Sniðugar árstíðarverur

15. apríl 2025

ljósbrot

Þessi bók er tileinkuð öllum þeim börnum sem alast upp við íslenskt veðurfar.

Ég held að barnabókin Árstíðarverur eftir Diljá Hvannberg Gagu og Linn Janssen sem kom út á dögunum hafi náð mér strax með þessari tileinkun.

Bókin, eins og titillinn og tileinkunin gefa til kynna, segir frá árstíðarverunum, Sumri, Vetru, Voru og Hausti sem skólastrákurinn Bjarni kynnist. Árstíðarverurnar eru að rífast og kunna ekki að skiptast á. Um er að ræða stutta og fallega bók sem tilvalið er að lesa fyrir lítil börn fyrir svefninn. Mín þriggja ára var mjög ánægð með fyrstu kynni og bað strax um að bókin yrði lesin aftur áður en ljósin yrðu slökkt!

 

Árstíðirnar læra að skiptast á

Árstíðarverur gerist að vori í ónefndu plássi á Íslandi. Hún hefst á því að Bjarni kveður mömmu og pabba til að ganga í skólann. Þegar í skólann er komið ræðir kennarinn við börnin um árstíðirnar. Næsta dag er byrjað að snjóa þó að  komið sé vor.

Kennarinn sagði í gær að nú væri komið vor. Af hverju snjóaði þá? Á ekki að vera hlýtt? Blómin geta ekki sprungið út þegar jörðin er þakin snjó. segir Bjarni.

Þarna kjarnar Bjarni það sem við Íslendingar hugsum stanslaust og ræðum einnig stanslaust. Sumir vilja einfaldlega meina að hér séu engar árstíðir bara vetur árið um kring og að stundum láti sólin sjá sig á hásumri! Meðan Bjarni er í þessum hugsunum gengur hann upp fjall og rekst á höll þar sem fjórar skrautlegar verur koma gangandi út. Þetta eru árstíðarverurnar; Sumar, Vetra, Vora og Haust sem eru að rífast. Bjarni kemst í kynni við þessar skemmtilegu verur sem allar hafa eitthvað til síns máls þegar þær tala fyrir sinni árstíð. Vandamálið er að þær kunna ekki að skiptast á. Bjarni talar um fyrir þeim og miðlar sinni reynslu af því að læra að skiptast á með Unu litlu systur sinni. Bjarni kveður svo verurnar og fer og hittir fjölskylduna sína. Hann geymir leyndarmálið um árstíðarverurnar fyrir sig en það er friður á milli árstíðanna. Að minnsta kosti í bili. Ef bara hlutirnir væru svona einfaldir í raunveruleika okkar Íslendinga!

Falleg og vönduð bók

Bókin er harðspjalda og hefur verið vandað til verka varðandi uppsetningu og umbrot. Linn Janssen var tilnefnd til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur 2024 fyrir myndlýsingar sínar í bókinni Einstakt jólatré. Myndir hennar í Árstíðarverum eru afar fallegar, sérstaklega eru Árstíðarverurnar sjálfar skemmtilega fjölbreyttar. Mér þótti svo krúttlegt að haustið væri með gleraugu því það minnir mig á lestur og skólann. Það er ekki mikill texti á hverri síðu svo að bókin ætti að henta leikskólabörnum sem er lesið fyrir en hún gæti líka nýst börnum sem eru að læra að lesa í fyrstu bekkjum grunnskóla til að æfa sig.

Árstíðarverur er fyrsta barnabók Diljá Hvannberg Gagu en hún er sjálf tveggja barna móðir og verslunarstjóri hjá Pennanum og virðist greinilega vita hvað hittir í mark hjá yngri lesendum. Ég vona að hún og Linn Janssen þrói fleiri ævintýrabækur saman!

Lestu þetta næst

Óskar er einhverfur

Óskar er einhverfur

Óskar elskar lestir: Bróðir minn er einhverfur eftir Ernu Sigurðardóttir Hvernig myndi þér líða ef...

Í dótaheimi

Í dótaheimi

Fyrir mörgum árum síðan, í fyrndinni, las ég sjálf ljóð Þórarins Eldjárns. Þegar ég eignaðist mín...