Verkið hefst á heimsókn aðalpersónunnar Ævars til föður síns, Birkis Ævarssonar. Senan er kunnugleg þeim sem eiga ástvini sem hættir eru að hugsa um sig. Í heimsókninni er Ævar minna að hlusta á föður sinn og meira að sinna honum, taka til í íbúðinni og athuga lyfjaboxið. Birkir er augljóslega veikur en þrátt fyrir það keðjureykir hann, hóstar, hugsar illa um sig og er farinn að taka til í geymslunni þó hann hafi ekki heilsu til. Ævar hefur ekki tíma til að stoppa lengi og rýkur af stað, en stuttu síðar deyr faðir hans. Ævar leitar þá aðstoðar útfararstofu Orfeusar þar sem hann hittir óvænt töfrandi satýr sem sendir hann í krefjandi ferðalag. Ævar skal leysa þrjár þrautir og þá getur hann endurheimt föður sinn frá sýslumanni dauðans.