Að syrgja er að elska

24. nóvember 2024

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk, Bara Edda, undir merkjum Pirrandi útgáfu. Bróður – eða systurverk bókarinnar er Ógeðslegir hlutir eftir Sunnevu Kristínu, sem lesa má um hér, en báðar eru bækurnar ljóðrænar smásögur, smásagnaleg ljóðasöfn, jafnvel örskáldsögur, sem liggja á mörkum bókmenntategunda og anda ferskum blæ inn í jólabókaflóðið góða.

Áður hefur Daníel gefið út ljóðabókina/skrifblokkina Ég get ekki hætt að hugsa um Rithöfundasamband Íslands árið 2023. 

 

Hús verður til 

Í Bara Eddu fylgjumst við með Eddu, húsi íslenskunnar, vaxa úr grasi, frá því að vera hola í að verða að húsi. Um leið fylgjumst við með þeim sem sækja húsið heim. Skjalavörðum, rottum, tyggjóklessum, elskhugum, húsvörðum og öllum hinum, sem reika í ljóðrænum margbreytileika um ranghala íslenskunnar og húsið sem hana verndar.

„Tungan skoppar eins og amma sér hana skoppa, niður þrepin og upp í málleysingja.“

bls. 101

Fyndið og fljótandi bókmenntaverk

Bókin er mjög fyndin, næm og sterk, og heldur lesanda á tánum með því að halda mörkum veruleika og hins skáldlega loðnum. Það gerir það meðal annars með því að vísa í formæður ljóðmælanda, að hringla með kynjuð fornöfn, og bjóða upp á misvísandi upplýsingar á milli síðna. Er ljóðmælandinn húsið sjálft? Er hver hæð að tala við lesanda, segja honum leyndarmál sín og upplifanir? Amma kemur fyrir í skáletruðum milliköflum, er hún Edda sögunnar, Edda eins og formóðir, amma okkar allra? Er ljóðmælandi þjóðin í heild sinni? Skiptir það máli? Hvert sem svarið er leyfi ég hverjum lesanda að ákveða fyrir sig, en ég mæli eindregið með að láta sig hverfa ofan í frjóan og áhugaverðan hugarheim Daníels sem veltist um í tómarúmi íslenskunnar, ljóðanna og orðanna.

Lestu þetta næst

Óskar er einhverfur

Óskar er einhverfur

Óskar elskar lestir: Bróðir minn er einhverfur eftir Ernu Sigurðardóttir Hvernig myndi þér líða ef...

Forrest Gump Íslands

Forrest Gump Íslands

Óli K. er fagurlega gerð ljósmyndabók með ævisögulegu ívafi um líf og störf ljósmyndarans Ólafs K....