ljósbrot

Ragnheiður Jónsdóttir hlaut á síðasta ári glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn fyrir sína fyrstu glæpasögu, Blóðmjólk. Bókin hlaut góðar viðtökur og tryggði Sigurjón Sighvatsson sér nýverið réttinn að henni til að framleiða sjónvarpsþætti. Nú er Ragnheiður mætt til leiks á ný í jólabókaflóðið, að þessu sinni með bókina Svikaslóð.

 

Listaspírur í aðalhlutverki

Um sjálfstæða bók er að ræða en Svikaslóð á þó ýmislegt sameiginlegt með Blóðmjólk, ekki er um hefðbundinn krimma að ræða þar sem lögreglan leysir málið heldur um venjulegt fólk í leit að svörum. Sagan er sögð í fyrstu persónu frá sjónarhorni mismunandi aðalpersóna, skipt er reglulega á milli sjónarhorna og eru kaflarnir stuttir. Blóðmjólk var kölluð skvísukrimmmi enda um vinkvennahóp og sagt frá sjónarhorni þeirra en ekki er um annan skvísukrimma að ræða að þessu sinni. Í stað þess er um hjónabandskrimma að ræða en Svikaslóð segir frá Sverri, farsælu leikskáldi og leikstjóra. Hann er giftur yngri leikkonu, Lísu, og lifa þau hjónin og hrærast í listasenunni í Reykjavík. Frægðarsól hans skín bjart en Lísa hefur fallið í skugga hans og tekur aðalábyrgðina á heimilinu og ungum syni þeirra Kristmundi Kára.

 

Margt misjafnt í gangi

Í upphafi bókarinnar eru Sverrir og Lísa á leið í draumafríið, að minnsta kosti á yfirborðinu, til Kosta Ríka ásamt Kristmundi Kára. Fríið endist þó stutt því tvítugur sonur Sverris úr fyrra sambandi, Tumi, hverfur á meðan þau eru úti og reynist myrtur í húsinu þeirra þegar heim er komið. Þetta er mikið sjokk enda erfitt að skilja hver hefði viljað ráða Tuma, ungum og ólífsreyndum tölvuleikjaspilara, bana. Sverrir hefst strax handa við að grafast fyrir um hvað gerðist, en hann á sér heldur betur mörg leyndarmál. Það er hálf kómískt að einn af drifkröftum þess að hann vill leysa málið er að hann vill helst ekki þurfa að vera í samskiptum við rannsóknarlögreglu málsins þar sem Sverrir er að halda við konuna hans. Lísa, sem virðist hafa átt í betri tengslum við Tuma sem var gleymda fyrsta barnið, fer einnig af stað með eigin rannsókn á málinu og fljótlega kemur margt misjafnt í ljós um samband þeirra og líf.

 

Öðruvísi krimmi

Ragnheiður starfar sem málfarsráðunautur hjá Ríkisútvarpinu og ljóst að hún hefur mjög gott vald á stíl. Líkt og með Blóðmjólk rann textinn lipurlega og fannst mér frásögnin grípandi, sérstaklega þegar á leið. Mér reiknast til að ég hafi lesið að minnsta kosti 50% af síðari hluta bókarinnar í einni beit. Bókin speglar tíðarandann þar sem fína og fræga fólkið virðist vegna samfélagsmiðla vera að lifa hinu fullkomna lífi en þetta er að sjálfsögðu bara glansmynd og margt kraumandi undir niðri. Í byrjun bókarinnar er Sverrir í þætti sem minnir óneitanlega á vikuna með Gísla Marteini og margt sem man tengir við í gagnrýni á yfirborðsmennsku. Sverrir er reyndar alveg hrikalega slæm týpa, þannig að mér fannst næstum um og of en hliðarspor hans og siðleysi henta mjög vel fyrir góða framvindu í sögunni. Lísa fannst mér trúverðugari karakter og endurspeglar hún stóran hóp kvenna sem enn þann dag í dag tekur allt of mikla ábyrgð á heimilishaldi og barnauppeldi vegna „mikilvægs ferils“ mannsins síns. Ljóst er að Ragnheiður er krimmahöfundur sem hefur gott vald á uppbyggingu, spennnu og söguþræði sem kemur á óvart. Það verður gaman að fylgjast áfram með henni en ég held einmitt að þessi týpa af krimma höfði til hóps sem er orðinn þreyttur á formúlukenndum lögreglukrimmum.

Lestu þetta næst

Valkyrjur valda óskunda

Valkyrjur valda óskunda

Þegar ég var krakki sótti ég rosalega mikið í ævintýrabækur og furðusögur. Það voru bækurnar sem...

Upp og niður stiga

Upp og niður stiga

Ljóðakollektívið Svikaskáld er orðið flestum kunnt enda hafa nú fæðst fimm skáldverk frá þessari...