandanum ekki í opna skjöldu, án þess að slík upprifjun verði of langdregin eða ítarleg. Persónusköpunin er gríðarlega vönduð, aldrei er taumur dreginn með ákveðnum persónum, allar sitja þær jafnt við borðið hjá Vilborgu, hún dæmir aldrei. Meira að segja Járngerður, með sín illu klækjabrögð, höfundur er algjörlega hlutlaus í hennar garð og lesandinn þarf sjálfur að mynda sér skoðun. Eina nærvera höfundar í persónusköpun er ást hennar og virðing á formæðrum okkar, Vilborg virðist hafa lagt sjálfa sig í hendur þessara kvenna og fengið blessun þeirra fyrir. Fyrir vikið erum við rík að eiga slíkan höfund, sem tengir sig þessum fornu konum og skrifar þær inn í skáldsögur sínar svo þær birtast manni sem ljóslifandi beint af síðum bókanna. 

Heljarförin og aftur heim.

Frásögnin flæðir, Vilborg leikur sér að íslenskunni og fornum orðum, fellur þó aldrei í þá gryfju að reyna að endurskapa tíðarandann eða talsmáta fornmannanna, þó að sjálfsögðu viðhafi hún viðeigandi heiti og hugtök sem eru frásögninni nauðsynleg. Og einnig þar sést hversu mikla vinnu hún hefur lagt í skrifin, rannsóknarvinnan á bak við slíka bók er gríðarleg og Vilborg er aldrei mistæk, hvergi er ósamræmi í frásögninni eða persónusköpuninni. Land næturinnar er ástarsaga, hún er dramatísk, hún er spennusaga og á köflum húmorísk. Og þó ég sé ekki beinlínis aðdáandi Íslendingasagnanna þá er ég aðdáandi Auðar djúpúðgu og Þorgerðar Þorsteinsdóttur, stundum meira að segja líka aðdáandi Járngerðar.

Ég vona að Vilborg sé ekki búin að kveðja þessar konur, það er afskaplega auðvelt að sjá hana fyrir sér með ullarstafinn og viðeigandi búna til Heljarfarar, á fund við formæðurnar. Þar sitja þær innan um orma, dreka og allskyns hindurvitni og leggja á ráðin um næstu bók.  

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...