Jósefína, Emma og Amanda – vinkonur í orðsins fyllstu

12. desember 2024

Fyrir nokkrum vikum skruppum við mæðgur á bókasafnið eins og við gerum ansi oft en undirrituð á 12 og 10 ára dætur sem eru bókaormar líkt og móðirin. Þar rákumst við á bækur sem tilheyra Vinkonu bókaseríunni og eru gefnar út af Bókabeitunni í þýðingu Ingibjargar Valsdóttur. Við höfðum heyrt um þessar bækur áður en aldrei lesið, en þarna ákváðum við að fá þær lánaðar og lesa þær saman. Þetta eru bækurnar Bekkjardrottningin, Leyndarmál Emmu og Youtuber í einn dag. Það hjálpaði líka að nú í lok nóvember kom út fjórða bókin Jólaverkefnið sem er einskonar jóladagatalsbók. Hana má lesa í einni beit en það má einnig lesa einn kafla á dag í desember en kaflarnir eru 24 talsins – einn fyrir hvern dag fram að jólum. Við vorum forvitnar um þá bók og okkur fannst spennandi að eiga jóladagatalsbók til að lesa í desember svo við ákváðum að byrja á seríunni og vinda okkur svo í jólabókina.

Þrjár vinkonur í aðalhlutverki

Bækurnar snúast um vinkonurnar Jósefínu, Emmu og Amöndu og þeirra ævintýri. Sú fyrsta, Bekkjardrottningin, er sögð út frá sjónarhóli Jósefínu. Þar glímir hún við ýmis vandamál tengd vináttu og lærir hvernig vinátta getur verið allskonar og hvernig hún getur þróast eftir því sem við eldumst. Í annarri bók seríunnar er Emma í aðalhlutverki en nafn bókarinnar, Leyndarmál Emmu, gefur það mögulega til kynna. Emma er byrjuð í nýjum bekk og þarf að finna út hvað hlutverk hennar er í þessum nýja bekk en hún er orðin þreytt á að vera alltaf stillta stelpan. Hún segir eina litla hvíta lygi sem vex og vex og setur Emmu á endanum í smá vandræði. Youtuber í einn dag er svo þriðja bókin og bókin þar sem Amanda er aðalpersónan. Amanda sem hefur alltaf verið svolítið til hliðar og ekki sóst eftir mikilli athygli verður allt í einu vinsæl eftir að myndband sem hún gerði fyrir keppnina „Youtuber í einn dag“ slær í gegn. Amanda þarf að takast á við þær tilfinningar sem fylgja því að fá allt í einu gríðarlega athygli en líka þær afleiðingar sem breytt staða getur haft á vináttu. 

Áhugaverðar, skrítnar og skemmtilegar

Jólaverkefnið er svo skemmtileg bók til að lesa á aðventunni, þá sérstaklega ef maður hefur lesið hinar bækurnar en hún stendur þó einnig ein og sér. Vinkonurnar þrjár hafa nóg að gera í desember. Jósefína ætlar sér að setja á svið öðruvísi, meira töff Lúsígöngu og Amanda er að gefast upp á kaupæðinu sem grípur fólk um jólin. Hún vill að við hugsum meira um umhverfið þegar við gefum gjafir. Ofan á þetta þá fá stelpurnar það hlutverk að aðstoða greifa sem býr í höll í bænum með dýrin sín en upp er þó komin sú staða að mögulega verða dýrin heimilislaus.  Við mæðgur getum ekki enn sagt til um hvernig okkur finnst Jólaverkefnið í heild því þegar þetta er skrifað er 9. desember og við því ekki hálfnaðar með bókina en hún lofar góðu og er skemmtileg afþreying. 

Þessar bækur eru kannski ekki mjög djúpar en þær eru samt sem áður alveg passlegar fyrir þann aldurshóp sem þær eru ætlaðar fyrir. Þær taka fyrir ýmis málefni sem er gott að vera minntur á og hafa gefið okkur mæðgum tækifæri til að ræða ýmislegt m.a. hvað vinátta er, hvaða þýðingu hún hefur fyrir okkur og hvernig hún getur þróast og breyst. Sem foreldri þykir undirritaðri þessar bækur líka fínar fyrir börnin til að lesa ein og sér. Þær geta vakið þau til umhugsunar um ýmis málefni sem mögulega eru í þeirra lífi án þess að gera það á of flókinn hátt. Svo eru þær hæfilega langar með passlega flókinn orðaforða. 

Þegar ég spurði dæturnar hvernig þeim þætti bækurnar komu orð frá þeim eins og áhugaverðar, skrítnar og skemmtilegar. Við mælum með!

Lestu þetta næst