Skáldsagan The Emperor of Gladness eftir Víetnamísk-Ameríska skáldið Ocean Vuong kom út fyrr í ár og hefur farið sigurför um heiminn en hún var valin bók mánaðarins í maí í bókaklúbbi Opruh. Þetta er önnur skáldsaga Vuong en hann hefur áður gefið út skáldsöguna On Earth We’re Briefly Gorgeous (2019) ásamt ljóðabókunum Night Sky With Exit Wounds (2016) og Time Is a Mother (2022). 

Bókin gerist árið 2009 og fjallar um hóp af persónum sem búa í litlum smábæ í Connecticut að nafni East Gladness. Bærinn er einangraður, eins og segir í upphafi stoppar enginn utanaðkomandi þar, og þessi einangrun endurspeglast í einmanaleika persónanna í bókinni. Ásamt einmanaleika er sjónum beint að innflytjendum, flóknum fjölskyldusamböndum, fíkn og hinseginleika líkt og í fyrri verkum höfundar.

“If you aim for Gladness and miss, you’ll find us. For we are called East Gladness.” (bls. 3)

Stríð og friður

Í upphafi bókarinnar kynnumst við 19 ára drengnum Hai sem ætlar sér að stökkva fram af brú en Grazina, kona á níræðisaldri sem býr við árbakkann, kemur að honum og sannfærir hann um að snúast hugur. Þar sem samband Hais við móður sína er flókið treystir hann sér ekki til þess að fara heim. Því bíður Grazina honum að búa hjá sér endurgjaldslaust ef hann aðstoðar hana heima við en hún er með elliglöp. Djúp vinátta myndast á milli þeirra þrátt fyrir breitt aldursbil en þau eiga það bæði sameiginlegt að vera innflytjendur. Grazina flutti á unglingsaldri frá Litháen undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar og Hai var tveggja ára þegar fjölskylda hans flutti til Bandaríkjanna frá Víetnam.

Líf þeirra beggja hafa því litast af stríði en stríð er alltumlykjandi í sögunni þar sem fortíðin og nútíðin mætast og rekast jafnvel saman. Elliglöp Grazinu valda því að hún lifir annars vegar í nútímanum og hins vegar í fortíðinni. Reglulega fær hún eins konar köst þar sem hún er enn 17 ára stúlkan undir lok síðari heimsstyrjaldarinnar sem er að flýja til Bandaríkjanna frá Hitler og Stalín. Í þessum tilfellum ferðast Hai með henni aftur í tímann og fer í hlutverk Sgt. Pepper, bandarísks hermanns og bandamanns Grazinu. Hai á auðvelt með að breyta sér í Sgt. Pepper því Sony, yngri frændi Hais, er á einhverfurófinu og áhugamál hans einskorðast við bandarísku borgarastyrjöldinni og talar hann því lítið um annað. Allar þessar styrjaldir endurspeglast svo í innra stríði Hais en hann er að glíma við eiturlyfjafíkn. 

Von og vonleysi

Eftir að Hai flytur inn til Grazinu fær hann vinnu í gegnum Sony á veitingastaðnum HomeMarket sem selur þakkargjörðarhátíðarmat allan ársins hring. Að vinna svo mikið og náið með fólki skapar djúp tengsl. Það líður því ekki langur tími þar til hópurinn verður eins konar fjölskylda þar sem þau styðja hvert annað bæði innan og utan vinnutíma. Líkt og samband Hai og Grazinu virðist þessi tenging hans við vinnufélagana heldur óvenjuleg þar sem þau eru öll svo ólík. En allar persónurnar í bókinni eru á einhvern hátt á jaðrinum og tengjast í gegnum erfiðleika sína. Þau þurfa því ekkert meira en það að vera mannleg til að eiga eitthvað sameiginlegt. Sorgin er því ekki alslæm þar sem hún gerir okkur kleift að tengjast hvort öðru og stundum finnum við vonina einmitt þegar við teljum vonleysið algjört. 

En þrátt fyrir mikla sorg og baráttu í bókinni er einnig talsvert um gleði og léttari augnablik sem fá mann til að hlæja upphátt við lesturinn. Vuong á einnig í samtali við önnur verk þar sem hann vísar bæði í töluvert af lögum og skáldverkum. Karamazov-bræðurnir eftir Fjodor Dostojevskí er þar eins og aukapersóna þar sem aðalpersónan á í sérstöku sambandi við bókina og er í miðjum lestri á henni í sögunni. Jafnframt vísar Vuong beint í verk Dostojevskís með línunni: “But don’t be afraid of life, son. Life is good when we do good things for each other” (bls. 396). Þessi setning kristallar helstu skilaboð bókarinnar þar sem hún er eins konar ákall um að við veljum kærleikann ofar öllu.

Ameríski draumurinn

Að vanda skrifar Vuong af mikilli næmni um erfið og flókin málefni. Textinn er ljóðrænn og fallegur og persónurnar gæddar svo miklu lífi að þær munu ásækja lesendur eftir lesturinn. Með bókinni er hann greinilega að gagnrýna stríð og tilgangsleysi þess. En hann er einnig í grunninn að gagnrýna hugmyndina um ameríska drauminn. Draumurinn er í raun lygi, eins og við sjáum, því það hafa ekki öll tök á því, eða vilja, til þess að flytja í stórborgina. Hin raunverulega Ameríka er því venjulega fólkið sem býr í sama smábænum allt sitt líf og það fólk á jafn mikinn rétt á að fá sögu sína sagða eins og við sjáum berum augum í The Emperor of Gladness.

Lestu þetta næst

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...