Engar töfralausnir en ágætis byrjunarpunktur

tove ditlevsen, bernska

Það getur vel verið að ekki vilji allir reyna að ná því að stunda frábært kynlíf en fræðin hafa kennt okkur að þeir sem hafa upplifað frábært kynlíf gerðu það ekki óvænt og óvart. Þið þurfið að átta ykkur á að þeir sem hafa náð að lifa frábæru kynlífi vörðu tíma og orku í það ásamt því að þroska samskipti og hæfni til að gera það að veruleika. (bls 146)

Bókin Lífið er kynlíf eftir kynfræðinginn Áslaugu Kristjánsdóttur kom út síðasta haust, um er að ræða handbók sem byggir á reynslu hennar í starfi síðasta rúma áratuginn. Bókin er vönduð en fyrsta sem vert er að taka eftir við er hve  haganlega hönnuð hún er. Umbrotið er lítið og bókin er sett upp á mjög fallegan og aðgengilegan hátt.

 Fyrir öll í ástarsambandi

Áslaug segir í innganginum að bókin sé skrifuð fyrir alla sem vilja vera í ástarsambandi þar sem kynlífið dafnar. Hún vilji að bókin nái til sem flestra. Bókina byggi hún upp eins og kynlífsráðgjöf, í upphafi er farið yfir hvað valdi löngun til kynlífs og síðast koma leiðbeiningar um hvernig taka megi ástarsambandið og kynlífið föstum tökum þannig að hvort tveggja dafni. Undirtitill bókarinnar er Handbók kynfræðings um langtímasambönd og er bókin byggð upp með upplýsingum og svo æfingum. Þá sé þægilegt að byrja á að lesa hana frá upphafi til enda, síðan er hægt að fletta fram og til baka og prófa æfingar þegar að hentar.

Dæmisögur og æfingar

Bókin er mjög vönduð og unnin af heilindum, það eru engar töfralausnir annars væri Áslaug atvinnulaus, en það eru æfingar og tillögur sem má byrja að nýta sér til að færa sambandið og kynlífið á betri stað. Vísað er til fjölda rannsókna og bóka og þannig ljóst að mikil rannsóknavinna er að baki. Áslaug sýður jafnframt saman sögur byggðar á reynslu para sem hafa verið hjá henni til að gefa góð dæmi um algeng vandamál og tillögur hennar að lausnum.

Það var ýmislegt sem vekti áhuga minn og forvitni í þessari bók, sumt hafði ég heyrt áður og annað bara alls ekki. Ég er handviss um að þessi bók geti nýst fjölbreyttum hópi fólki og alls konar pörum og geti stuðlað að betra kynheilbrigði. Eins og Áslaug bendir sjálf réttilega á er gríðarlegur skortur af kynfræðslu í okkar samfélagi og ég fagna því að svona bók komi út sem geti nýst fólki. Í viðtali fyrr á árinu sagði Áslaug að kynlíf væri að keppa við Netflix og kynlífið væri að tapa. Það er vissulega mikil vinna framundan fyrir þau sem vilja bæta kynlífið en óendanlegur ávinningur sem getur komið af því. Ég mæli því með að pör landsins sleppi Netflixinu eitt kvöld á næstunni og sökkvi sér frekar í þessa ágætu bók!

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...