Þegar bækur sitja í huga manns lengi eftir lestur þá hefur maður dottið niður á góða bók, það er mín mælieining í það minnsta. The country will bring us no peace eftir franska höfundinn Matthieu Simard er ein af þessum bókum. 

Marie og Simon flytja úr stórborginni í lítinn bæ á landsbyggðinni í Frakklandi. Þorpið er umvafið skógi og fallegt og virðist við fyrstu sýn geta skapað parinu hamingju. En íbúum fækkar. Verksmiðjunni, sem áður hélt lífi í bænum, hefur verið lokað og þeir sem sitja eftir eru undarlegir. Strax í byrjun bókar fær maður á tilfinninguna að eitthvað undarlegt eigi sér stað í bænum og í sögupersónurnar staðfesta það í upphafi bókar. Það er eitthvað hræðilegt yfirvofandi. Í skóginum skammt utan við bæinn hefur verið reist stórt loftnet, sem íbúarnir segja að sé rót alls ills og ástæða hnignunar bæjarins.  

 Hið þunga sem hangir yfir

Flutningur parsins í bæinn er litaður af örvæntingu, flótta, afneitun og svo djúpri sorg að það er eins og tárin renni af síðum bókarinnar. Tár og blóð. Hún verður þung í höndum manns. En á einhvern hátt smitast maður að sama skapi af djúpri afneitun parsins. Þau eru komin til bæjarins til að eignast barn. Þeim gengur það illa. Húsið þeirra er enn óuppgert, allt á rúi og stúi. Og íbúar þorpsins eru meira og minna sérvitringar, óáreiðanlegir, hegða sér undarlega. Bregðast við á undarlegan hátt. Þeir sem eru utanaðkomandi eins og Marie og Simon eru uppáþrengjandi borgarbúar sem dvelja í þorpinu með börnunum sínum á sumrin. Það eru jafnframt einu börnin í þorpinu. Marie og Simon finnst óþægilegt að vera í kringum börn.

Þetta er bók sem lýsir hversdagslegum athöfnum en hver síða er lituð af gríðarlegri sorg og hryllingi. Persónur eru óáreiðanlegar og óþægilegar. Frásögnin flakkar á milli fortíðar og nútíðar og á milli sjónarhorna Simon og Marie, stundum fær maður að sjá sömu atburðina frá mismunandi sjónarhorni. Hægt og rólega fær lesandinn að vita hvaða myrkur þau bera með sér. Í kjarnann er þessi nóvella saga af brotnu sambandi sem aldrei mun ganga saman aftur. Jafnvel þótt báðir aðilar vilji það. Dimmt gljúfrið á milli þeirra er barmafullt af myrkri og sorg og hryllingi sem þau munu aldrei ná að byggja brú yfir. 

Einnarlotulestur

The contry will bring us no peace er nóvella, hún er ekki nema rétt rúmlega hundað og tuttugu blaðsíður. Sjálf las ég hana sem rafbók og átti erfitt með að slíta mig frá henni og las hana í tveimur lotum. Ég mæli með hröðum lestri á bók sem þessari. Hún er uppfull af smáatriðum, sem jafnvel gleymast sé hún lesin í of mörgum lotum. Hún er ljóðræn og full af ókennilegu andrúmslofti og fékk mig oft til að leiða hugann að bíómyndinni As Bestast. Þar eru líka undarlegir heimamenn, óvild og ófriður og undarlegir atburðir, en þó ekki á sama hátt og í nóvellunni sem hér ræðir um. Það er erfitt að flokka bók sem þessa í einhvern flokk, en líklega er hún ljóðræn hrollvekja. 

 

Lestu þetta næst

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...