Perlur úr síðasta flóði – Leslisti

30. mars 2025

Það er engin leið fyrir nokkurn að komast yfir það að lesa allar bækurnar sem koma út fyrir jól. Við í Lestrarklefanum tókum saman nokkrar bækur sem okkur finnst að hefðu mátt fá meiri athygli í síðasta flóði.

Hvíti ásinn eftir Jóhönnu Sveinsdóttur 

Ég varð virkilega spennt þegar ég fékk Hvíta ásinn í hendurnar en hér er um að ræða nýja ungmennabók sem er fyrsta skáldsaga höfundarins Jóhönnu Sveinsdóttur. Úrvalið fyrir ungmenni þetta árið var því miður ekki mikið þannig það er alltaf fagnaðarerindi að fá nýja höfunda inn á markaðinn. Bókin er blanda af furðu- og framtíðarsögu þar sem heimur ása og vætta gegnir mikilvægu hlutverki í heimi mannfólksins sem virðist að farast vegna náttúruhamfara. Aðalsöguhetjan, Iðunn, hefur verið í felum með pabba sínum í Noregi allt sitt líf og missti mömmu sína í hræðilegu slysi ung að aldri. Tilvera hennar breytist þegar feðginin flytjast til Vígisfjarðar á Íslandi og hún hefur nám í Vættaskóla. Ég hafði mjög gaman af bókinni og fékk góða nostalgíu tilfinningu þar sem lesturinn minnti mig á þegar ég var að lesa Harry Potter sem barn. 

Rebekka Sif

Stargate eftir Ingvild Rishoi

Stargate eftir Ingvild Rishoi er yndisleg og nístandi jólasaga sem kom út síðasta haust en lét ekki fara mikið fyrir sér. Hún hefur farið sigurför um heiminn og verið þýdd á fjölda tungumála. Ég hvarf alveg ofan í lesturinn og fann innilega til með Ronju, ungu söguhetju bókarinnar. Faðir hennar er alkóhólisti og hálfgjör ónytjungur og Ronja og eldri systir hennar þurfa að sjá um sig sjálfar. Ástandið á heimilinu virðist þó ætla að skána þegar faðir þeirra fær vinnu við að selja jólatré. En eins og í þessum klassísku jólasögum, Stúlkunni með eldspíturnar og Jólaævintýri Dickens, grípa örlögin inn í – blákaldur veruleikinn kemur í veg fyrir jólakraftaverk. Bókin hefði mátt vera með meira grípandi kápu, jólalegri líkt og er á norsku útgáfunni og svo hefði verið gott fyrir tilvonandi lesendur að sjá undirtitilinn jólasaga sem einnig má finna á norsku útgáfunni. En ekki láta þess bók framhjá ykkur fara, ég mæli innilega með henni!

Rebekka Sif

Svikaslóð eftir Ragnheiði Jónsdóttur

Skálds saga eftir Steinunni Sigurðardóttur

Stórskáldið Steinunn Sigurðardóttir hefur nú fært okkur bók þar sem hún fer yfir sína eigin sögu sem skáld. Bókin er ferðalag, bæði á milli skrifstaða og skáldverka. Hún fer með lesandann vítt og breitt um heiminn og gefur honum innsýn inn í sköpunarferli bóka sinna. Oft er hún á persónulegu nótunum þó hún haldi ritstörfunum í forgrunni. Merkilegt er að lesa um fyrstu skref hennar í bókmenntabransanum en ungar skáldkonur þurftu að berjast fyrir sínu plássi. Ég skemmti mér við lesturinn og sem rithöfundur sjálf fannst mér forvitnilegt að fá innsýn inn í vinnuaðferðir Steinunnar, sem hafa nú svínvirkað í allmörg ár. 

