Núna á dögunum kom út íslensk þýðing á barnabók eftir John Dougherty og Thomas Docherty (tilviljunin ein ræður þessum ótrúlega líku ættarnöfnum). Héraholan eða The Hare Shaped Hole eins og hún heitir á frummálinu er saga um vinina Hörpu og Skúla sem gera allt saman, jafnvel þó ólík séu. En einn daginn hverfur Harpa og Skúli situr eftir í sárum og miklum söknuði eftir þessum besta vini sínum. Í stað hennar kemur skuggi eða gat þar sem Harpa áður var og lesendur fylgjast með erfiðleikum Skúla við að sætta sig við breyttan heim. Loks hittir hann nýjan vin sem kennir honum að horfa á gatið sem Harpa skildi eftir sig með öðrum augum. Héraholan kemur út í þýðingu Önnu Leu Friðriksdóttur og Dögg Hjaltalín.
Kennsla í ákveðinni sorgarúrvinnslu
Bókin snertir á missi og sorg. Það kemur ekki fram afhverju eða hvernig Harpa hvarf en lesendur geta getið í eyðurnar. Eða foreldrar hjálpað börnunum að tengja sögu Skúla við eigin reynsluheim. Þetta er mjög falleg og sár saga. Hún snertir djúpt á ýmsar taugar. Þetta er nefninlega ekki bara bók til að kenna börnum um missi og sorgarúrvinnslu heldur er þetta einnig góð áminning fyrir þá fullorðnu. Sagan er erfið en huggun á sama tíma. Hún teygir sig í átt til lesenda og reynir að umfaðma þá, gefa þeim haldreipi í hverfulu og oft óskiljanlegu lífi. Hún kynnir sorgarúrvinnslu sem jafnvel margir stálpaðir vita ekki af og nýta sér aldrei – með tilheyrandi bælingu á tilfinningum. Að tala um þann sem er horfinn, að halda minningunni á lofti. Það er það sem er svo mikilvægt.
Markhópurinn allir sem eru mennskir
Anna Lea og Dögg hafa ákveðið í þýðingu sinni að gefa persónunum mjög manneskjuleg nöfn og gerir það að verkum að þau verða enn nærri reynsluheimi lesenda. Þetta er mjög mikilvæg bók inn í barnabókaflóruna og ég fagna því að hún hafi verið þýdd, en mikill skortur hefur verið á bókum fyrir börn á íslensku sem fjalla um dauðann. Það er þó ekki þannig að þessi bók sé eingöngu tilvalin fyrir þá sem hafa upplifað missi, alls ekki. Þetta er alltaf gott veganesti inn í lífið því eins og við vitum þá þurfum við öll einhvern tímann á lífsleiðinni að upplifa ástvinamissi. Oft hef ég velt því fyrir mér hvort bókaútgefendur halda að bækur um missi hafi of takmarkaðan markhóp, en markhópurinn er í raun allir sem eru mennskir. Svo er líka hægt að horfa á hvarf Hörpu á annan veg. Vinir koma og fara, flytja eða láta sig hverfa og þar kemur boðskapur bókarinnar einnig vel að notum.
Litrík en ljúfsár
Myndlýsingar dansa einstaklega vel við textann, þær fylla út í blaðsíðurnar og er bókin afar litrík. Héraholan er sérlega vel unnin bók og mikilvægi umfjöllunarefnisins talsvert. Foreldar ekki að veigra sér við að kynna börn sín fyrir flóknum og jafnvel framandi tilfinningaheimum. Og þrátt fyrir að þýðendur hafi ákveðið að sleppa því að yfirfæra rímið á íslensku að þá nær aðalkjarni sögunnar, hinn fallegi boðskapur, vel í gegn. Viðfangsefnið er erfitt og krefst umræðna við börnin eftir lestur en það er svo dásamlegt þegar að hægt er að nýta sér skáldskap, og það á myndrænan hátt, í úrvinnslu á erfiðum tilfinningum.