Fyrsta skref í átt að skilningi

ADHD fullorðinna kápa

ADHD fullorðinna kom út fyrr á árinu á vegum Eddu útgáfu. Höfundarnir, Bára Sif Ómarsdóttir og Sóley Dröfn Davíðsdóttir, eru sálfræðingar og með reynslu af greiningu og ráðgjöf vegna ADHD.

Markmið bókarinnar er að varpa ljósi á ADHD eins og það kemur fram á fullorðinsárum, en eins og höfundarnir hafa sagt sjálfar frá í viðtali þá fannst þeim „vanta lesefni hjá fullorðnum” um ADHD. Einkennin breytast nefnilega aðeins með aldrinum en talað er um að fullorðnir finni fyrir meiri „innri óróa“ heldur en börn.

Bókin er bæði skrifuð fyrir þá sem glíma við vandann og fyrir þá sem vilja skilja fólkið í kringum sig betur. Stiklað er á stóru um viðfangsefnið en meðal þess sem fjallað er um í bókinni eru grunneinkenni og orsakir ADHD, þróun einkenna, tengd vandamál, greiningarferli, meðhöndlun og svo mætti áfram telja.

Óstjórn á taugaboðefnum

Tekið skal fram að höfundur þessarar umfjöllunar er ekki með ADHD þannig að ég las bókina með það fyrir augum að skilja betur fólkið í kringum mig. Ef við erum ekki sjálf að glíma við vandann þá höfum við flest öll á einhverjum tímapunkti kynnst, þekkt, unnið með, verið gift eða alið upp manneskju með ADHD. Hvort sem viðkomandi manneskja viti að hún er með ADHD eða ekki. Ég myndi því halda að flestir, ef ekki allir, hafi gagn af því að kynna sér betur þennan vanda en í byrjun bókar kemur fram að áætlað sé að um 5% barna og 2,5% fullorðinna glími við ADHD. Hlutfallið gæti þó verið enn hærra.

Efni bókarinnar er skipt upp í kafla eftir viðfangsefnum. Þeir eru stuttir og hnitmiðaðir sem er gott, jafnvel nauðsynlegt ef litið er til markhópsins. Því er hægt að stökkva inn og út úr bókinni án þess að það komi mikið niður á lestrinum.

Það sem vakti athygli mína helst var m.a. kaflinn um hvað veldur ADHD. Þar kemur fram að ADHD má að langstærstum hluta rekja til erfða sem hafa áhrif á taugaboðefni. Þegar ADHD á í hlut virðast gen erfast sem hafa áhrif á losun þessara boðefna, sérstaklega dópamíns, noradrenalíns og serótóníns. Lyf við ADHD auka magn dópamíns og noradrenalíns í framheila og efla virkni miðtaugakerfisins. Þessi kafli er kannski mest fræðilegur en hefði mátt vera mun lengri að mínu mati, en það er bara persónulegur smekkur.

Íslensku þjóðarsálinni svipar svolítið til fólks með ADHD; hlutir eru teknir með trukki, hugmyndaauðgin mikil og litið svo á að allt reddist.

Auk þess var áhugavert að lesa kaflann um ADHD einkenni kvenna en þær hafa lengi verið vangreindar vegna þess að birtingarmynd einkenna þeirra er oft öðruvísi en hjá körlum. Þrátt fyrir það hefði ég líka viljað sjá sér kafla um birtingarmynd ADHD einkenna hjá körlum.

ADHD er bæði of- og vangreint hérlends.

Allir fundið fyrir ADHD-líkum einkennum

Umræðan um ADHD er orðin meiri og opnari hérlendis. Höfundar tala um að mögulega eigi fólk með ADHD erfiðara uppdráttar í látunum í samfélagi nútímans og að það skýri kannski aukna ásókn í greiningar og meðhöndlun. Í þessu samhengi hefði verið áhugavert að sjá umræðu um „áunninn athyglisbrest“ sem margt nútímafólk virðist haldið en það er kannski efni í aðra bók.

Auðvitað er vert að taka því fagnandi að umræðan um ADHD sé orðin opnari og almennari svo að fólk sem sannarlega þarf á því að halda setji það ekki fyrir sig að leita aðstoðar. En stundum finnst mér mörkin á milli ADHD einkenna og venjulegs mannlegs breyskleika þurrkast út. Hver kannast ekki við að hafa heyrt einhvern segja „ég gleymdi þessu, ég er með svo mikið ADHD” eða eitthvað í þá áttina. Því er vert að hafa í huga að hjá þeim sem eru með ADHD eru einkennin það mikil að þau eru fólki fjötur um fót á ýmsum sviðum lífsins.

Mikilvægt fyrsta skref

Praktísk atriði eins og uppsetning textans skiptir máli þegar svona viðfangsefni er til umræðu. Letrið í bókinni er brúnt og mér fannst það stundum dálítið erfitt yfirlestrar. Það vantaði meiri skerpu. Mögulega hefði líka farið betur að velja aðra leturgerð. Einhverja steinskrift (sans-serif letur). En efnið er reglulega brotið upp með listum, kössum og samantektum sem er gott.

Það er ekki nóg að lesa bók um ADHD og greina sjálfan sig með, eða ekki með ADHD. En bækur eins og ADHD fullorðinna geta gefið mikilvægar vísbendingar. Bókin er gott fyrsta skref. En viðurkennt greiningarferli er nauðsynlegt fyrir rétta greiningu og meðhöndlun því það er vel hægt að vera með einkenni sem svipar til ADHD en rót vandans er önnur. Þetta er skýrt tekið fram í bókinni sem er vel.

Í formála kemur fram að markmiðið með bókinni sé að auka skilning á ADHD, hvort sem hún er lesin til að skilja sjálfan sig betur eða aðra. Í stuttu máli má segja að höfundum tekst það sem lagt er upp með. Eftir lestur bókarinnar skil ég betur ADHD eins og það kemur fram hjá fullorðnum. Bókin er skrifuð fyrir almenning og höfundum tekst vel að koma efninu frá sér á skýran og aðgengilegan máta.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...