Rebekka Sif 

 

Kynsegin eftir Maia Kobabe

Grafíska sjálfsævisagan Gender Queer  kom út árið 2019 en var þýdd af Mars Proppé og Elíasi Rúna á íslensku í fyrra. Í Kynsegin, eins og bókin heitir á íslensku, segir myndasagnahöfundurinn Maia Kobabe frá því hvernig hín áttaði sig á að hín var kynsegin og eikynhneigt. Hín notar aðgengilegar myndlýsingar og fallega litapallettu, blandar saman húmor og sorg og öllu sem liggur þar á milli og myndar líf, til að segja uppvaxtarsögu sína. Ég mæli eindregið með þessari gullfallegu bók þar sem bæði er hægt að fræðas tum hinsegin málefni og læra ýmis hinsegin nýyrði, sem og að skemmta sér vel. Ég skrifaði lengri færslu um bókina fyrir jólin, en fannst hún þó ekki fá alveg næga athygli á öðrum vettvangi. Þá veit ég að sumir hika við að lesa grafískar skáldsögur, en ég hvet alla til þess að prófa þetta lesform. En þar blandast saman teikningar og texti sem opnar á ýmsar nýjar víddir í heilanum.

Sjöfn Asare

Aðlögun eftir Þórdísi Gísladóttur

Skondin ljóðabók á léttu nótunum sem ég tel að sé fullkomin fyrir þá sem vilja detta inn í góða bók á stuttum tíma. Tilvalið fyrir fólk í fæðingarorlofi sem hefur ekki endilega tíma til aflögu eða athyglisspan í að fylgja flóknum fléttum, en kann að meta lágstemmd ljóð um lífið sjálft. Ég held að bókin sé sérstaklega góð gjafavara, því jafnvel þeir sem lesa ekki mikið af ljóðum gætu vel haft gaman af. Myndskreytingarnar í bókinni eru líka fallegar og gleðja augað, ég er ánægð að sjá stöðugt meira af teikningum í bókum fyrir fullorðna, enda þeir alveg jafn hrifnir af því að horfa á eitthvað fallegt og börn.

Sjöfn Asare

Einurð eftir Draumeyju Aradóttur

Ljóðabókin Einurð, sem er sjöunda verk höfundar, fjallar um samband móður og sonar sem er á einhverfurófi. Ljóðabókin hefst í móðurkviði, við getnað, og hlustar lesandi á rödd fósturs, svo barns, sem á fullorðinsárum tilkynnir móður sinni að hann þurfi ekki á henni að halda lengur, þó hún þurfi hann enn. Ég las þessa bók í einni beit og fór næstum að gráta svona þrisvar. Hún er falleg, djúp og einstök, skrifuð af næmni móður sem alið hefur upp barn. Svo er kápan líka ofsalega falleg. Mér finnst einurð líka svo ótrúlega fallegur og djúpur titill, sem fangar forskeytið ein eins og í einhverfa, en urð er svo margslungið orð, urð og grjót, og saman sem orðið einurð þýða þau ákveðni eða festa. Fólk á einhverfurófi er oft skilgreint sem ákveðið og vanafast, og þá á neikvæðan hátt, en einurð, það er eitthvað dýpra og fallegra sem býr þar. Í heildina er fallegt að lesa verk þar sem samband einhverfs barns og móður er jákvætt og fallegt en ekki byrði eða sorg eins og ég sé svo ömurlega oft.

Sjöfn Asare

Lestu þetta næst

Óskar er einhverfur

Óskar er einhverfur

Óskar elskar lestir: Bróðir minn er einhverfur eftir Ernu Sigurðardóttir Hvernig myndi þér líða ef...

Forrest Gump Íslands

Forrest Gump Íslands

Óli K. er fagurlega gerð ljósmyndabók með ævisögulegu ívafi um líf og störf ljósmyndarans Ólafs K....

Marglaga og mannlegur Laddi

Marglaga og mannlegur Laddi

Ég var mjög óviss þegar ég sá fyrstu auglýsingar birtast fyrir nýja sýningu um líf og störf Ladda...

Hratt, hratt…hægt

Hratt, hratt…hægt

Mér er það afar minnisstætt þegar ég fletti fyrst í gegnum Reese's Book Club í leit minni að góðri...